23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Því verður tæpast á móti mælt, að seinasta árið hafa óvenjusnarpir sviptivindar gengið yfir íslensk stjórnmál. Tvennar kosningar, stjórnleysi um langt skeið einstaklega langdregnar og snúnar víðræður um stjórnarmyndun, sem lauk loks, eins og kunnugt er, með braki og brestum á þann veg, að stærsti stjórnmálaflokkurinn rifnaði í tvennt. Hvað veldur þessum tíðindum? Hver er skýringin á þessum óvenjulegu sviptingum sem einkennt hafa íslensk stjórnmál seinasta árið? Hvers vegna er íslenskt efnahagslíf í miklum ólgusjó og vandamálin með afbrigðum torleyst?

Ýmsir eru áreiðanlega fljótir að gefa skýringu. Vondir stjórnmálamenn eiga sökina, vondir menn með vitlausa stefnu. Aðrir kafa dýpra og benda t.d. á verðbólguna, og verðbólgan er sannarlega mikill meinvættur. En til þess að skilja raunverulega undirrót þessa ástands og átta sig á stöðu íslenskra efnahagsmála er áreiðanlega lærdómsríkt að líta eitt andartak út fyrir landsteinana.

Við sjáum það fljótt, að í flestum nálægum löndum ríkir alvarleg efnahagskreppa, hallarekstur, verðbólga og atvinnuleysi. Þessi djúpa kreppulægð breiðir víða úr sér og teygir sig m.a. yfir Norðurlönd, Bretland og Bandaríkin. Víðast hvar er ástandið síst betra en hér og víða um lönd er meira atvinnuleysi árið um kring en verið hefur um langt skeið. Íslendingar róa ekki á lygnu í slíkum ólgusjó. Hér hefur kreppan skollið yfir eins og annars staðar með gífurlegum verðhækkunum á olíu sem ýtt hafa undir keðjuhækkanir víðs vegar um hagkerfið. Við höfum flutt inn mikla verðbólgu í hverjum mánuði. Hitt er þó verra, að á sama tíma og verðbólgan hefur geisað í Bandaríkjunum sem aldrei fyrr, þar sem stærsti hluti útflutnings okkar er seldur og dollarinn hefur þar af leiðandi rýrnað mánuð eftir mánuð, hafa fiskafurðir okkar lítið sem ekkert hækkað í dollurum talið í bráðum tvö ár. Afleiðingin hefur orðið sú, að fiskverð hefur í raun farið lækkandi jafnt og þétt. Þannig er kreppan í íslensku efnahagskerfi: Hækkandi tilkostnaður í atvinnurekstri og heimilishaldi, en lækkandi útflutningsverð vegna rýrnandi gengis dollarans, sem ekki fæst bætt í hækkuðu verði.

Það er fullkomlega eðlilegt, að stjórnmálaumræður á Íslandi snúist um verðbólgu og vonda stjórnmálamenn. En ekki sakar að hafa það í huga, að undirrótin að óvenjulegu ástandi í íslenskum stjórnmálum seinasta árið eru snarversnandi viðskiptakjör þjóðarinnar sem hafa farið niður á við um heil 14% á tveimur árum að mati Þjóðhagsstofnunar. Þetta er sannarlega þungt áfall fyrir þjóðarheildina og hlýtur að skapa mikinn vanda.

Átökin í íslenskum stjórnmálum seinasta árið hafa í raun og veru snúist um það, hvernig brugðist skuli við þessum vanda.

Við Alþb.-menn höfum vissulega ekki staðið gegn því að tekið yrði visst tillit til þessa mikla utanaðkomandi vanda við útreikning á launum. Við samþykktum fyrir einu ári að verðbótavísitalan tæki mið af viðskiptakjörum hverju sinni, og við viðurkennum fúslega að m. a. þess vegna hafa kjör launamanna, sjómanna og bænda heldur rýrnað seinasta árið, annað hefði verið útilokað. Hins vegar er það kjarni málsins, að við höfum barist fyrir því af hörku, að byrðinni af þessu áfalli yrði dreift sem mest og best, og við höfum staðið fast á móti því, að hún yrði lögð af fullum þunga á lágtekjufólk. Við höfum talið sjálfsagt að atvinnureksturinn bæri sinn hluta af byrðinni, m.a. með ströngustu verðlagshömlum og með því að sætta sig við talsvert hægara gengissig en krafist hefur verið. Og við höfum lagt þunga áherslu á ýmsar kerfisbreytingar, framleiðniaukningu í atvinnuvegum og takmörkun milliliðagróða.

