11.12.1980
Neðri deild: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

169. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 34 18. febr. 1953, um verðjöfnun á olíu og bensíni.

Verðjöfnun á olíu og bensíni var tekin upp hér á landi með lögum nr. 34 frá 18. febr. 1953, þ.e. þeim lögum sem gerð er tillaga um að breyta. Í byrjun náði hún til bensíns, gasolíu, svartolíu og ljósasteinolíu. Hélst svo til 1975, þegar flugvélabensin var tekið í verðjöfnun. Með þessu frv. er lagt til að flugsteinolíu verði bætt við.

Ekki þótti ástæða til að taka flugsteinolíu með árið 1975 þegar flugvélabensín var tekið í verðjöfnun, þar sem engin notkun hennar var þá utan Reykjavíkursvæðisins. Nú hefur þetta breyst. Skiptir það litlu flugfélögin úti á landi nokkru máli að verðjöfnun verði tekin upp og því þótti sanngjarnt að flytja þetta frv. Rekstur og umsvif litlu flugfélaganna úti á landi hafa aukist verulega á undanförnum árum, bæði austan-, norðan- og vestanlands, og svo er komið að þau eru með starfsemi sem er alveg fastur og ómissandi liður í samgöngumálum þessara fjórðunga. Þess vegna varðar það miklu að hægt sé að reka þau með eðlilegum hætti.

Sala flugsteinolíu 1979 var þannig, að tæplega 8% voru seld utan Reykjavíkur, en 92% í Reykjavík og Keflavík. Það sem af er þessu ári hafa rúmlega 9% verið seld úti á landi. Miðað við aðstæður í dag hefur verð jöfnun flugsteinolíu í för með sér um þriggja krónu hækkun á lítra í Reykjavík, en lækkun um nálægt 20 kr. á lítra úti á landi. Verðjöfnunin nær aðeins til þess magns sem selt er vegna innanlandsflugs.

Að öðru leyti vísa ég til aths. við frv.

Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að ein hlið málsins er nokkuð vandasöm í framkvæmd. Það er að tryggja að ekki verði um að ræða misnotkun þannig að menn hafi þetta eldsneyti til annarra nota en þeirra sem um er rætt í þessu frv. Það væri ástæða til þess fyrir n. að taka þetta atriði sérstaklega til athugunar þegar hún fjallar um málið.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál, sem er tiltölulega einfalt og skýrt, og óska þess að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.