11.12.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

86. mál, iðnaðarstefna

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega fagna þeirri þáltill. sem hér er til umr. og fjallar um heildarstefnumörkun í iðnaðarmálum. Það er af mörgum ástæðum mikilvægt að Alþingi Íslendinga marki skýra stefnu til eflingar innlendum iðnaði.

Ég vil þakka iðnrh. þá miklu vinnu sem hann hefur unnið og látið vinna við undirbúning þessarar þáltill. Ég er ósammála þeirri skoðun sem fram kom hjá hv. 4. þm. Reykv., Benedikt Gröndal, er þessi mál voru rædd hér í síðustu viku. Ef ég hef skilið hann rétt taldi hann að ríkisstj. ætti sjálf að móta þessa stefnu, það væri nánast tímasóun að láta Alþingi fjalla um hana.

Það er hlutverk Alþingis að fást við stefnumörkun sem þessa. Það er óæskilegt að ríkisvaldið taki við því hlutverki Alþingis. Mér finnst það einmitt í samræmi við stjórnskipan okkar lands að Alþingi marki stefnuna. Stefnumörkun framkvæmdavalds í svona málum er meira í ætt við einræði eða stjórnarfar kommúnistaríkja. Jafnframt gera Ólafslög ráð fyrir að stefnumörkun fari fram með þáltill. Það er líka mikilvægt við slíka stefnumörkun að stuðla að víðtækri samstöðu þegar lítið er til langs tíma.

Auðvitað hníga að því margvísleg rök, að sérstaklega sé hér fjallað um það nú, á hvern hátt megi efla iðnað í landinu. Við hátíðleg tækifæri flytja stjórnmálamenn gjarnan ræður um það, að með vaxandi fólksfjölda á vinnumarkaði verði iðnaðurinn að taka við auknu vinnuafli. Því er mikil nauðsyn á samræmdri iðnaðarstefnu. Það er mikil nauðsyn á því að örva iðnþróun í landinu.

Það mál, sem þessi þáltill. fjallar um er mikið og gott mál.

Á hinn bóginn verðum við að gæta þess, að sú iðnþróun, sem við ræðum um, sú efling innlends iðnaðar, sem við tölum um, verði ekki bara ítarlegar tillögur fluttar hér á Alþingi, verði ekki bara langar ræður fluttar á Alþingi, heldur nái iðnþróunin út til iðnfyrirtækjanna sjálfra, að hér verði ekki bara um að ræða einhvers konar stofnanaiðnþróun, ekki bara eitthvert freðið skipulagshjal, ekki bara það, að ríkið velji iðnaðarkosti, að ríkið styrki ákveðnar iðngreinar eða efli iðnþróun með miðstýringu og hinum seinvirka og þunga ákvarðanaferli ríkisvaldsins, heldur ber að leggja áherslu á sjálfstæði og eflingu iðnfyrirtækjanna og nýta frumkvæði og framtak iðnrekendanna sjálfra. Jafnvel hinn framtakssamasti iðnrh. má sín einskis samanborið við framtak hinna fjölmörgu einstaklinga ef aðstæður eru örvandi. Því hljóta menn að velta nokkuð fyrir sér hinum ýmsu liðum sem fjallað er um í þessari þáltill., t.a.m. 15. liðnum, þar sem lögð er áhersla á eðlilega eiginfjármyndun fyrirtækjanna. Ég hygg að hún sé lykill að þróun og eflingu iðnaðar í landinu. Og auðvitað spyrja menn þá: Er ríkisstj. tilbúin að beita sér fyrir því sem talið er upp í þessari þáltill., eða er hér bara um að ræða upptalningu á nánast öllu því sem mönnum dettur í hug að gæti hugsanlega eflt innlendan iðnað? Í þessu sambandi vaknar líka sú spurning, hvaða breytingar þarf að gera og eru nauðsynlegar á núgildandi lögum til að vissir liðir þáltill. megi ganga fram, t.a.m. skattabreytingar sem hér er fjallað um. Er ríkisstj. tilbúin að beita sér fyrir þeim? Það verðum við að ætla. Plaggið eitt, þó ágætt sé, sem hér hefur verið lagt fram, leysir út af fyrir sig engan vanda. Það þarf að fylgja þessu máli eftir.

Mér virðist að þrátt fyrir ítarlegar tillögur og marga þætti, sem koma fram í þessari þáltill., sé ekki lögð nægileg áhersla á vöruþróun og markaðssetningu. Það er ekki nægilegt að framleiða vörur, leita að kostum og framleiða meira af vörum. Það er mikið atriði að þróa markaði. En jafnframt þarf að leggja áherslu á stjórnunarfræðslu og eflingu stjórnunar í iðnfyrirtækjum.

