11.12.1980
Neðri deild: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

142. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Sjútvn. hv. deildar hefur fjallað um þetta mál á fundum sínum. Málið fjallar um Aflatryggingasjóð, áhafnadeild. Þarna er fjallað um fæðisgreiðslur til sjómanna.

Meginbreytingarnar, sem gerðar eru á lögunum, eru um að færa meðferð þessa hluta laganna yfir í reglugerðir, því að það er þyngra að þurfa að lagfæra svo breytilega hluti í hvert sinn með lögum. Ég er með lögin frá 1971 í höndunum og fimm lagabreytingar við þau lög sem fjalla aðallega um þennan hluta þeirra. Það eitt ætti að vera nóg til að sýna mönnum að heppilegra er að hafa meðferð þessara mála í reglugerð.

Stjórn Aflatryggingasjóðs á að semja reglugerð og leita umsagnar allra hlutaðeigandi þegar breytingar eru á ferðinni. Þarf raunar ekki að hafa um þetta mörg orð, svo kunnugt sem það er hv. þm.

Nefndin fékk á sinn fund formann Aflatryggingasjóðs til þess að skýra málið. Hún stendur saman eins og fyrri daginn og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.