Á hinn bóginn mun flestur ljóst að stefna meiri hluta Sjálfstfl. hefur beinst í þveröfuga átt. Leiftursóknin í seinustu kosningum var ofstækisfull hægri stefna sem miðaði að því marki að leggja byrðina nokkuð einhliða á lágtekjufólk og þá sem minnst hafa, en jafnframt að draga saman framkvæmdir svo heiftarlega að plága atvinnuleysis hefði óhjákvæmilega haldið hér innreið sína eins og hjá mörgum nálægum þjóðum. Samhliða þessu kom á daginn að Alþfl. hafði mjög sveigt til hægri á seinni árum og boðaði keimlíka stefnu og Sjálfstfl. Það var þó fyrst að fullu ljóst þegar flokkurinn ákvað að sprengja vinstri stjórn á s.l. hausti í von um að geta grætt á því nokkur atkvæði. Stjórnleysi tók við og verðbólga á Íslandi hefur aldrei orðið meiri í seinni tíð en einmitt á þessu stutta stjórnar- eða stjórnleysistímabili Alþfl.

Kosningarnar fóru á annan veg en til var stofnað. Þjóðin kvað upp sinn dóm og hafnaði leiftursókn íhaldsmanna, hvort heldur úr Sjálfstæðis- eða Alþfl. Alþb., flokkur vinstri manna, jók þó ekki styrk sinn að sama skapi, heldur tapaði nokkru fylgi.

Átökin um vinstri eða hægri stefnu voru því óútkljáð og mikið þrátefli hófst. Þessi átök stóðu í raun og veru um það, hvort vandinn yrði leystur með miskunnarlausri kjaraskerðingu hjá lágtekjufólki og fólki með meðaltekjur umfram þá skerðingu sem orðin var, eins og forustumenn Alþfl. og Sjálfstfl. héldu fast við, eða hvort reynt yrði að dreifa byrðinni og leita allra leiða til að hlífa þeim sem minna hafa.

Það var undir þessum kringumstæðum að varaformaður Sjálfstfl., dr. Gunnar Thoroddsen, tók sig til með nokkrum stuðningsmönnum sínum og gekk til samvinnu og málamiðlunar við Alþb. og Framsfl. Stjórnin var mynduð á örskömmum tíma og þrátt fyrir ólík sjónarmið varð hún óvenjulega samhent strax frá fyrsta degi. Viðfangsefni hennar var þó ekki dans á rósum, það þekkja allir.

Fyrsta viðfangsefnið var að koma fjármálum ríkisins á réttan kjöl. Það hefur tekist þrátt fyrir mikinn mótbyr og hlýtur að teljast mikilvægur áfangi. Áreiðanlega er fátt mikilvægara í baráttunni við verðbólguna en einmitt það, að núverandi forustulið meiri hl. þingflokks Sjálfstfl. fari ekki með fjármál þjóðarinnar. Skuldasöfnun ríkissjóðs á árunum 1974–1978, þegar Matthías Á. Mathiesen sat í stjórnarráðinu, var ekki aðeins 25 milljarða ávísun á þá sem við tóku, níðþung byrði á skattgreiðendur sem þeir verða nú að gjalda fyrir, heldur var þessi makalausa óráðsía Sjálfstfl. betur til þess fallin en flest annað að ýta undir verðbólgu.

Þó eru kjaramálin ekki siður mikilvægt viðfangsefni ríkisstj. Það var ljóst þegar þessi stjórn var mynduð, að vegna utanaðkomandi áfalla var ekki eðlilegt eða mögulegt að stefna á grunnkaupshækkanir sem gengju upp eftir öllum launastiganum. Svigrúmið var og er takmarkað og verður eingöngu að nýtast til að rétta hlut þeirra sem lægri hafa launin. Þessari stefnu var samviskusamlega fylgt í samningunum við opinbera starfsmenn. Kauphækkunin var föst krónutala sem ekki kom á efri hluta launastigans, og gólf var sett í vísitölu til að lyfta sérstaklega allra lægstu launum. Vissulega hefðum við einnig viljað fá þak á verðbætur, sem komu á hærri laun, og buðum BSRB það. Því var þó algerlega hafnað. En eftir stendur ótvírætt að samningarnir við BSRB voru launajöfnunarsamningar.

Enn eru þó kjaramál verkafólks og iðnaðarmanna og margra annarra launamanna óleyst. Það er von ríkisstj. að hliðstæð launajöfnunarstefna verði ofan á í kjaramálum annarra launamanna og samningamálin verði til lykta leidd sem allra fyrst. Enn vantar þó herslumuninn að samningar takist. Ríkisstj. mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að stuðla að friðsamlegri lausn samningamála.

Þó verður að gera þar mikilvæga undantekningu. Ríkisstj. getur ekki leyst úr vanda samningsaðila með því að setja fjárhag ríkissjóðs á hvolf. Stjórnarandstaðan klifar á því flesta daga, að minnka þurfi tekjur ríkissjóðs með einhverjum ráðum, og virðist telja það pólitískt keppikefli fyrir sig, að ríkissjóður verði aftur rekinn með seðlaprentun úr bankanum við Austurstræti. Þar við bætist að vinnuveitendur virðast eygja þarna einfalda lausn á sínum málum. En þetta er ekki lausn á neinum vanda. Vísasta leiðin til þess að magna verðbólgu og auka þann vanda, sem við er að fást, er að fylgja ráðum stjórnarandstöðu og vinnuveitenda og skrifa innistæðulausar ávísanir á ríkissjóð. Af þessari ástæðu hefur ríkisstj. hafnað tilmælum Vinnuveitendasambandsins um þríhliða viðræður sem höfðu þann yfirlýsta tilgang að koma vanda atvinnurekenda yfir á skattgreiðendur.

