11.12.1980
Efri deild: 25. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

165. mál, almannatryggingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, er, ef svo má að orði komast, fylgifrv. með frv. til l. um breyt. á lögum nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, en það frv. ræddum við hér í hv. d. í gær.

Það er eins með þetta frv. og fyrra frv., sem við ræddum í gær, að þetta er í þriðja sinn sem frv. er fram borið. Ég hef í allítarlegu máli skýrt þetta frv. tvisvar áður fyrir hv.d. og síðast fyrr á þessu ári, svo að ég sé ekki ástæðu til að vera fjölorður um frv. núna. Ég hygg að hv. dm. sé efni þess svo kunnugt.

Frv. þetta er núna endurflutt með tveim breytingum. Annars vegar er upphæð mæðralauna samkv. 1. gr. hækkuð til samræmis við hækkað verðlag í landinu. Hins vegar er fellt niður ákvæði um barnsburðarbætur, þar sem nú liggur fyrir þinginu stjórnarfrv. um fæðingarorlof sem gert er ráð fyrir að nái fram að ganga, en þar er gert ráð fyrir að allir foreldrar eigi rétt á fæðingarorlofi.

Frv. það, sem við nú ræðum, felur í sér félagslegar ráðstafanir sem ætlað er að bæta úr þeim félagslegu ástæðum sem nú geta samkv. lögum heimilað fóstureyðingu. Lagt er til að þetta sé gert með breytingu á lögum um almannatryggingar. Hér er um að ræða verulega aukna aðstoð við einstæðar mæður og heimildarákvæði um slíkt hið sama til hjálpar konum í hjúskap eða í óvígðri sambúð sem eru hjálparþurfi.

Frv. hefur í för með sér eftirfarandi meginbreytingar á lögum um almannatryggingar:

1. Mæðralaun eru hækkuð mikið frá því sem nú er. Sú — hækkun er mun meiri með einu barni og tveim börnum en með þrem börnum eða fleiri.

2. Tekin er upp ný bótagreiðsla til einstæðra mæðra vegna þeirrar röskunar á stöðu og högum sem barnsburður veldur þeim. Bætur þessar skulu vera jafnar að upphæð og ekkjulífeyrir almannatrygginga. Réttur til — þessara bóta er í sex mánuði eftir barnsfæðingu. Hafi hin einstæða móðir annað barn á framfæri sínu undir 17 ára aldri á hún rétt á þessum bótum í 12 mánuði til viðbótar.

3. Þegar bætur samkv. 2. tölul. falla niður er tryggingaráði veitt heimild til að greiða einstæðri móður lífeyri er nemi að upphæð sem svarar allt að fullum ellilífeyri einstaklings samkv. 11. gr. ásamt tekjutryggingu samkv. 19. gr. sem verður 20. gr. laganna.

4. Tryggingaráði er veitt heimild til að ákveða að aðstoð, sem einstæðum mæðrum er veitt samkv. framansögðu, megi láta í té konum í hjúskap eða í sambúð ef um er að ræða fjárhagserfiðleika og aðrar bágar félagslegar ástæður sem samkv. núgildandi lögum geta heimilað fóstureyðingu.

Frv. þetta er flutt á þeirri forsendu að fóstureyðing leysi ekki félagslegan vanda, heldur þvert á móti. Þjóðfélag, sem leyfir fóstureyðingu af félagslegum ástæðum, lítur fram hjá hinum raunverulega vanda, sættir sig við óleyst vandamál. Félagslegur vandi verður ekki leystur nema með félagslegum ráðstöfunum. Frv. þetta miðar að því að svo verði gert.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.