13.10.1980
Sameinað þing: 2. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

Kosning þingfararkaupsnefndar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig fellt mig við þessa aðferð, að frestað sé kjöri þingfararkaupsnefndar með því að leita afbrigða. Að vísu vill svo til að ekkert er í þingsköpum um þetta þannig að tæpast verður talið að hér sé um afbrigði frá þingsköpum að tefla, en allt að einu hefur þessi háttur verið á hafður, að fella þetta að þingsköpum í afgreiðslu á kosningu nefndarinnar. Á hitt ber að líta, að hér gilda um þetta sérstök lög og kveðið er svo á um í þingfararkaupslögum, í 9. gr., að í upphafi þings skuli kosin þingfararkaupsnefnd. Fyrir því er það, að umboð það, sem þingfararkaupsnefnd, sem kosin var á síðasta þingi, hafði, er fallið úr gildi með öllu.