Hitt er allt annað mál, að í fjárlögum næsta árs hefur ríkisstj. tekið frá 12 milljarða kr. til aðgerða í baráttu gegn verðbólgu. Ávallt þegar samningar eru gerðir um leiðréttingu launakjara er yfirvofandi hætta á að hækkun launanna sé velt út í verðlagið aftur með aukinni verðbólgu í kjölfarið. Þetta verður að koma í veg fyrir eins og nokkur kostur er. Vinna þarf af alefli gegn því, að þær launahækkanir, sem lágtekjumenn fá fram þessar vikurnar, brenni upp í auknu verðbólgubáli á næstu mánuðum, og þess vegna verður að reyna með samstilltu átaki margra hagsmunaaðila að draga úr víxlhækkunum og sjálfvirkni kerfisins á fyrstu mánuðum næsta árs. Einmitt í því samhengi kemur vafalaust til álita að verja hluta af þessum 12 milljörðum til fjölskyldubóta eða skattalækkana í þágu lágtekjufólks.

Á s.l. sumri birtist leiðari í dagblaðinu Vísi undir fyrirsögninni: „Auglýst eftir stjórnarandstöðu.“ Það vill svo til að foringi stjórnarandstöðunnar, Geir Hallgrímsson, var rétt áðan að ljúka máli sínu. Er ekki enn jafnljóst og var í sumar, jafnvel fyrir stuðningsmönnum Geirs Hallgrímssonar, að stjórnarandstaðan er áfram í felum? Hún finnst ekki nokkurs staðar þar sem málefnalegar umr. fara fram. Hún er stefnulaus og skoðanalaus. Tökum sem dæmi nýgerða samninga ríkisins við BSRB sem formaður Sjálfstfl. minntist á áðan. Var Geir Hallgrímsson og Morgunblaðið með þessum samningi eða á móti? Því getur enginn svarað og enn síður eftir orð formanns Sjálfstfl. áðan.

Forustumenn Alþfl. voru að því leyti tilþrifameiri í þessu máli, að á þeim var helst að skilja, að launahækkunin væri bæði allt of lítil og allt of mikil.

Geir Hallgrímsson minntist á Flugleiðamálið hér áðan. Í því máli er æpt að okkur Alþb.-mönnum, bæði af Morgunblaðsliði formanns Sjálfstfl. og af krötum, vegna þess að við viljum að skattgreiðendur í landinu hafi örugga tryggingu fyrir hugsanlegum 10 milljarða ábyrgðarheimildum í þágu Flugleiða. Þetta eru sömu mennirnir sem mest tala um skattalækkanir, en eru svo tilbúnir að hætta fjármunum skattgreiðenda sem nemur 250 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu án þess að gengið sé úr skugga um að fullnægjandi tryggingar séu fyrir hendi. Nákvæmlega sama stefnuleysið og ábyrgðarleysið lýsir sér líka í seinasta upphlaupi stjórnarandstöðunnar út af skattlagningu á tekjur barna sem Geir Hallgrímsson tæpti einnig á áðan.

Staðreynd þessa máls er sú, að formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, og þáv. fjmrh., Matthías Á. Mathiesen, ákváðu fyrir tveimur árum að sérskatta tekjur barna í stað þess að tekjur þeirra voru áður skattlagðar með tekjum foreldra. Allir þm. Sjálfstfl, greiddu atkv. með þessari nýju tilhögun, og aftur á s.l. vetri var þetta samþ. með atkv. allra flokka án þess að nokkur aths. kæmi fram, enda ljóst að 7% skattur er í flestum tilvikum hagstæðari álagning en áður var, þegar tekjur barnanna bættust við tekjur foreldranna og voru því oftast í hæsta skattþrepi. En síðan, þegar álagning hefur farið fram í fullu samræmi við gildandi lög, rýkur stjórnarandstaðan upp til handa og fóta og reynir að hagnýta sér málið í áróðursskyni, eins og Geir Hallgrímsson gerði áðan. Hver getur tekið mark á slíkum mönnum?

Við, sem sitjum í núv. ríkisstj., gerum okkur fullkomlega grein fyrir því, að fram undan eru miklir erfiðleikar og óleyst vandamál. Við erum ekki kraftaverkamenn og okkur er ljóst að snúningur verðbólguhjólsins verður ekki stöðvaður á skömmum tíma. En við munum glíma af öllu afli við stórfellt utanaðkomandi áfall og flókinn vanda með þeim ásetningi að ekki komi til atvinnuleysis, að lágtekjufólk verði ekki kramið undir byrði verðbólgu og versnandi viðskiptakjara, að fjármálabúskapur ríkisins haldist áfram í viðunandi jafnvægi og félagslegum umbótum og kröftugri atvinnuuppbyggingu verði áfram haldið af fullum krafti víðs vegar um land. — Ég þakka áheyrnina.