En hver skyldi staðan vera í þessum málum okkar, málum innlends iðnaðar, þegar nú er lögð fyrir Alþingi þessi ítarlega tillaga um iðnþróun? Mér virðist það vera svo, að þó að Íslendingar vilji gjarnan hafa mikið og hátt kaup, þó að Íslendingar vilji hafa mikil frí og helst mikið að gera, þá sýna þeir því ekki mikinn áhuga að kaupa innlendar vörur. Þar mættu Íslendingar standa miklu meira saman. Í þessari þáltill. er fjallað um opinbera innkaupastefnu, sem á að miða að því að opinberir aðilar kaupi innlendan iðnvarning. Ef ég man rétt eru ákvæði um þetta í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Þetta er atriði sem lengi og oft hefur verið rætt, og menn hljóta að spyrja: Af hverju er þessu ekki komið í framkvæmd? Þurfa menn að fjalla um þetta mörgum sinnum hér á Alþingi? Þetta hygg ég að sé mál sem hægt væri að hrinda í framkvæmd ef menn bara legðu áherslu á.

Ég hygg að öllum alþm. hafi borist bréf frá Félagi íslenskra iðnrekenda, þar sem lýst er áhyggjum yfir niðurfellingu tímabundins aðlögunargjalds. Í þessu bréfi segir að samkeppnisaðstaða mikils hluta iðnaðarins muni versna um 3% og niðurfelling aðlögunargjaldsins muni þýða um 14 milljarða kr. á árinu 1981 fyrir iðnaðinn. Hér er auðvitað um alvarlegt mál að ræða. Hæstv. viðskrh. hefur talið að þannig hafi verið gengið frá málum, þegar þetta aðlögunargjald var lagt á á sínum tíma, að því hafi verið lofað, að það yrði fellt niður, og því sé brýnt að þetta gjald verði fellt niður nú um áramót. Það er auðvitað mikilsvert að Íslendingar standi við orð sín, töluð orð skulu standa, það er mikilvægt í alþjóðaviðskiptum. Og sjálfsagt hlýtur samviska hvers og eins viðskiptum. Og sjálfsagt hlýtur samviska hvers og eins að vera sá ráðgjafi sem hann virðir mest þegar allt kemur til alls. Við skulum ekki heldur horfa fram hjá þeim gífurlegu hagsmunum sem Íslendingar eiga í fríverslun, niðurfellingu tolla af hinum fjölmörgu afurðum okkar sem við flytjum út til fríverslunarbandalaganna. Þar eru miklir íslenskir hagmunir í húfi. En þá hlýtur sú spurning að vakna: Halda önnur ríki þessa samninga? Halda önnur ríki þessa samninga um jafnréttisgrundvöll í fríverslunarmálum?

Eins og flestir, sem hér eru inni, vita, hafa á undanförnum mánuðum og jafnvel árum farið fram verulegar umræður í þessu landi um styrki og aðstoð við iðnrekstur í löndunum í kringum okkur, í þeim löndum sem við erum í fríverslunarbandalagi við. Og auðvitað hljóta menn að sjá að það er útilokað fyrir okkur eina að halda slíka samninga ef aðrir gera það ekki. Það verða allir að halda samninga, það er ekki hægt að halda samninga einhliða.

Á Norðurlöndunum eru gefnar út bækur um það, hvar og hvernig iðnrekendur í þeim löndum geti fengið aðstoð og styrki til að reka fyrirtæki sín. Í Svíþjóð hefur komið út Stödhandboken 1980, sem fjallar mjög ítarlega um þetta mál, talsvert mikil bók. Í Danmörku hefur komið út leiðbeiningarrit sem heitir Offentlige Støtteordninger. Og í Finnlandi er nýkomin út þykk bók sem fjallar um sérstakar stuðningsaðgerðir við iðnað þar í landi. Í Stödhandboken, sem Svíar hafa gefið út, er sérstök skrá yfir þær stuðningsaðgerðir sem hinar ýmsu greinar iðnaðar þar geta leitað eftir. Ef við tökum sem dæmi tréiðnað í Svíþjóð, þá skal ég nú ekki fullyrða hvernig tréiðnaður er skilgreindur þar, hvort það er allt frá trjákvoðuiðnaði yfir í unnin húsgögn, en þar segir sérstaklega varðandi tréiðnaðinn, að hann eigi kost á aðstoð í Svíþjóð sem kölluð er omställningsstöd eða einhvers konar aðlögunarstyrkur. Hann á einnig kost á strukturgarantier, sem eru möguleikar á lánum þar sem bæði vextir og afborganir eru felld niður ákveðin tíma ef viss skilyrði eru fyrir hendi. Hann á sérstaklega kost á því sem hér er kallað exportstöd eða einhvers konar aðstoð við útflutning. Og hann á kost á því sem kallað er utbildningsstöd eða menntunar- og fræðslustuðningur og aðstoð.

