10.12.1980
Neðri deild: 27. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

66. mál, tollheimta og tolleftirlit

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 72 er flutt frv, til l. um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit nr. 59 frá 28. maí 1969, með síðari breytingum. Þá er og á þskj. 73 flutt frv. til l. um breyt. á sömu lögum og á þskj. 74 flutt frv. til l. um breyt. á lögum nr. 120/1976, um tollskrá o.fl., með síðari breytingum.

Það er öllum þessum frv. sameiginlegt, að þau eru flutt til þess að koma fram þeirri breytingu á lögum um tollheimtu og tolleftirlit, að hér á landi verði hægt að taka upp það fyrirkomulag sem tíðkast hefur víða í löndum í kringum okkur, að veittur er frestur á greiðslu aðflutningsgjalda. Þessi greiðslufrestur hefur oft verið nefndur tollkrít. Frv. á þskj. 72 er um það atriði sérstaklega, en frv. á þskj. 73 og 74 fjalla hins vegar um breytingu á lögum um tollheimtu og tolleftirlit og um tollskrá sem beinlínis er afleiðing af því að Alþingi samþykki það frv. sem ég nú mæli fyrir.

1. flm. frv. á þskj. 73 og 74, hv. 10. þm. Reykv.— sem jafnframt er 2. flm. frv. sem ég mæli hér fyrir — mun hér á eftir gera grein fyrir þeim tveimur frv. sem síðar eru á dagskrá þessa fundar.

Það er öllum kunnugt, sem fylgst hafa með innflutningsmálum okkar, að þeir aðilar, sem hafa innflutningsverslun að atvinnu, eru þess mjög fýsandi, að hægt sé að taka upp fyrirkomulagið sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Samtök þeirra hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga, og ég fékk tækifæri til þess árið 1976 að sitja ráðstefnu hjá þeim og hlýða á þau sjónarmið sem þeir höfðu fram að færa í sambandi við þetta málefni.

Ég var þeirrar skoðunar eftir þær umræður, sem þar fóru fram, að hér væri um að ræða mjög athyglisvert mál sem vert væri að gefa gaum, og ég beitti mér því fyrir því, er ég gegndi embætti fjmrh., að skipuð var nefnd til að vinna að endurskoðun þessara laga. Í upphafi gerði ég ráð fyrir að haga störfum þessarar nefndar þannig, að fram kæmi frv. um tollkrít þar sem Alþingi gæti tekið afstöðu til þess máls sérstaklega. Ef Alþingi samþykkti það frv. héldi þessi nefnd áfram störfum og endurskoðaði lögin með tilliti til þeirrar samþykktar sem Alþingi þá hefði gert.

Nefnd þessi var skipuð ríkisendurskoðanda og tollstjóra og auk þess Júlíusi Sæberg Ólafssyni framkvæmdastjóra og Hjalta Pálssyni framkvæmdastjóra, en formaður var Ásgeir Pétursson bæjarfógeti, þáv. sýslumaður. Með nefndinni starfaði sem ritari hennar skrifstofustjórinn í fjmrh., Þorsteinn Geirsson. Nefndin skilaði áliti og ég vék að nokkrum atriðum úr því í ræðu minni á síðasta þingi. Þá fluttum við þessi frv., að vísu skömmu fyrir þinglok, en gafst þá tækifæri til að flytja hér framsöguræðu og jafnframt heyra skoðanir fulltrúa ríkisstj., þ.e. forsrh. og fjmrh. Málinu var þá vísað til fjh.- og viðskn. sem leitaði umsagna um það. Þegar við fjöllum um það nú ætti því að vera mun auðveldara fyrir fjh.- og viðskn. deildarinnar að hraða framgangi þess, ef um er að ræða vilja meiri hluta n. til þess að það nái fram að ganga.

Það er enginn vafi á því, að tollkrít eða greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum leiðir til lægra vöruverðs í landinu auk þess sem það auðveldar og greiðir fyrir innflutningsversluninni með ýmsum hætti.

Niðurstaða nefndarinnar, sem ég skipaði, var sú, eins og fram kemur í grg. frv., að nefndin var sammála um að mæla með því, að tekin yrði upp tollkrít. Ef lítið er á nöfn þeirra manna, sem sátu í nefndinni, kemur í ljós að hér eru annars vegar fulltrúar innflutningsverslunarinnar og hins vegar þeir aðilar sem gæta hagsmuna hins opinbera, tollstjóri og ríkisendurskoðandi, auk þess sem þáv. formaður í Félagi dómara, Ásgeir Pétursson, átti þar sæti. Allir þessir menn hafa því staðgóða þekkingu á þeim málum sem hér er fjallað um. Það ber og að undirstrika, að þeirra niðurstaða er samdóma, og það gæti e.t.v. verið leiðarljós fyrir ýmsa þá sem ekki eru gjörkunnugir tollafyrirkomulagi og greiðslu aðflutningsgjalda.