Þetta hljóta menn að horfa talsvert næmum augum á þegar þeir gæta þess, að einmitt innflutningur á húsgögnum og innréttingum á Íslandi er að mjög miklu leyti frá Norðurlöndum. Einhvers staðar heyrði ég því fleygt, að innflutningur á innréttingum og húsgögnum hafi numið nálægt 6 milljörðum á þessu ári. Þessi iðnaður ber sig afar illa hér hjá okkur. Hann hefur nú beðið um 40% toll til þriggja ára, og er skýrsla væntanleg um stöðu hans. Forustumenn þessa iðnaðar segja að fyrirtæki muni jafnvel hætta og starfsfólki verða sagt upp.

Það mun hafa verið sérstaklega upp úr olíukreppunni 1973 að löndin í kringum okkur, og þá ekki hvað síst Norðurlöndin, sáu að ýmis iðnaður þeirra ætti í bökkum að berjast. Þá voru teknar þær ákvarðanir að leggja þennan iðnað ekki niður, heldur styðja hann til þess að fólkið hefði vinnu og hægt væri að halda honum áfram. Svíar veittu þá sérstök lán þannig að þeirra fyrirtæki gátu byrjað að vinna vörur á lager, en Norðmenn gengu hreinna til verks og greiddu niður vinnustundir í fjölmörgum iðnaðargreinum til þess að unnt væri að selja framleiðsluvörurnar.

Það er jafnframt athyglisvert, að flestar þessar fríverslunarþjóðir, bæði innan EFTA og EBE, hafa ekki fundið aðrar leiðir til að berjast við innflutning frá láglaunalöndunum, t.d. í Asíu, en einhliða kvótasetningar um innflutning og tolla. Norðmenn eru taldir greiða nú 2.55 kr. norskar á hverja vinnustund í fata- og vefjariðnaði. Þó telja kunnugir að stuðningur Svía við fataiðnað hjá sér sé jafnvel enn þá meiri, en hann er í formi ýmiss konar aðstoðar, t.d. einhvers konar afskriftalána, lána, sem veitt eru af ríkinu, en síðan afskrifuð ef ákveðin skilyrði eru fyrir hendi. Mér er tjáð að fataiðnaður á Íslandi standi nokkuð vel eins og er, og ég skal ekki leggja dóm á hversu langt kann að líða þar til hann lendir í verulegri samkeppni við innflutning frá láglaunalöndum.

Okkur berast jafnframt fregnir af því, að Norðmenn styrki útgerð sína á þessu ári um 1400 millj. norskra kr., sem að mestu leyti muni fara sem einhvers konar launauppbót til sjómanna. Vissulega hefur þetta áhrif á það, hversu mikið verð útgerðin norska þarf að fá fyrir sinn fisk, fyrir sínar afurðir, og það getur haft áhrif á sölu frystra fiskflaka okkar til þessara fríverslunarbandalaga Þarna er um gífurlega alvarlegt mál að ræða, og ég hygg að þau ráðuneyti okkar, sem þessi mál snerta, þurfi að leggja meiri áherslu á athugun á þeim. E.t.v. ætti að vera í þessari þáltill. einhver þáttur þar sem sérstaklega væri vikið að því, hvernig bregðast skuli við slíkum stuðningsaðgerðum samkeppnislanda okkar — stuðningsaðgerðum við iðnað sem flytur vörur hingað inn. Því er ekki að neita, að samkvæmt EFTA-samningi er ströng sönnunarbyrði á þeirri þjóð sem heldur því fram að önnur þjóð beiti stuðningsaðgerðum við sinn iðnað. Og það er alveg ljóst, að þessi erlendu ríki sem nota sérfræðinga og mikið fé og tíma til að fela þessar aðgerðir sínar þannig að hægt sé með lagakrókum að telja að þær falli ekki beint undir ákvæði EFTA-samningsins. Við tölum um það hér, að við munum verða að fella niður aðlögunargjaldið, sem lagt hefur verið á, til að halda jafnréttisgrundvelli í fríverslun vegna þess að við erum í fríverslunarbandalagi með þessum þjóðum. Ég held að við hljótum sérstaklega að verða að horfa á þennan þátt. Og ég vil vekja athygli á því,, að í ársskýrslu EFTA fyrir árið 1979, þar sem sérstaklega er drepið á þetta aðlögunargjald Íslendinga, kemur fram að EFTA lítur svo á samkvæmt þeirri skýrslu, að aðlögunargjaldið hafi verið samþykkt til þess að iðnaður á Íslandi mætti njóta þeirrar iðnþróunar sem verið sé að fjalla um í sérstakri iðnþróunaráætlun er liggi fyrir Alþingi Íslendinga. Eins og menn vita er hér um að ræða þá iðnþróunaráætlun sem nú er til umræðu á Alþingi. Af stjórnmálalegum ástæðum fékkst þessi ályktun ekki afgreidd fyrir ári. Nú er hún til umræðu, og ekki þykir mér ólíklegt að það gæti einmitt verið ástæða til að athuga hvort ekki megi annaðhvort framlengja slíkt gjald sem aðlögunargjald eða koma við öðru í stað þess.