Í nál., sem hv. alþm. var öllum sent, er samdóma niðurstaða nefndarmanna, sem ég gat um áðan. Ég vil með leyfi forseta, lesa örstuttan kafla. Þar segir:

„Með hliðsjón af framangreindum forsendum og vísan til fylgiskjala leggur nefndin því einróma til við fjmrh. að tekin verði upp tollkrít hér á landi í því formi og með þeim takmörkunum sem lýst er í þessu nál. í einstökum atriðum. Að ósk ráðherra var rökum og forsendum safnað í framangreint nál. Telur nefndin samdóma að á grundvelli þessara upplýsinga sé fljótlegt að setja saman lagafrv., ef hæstv. ráðherra óskar, enda hefur allt meginefnið verið sett hér fram. Er hún jafnframt reiðubúin að vinna það verk fyrir næsta samkomutíma Alþingis.“ Þegar kom fram á haustið 1978 hafði ekki verið og var ekki flutt frv. um þessi efni hér á Alþingi af hálfu ríkisstj., af hálfu þess fjmrh. sem þá gegndi embætti. Á síðastliðnu ári var ekki heldur lagt fram af hálfu ríkisstj. frv. varðandi þessi mál. En þegar umræður fóru fram hér á s.l. vori lýsti hæstv. forsrh. áhuga sínum á málefninu. Hann orðaði það svo í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Allt frá því ríkisstj. var mynduð hafa tillögur og hugmyndir um greiðslufrest á tollum og einföldun á tollmeðferð vöru verið til athugunar. Ráðuneyti, sem þetta mál snertir, hafa unnið að þessu og viðræður farið fram um málið milli ráðh. Í stjórnarsáttmálanum eru ákvæði þess efnis að greiða fyrir hagkvæmum innkaupum til lækkunar á vöruverði.“

Síðan fjallaði hann örlitið um greiðslufrest á tollum eða tollkrít, en sagði svo að lokum, með leyfi forseta: „Ég er því fylgjandi, að þessum frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., og mundi ríkisstj. þá hafa samráð við n. um frekari könnun og meðferð þessa athyglisverða máls.“

Nú gerðist það s.l. sumar, að ríkisstj. hafði ekki neitt samráð eða neitt samband við þá þm., sem sæti áttu í fjh.og viðskn. á s.l. þingi, til þess að vinna að undirbúningi þessa máls af hálfu ríkisstj. Þegar svo hæstv. forsrh. flutti stefnuræðu sína hér í haust var ekki vikið að því einu orði að ríkisstj. hefði á sinni verkefnaskrá flutning eða undirbúning að flutningi frv. í þá veru sem þau frv. eru sem hér eru á dagskrá og fjallað er um í dag. Það urðu nokkur vonbrigði okkur flm. svo og þeim fjölmörgu sem áhuga hafa á þessu máli, að ekkert hafði heyrst frá ríkisstj. og sá áhugi, sem fram kom í ræðu hæstv, forsrh. í vor sem leið, virtist ekki lengur vera fyrir hendi. Við viljum því með flutningi þessa frv. freista þess að fá málið til afgreiðslu á þessu þingi og vonumst til þess, að þm. geri sér grein fyrir því, hversu þýðingarmikið þetta mál er fyrir innflutningsverslunina, og ekki aðeins fyrir innflutningsverslunina, heldur einnig fyrir neytandann, fyrir einstaklingana sem vöruna kaupa, því að um leið og verið er að gera innflutningsverslunina betur úr garði er verið að lækka vöruverð. Það skiptir í dag mörgum milljörðum hvað neytendur koma til með að hagnast á því að tollkrít verði hér upp tekin.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. Ég vísa til þess sem ég sagði um málið á síðasta þingi, til grg., sem fylgir frv., og til grg., sem samin var af nefndinni sem ég á sínum tíma skipaði. Að lokum læt ég í ljós von okkar flm. — sem auk mín og hv. 10. þm. Reykv. eru hv. 6. þm. Norðurl. e., 3. þm. Reykv. og 4. þm. Austurl. — um greiðan framgang málsins. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. og tel að flutningur málsins á síðasta þingi geri það að verkum, að afgreiðslu þess verði hægt að hraða svo að það fái afgreiðslu áður en þingi lýkur, þegar við komum hér saman aftur eftir næstu áramót.