Í ljósi allra þessara atriða, í ljósi allra þeirra stuðningsaðgerða sem þessar samkeppnisþjóðir okkar beita við sinn iðnað, á sama tíma og okkur er tjáð að við verðum að halda ákvæði þessa samnings og getum ekki lagt á nein gjöld, þá held ég að Íslendingar verði að horfast í augu við það, að þetta mál verðum við að athuga miklu, miklu betur. Við getum ekki horft á það eins og blindar hænur, að iðnaðurinn sé nánast drepinn í höndum okkar með slíkum aðgerðum. Ef iðnþróun á Íslandi á bara að vera langar og ítarlegar þáltill., langar og ítarlegar ræður á Alþingi, á meðan iðnaður utan við Alþingishúsið berst við slíkar aðstæður sem af aðgerðum bandamanna okkar í fríverslunarbandalögum leiðir, þá finnst mér þetta minna dálítið á rússnesku hefðarfrúrnar sem grétu fögrum tárum yfir leiksýningunni meðan ekill þeirra fraus í hel við að bíða þeirra fyrir utan leikhúsið.

Það er sagt að við megum ekki leggja tolla og aðlögunargjald á vegna jafnréttisgrundvallar og ákvæða í fríverslunarsamningum. Hins vegar er ljóst að bandamenn okkar beita beinum niðurgreiðslum, jafnvel undirboðum og styrkjum o.s.frv. Þetta verða Íslendingar að athuga. Einhliða getum við ekki haldið þessa samninga að fullu. Ég legg áherslu á að ráðuneytin, iðnrn. og viðskrn. fari ítarlega ofan í það sem hér er að ske og það sem allra fyrst. Á stjórnvöldum Íslendinga hvílir mikil ábyrgð að gera slíka samninga sem leggja kvaðir á atvinnugreinar í okkar landi, en veita keppinautum okkar e.t.v. jafnframt möguleika til að hafa rangt við á þennan hátt. Ég vil sérstaklega benda á það, að í stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu segir einmitt í 17. gr. um innflutning undirboðsvara og niðurgreiddra vara: „Enginn ákvæði þessa samnings skulu vera því til hindrunar, að aðildarríki geri ráðstafanir gegn innflutningi undirboðsvara eða niðurgreiddra vara í samræmi við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar sínar.“ Og jafnframt er tekið fram, að engin ákvæði þessa samnings skuli vera því til fyrirstöðu, að aðildarríki geri þær ráðstafanir sem það telur nauðsynlegar — ef mjög mikil breyting verður á innflutningi einstakra vara.

Heimildir eru því til í þessum samningi, og við fjöllum hér um mjög atvarlegt mál. Ég vil ítreka það, að stefnumörkunar er þörf. Ég vil ítreka það, að þáltill., sem hér liggur fyrir, er ítarleg, hún er þörf og hún er gott mál. Hún þarf að fá vandlega umfjöllun þessa Alþingis og það tekur tíma. En í málum iðnaðarins er nú brýnt að taka sérstaklega til athugunar þær aðgerðir sem samkeppnisþjóðir okkar hafa gripið til til að vernda sinn iðnað. Mér virðist af öllu þessu alveg ljóst að iðnaður okkar glímir við óeðlilega samkeppni, hann glímir við óeðlilega samkeppni sem hefur ranglega að skjóli fríverslunarsamninga. Mín skoðun er sú, að telji menn við þessar aðstæður nauðsynlegt vegna fyrri samninga að fella niður aðlögunargjald, þá komi vel til greina að hækka jöfnunargjald á móti. Umfram allt er þó mergurinn málsins, og ég vil enn ítreka það, að það er ekki nóg að gera samþykktir á Alþingi, það er ekki nóg að flytja hér ítarlegar tillögur og langar ræður. Athafna er þörf. Það þarf að hrinda þessum ákvæðum í framkvæmd. Og það gæti vel verið umhugsunarefni fyrir okkur að stytta ræðurnar um þessar þáltill. um nokkra klukkutíma og nota þann tíma sem vinnst til að koma ákvæðum tillagnanna í framkvæmd.