11.12.1980
Neðri deild: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

130. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skil vel þær ástæður sem liggja fyrir flutningi þessa frv. frá hv. 5. þm. Vestfj., en með því er lagt til að lánstími jarðhitaleitarlána, sem veitt eru úr Orkusjóði, verði lengdur úr 5 árum í 15 ár. Ég vil fara um þetta frv. nokkrum orðum, m.a. til glöggvunar fyrir þá n. sem ég tel eðlilegt að athugi þetta frv. nánar.

Orkulög í núverandi mynd eru orðin 13 ára gömul og sýnir þetta atriði m.a. að lögin þurfa endurskoðunar við með hliðsjón af breyttum aðstæðum, m.a. á sviði jarðhitaleitar og jarðborana, og er nú að undirbúningi þess máls unnið á vegum iðnrn. M.a. starfar sérstakur vinnuhópur að athugun á málefnum Orkusjóðs undir forustu ráðuneytisstjórans. Í X. kafla orkulaga, um hlutverk Orkusjóðs, segir í 71. gr. 4. tölul., með leyfi hæstv. forseta:

„Að veita einstaklingum og opinberum aðilum lán til leitar að jarðhita með jarðborunum og öðrum aðferðum.“

Fram að árinu 1975 var lánsupphæðin 40% af kostnaði, en árið 1975 ákvað þáv. iðnrh. að hækka þetta hlutfall í 60% og þar með var áhætta Orkusjóðs aukin, þar sem í 72. gr. laganna segir orðrétt.

„Náist enginn árangur við borun á tilteknu svæði, fellur niður endurgreiðsluskylda lántaka samkv. 71. gr. 4. tölul.“

Framkvæmd þessara lánveitinga hefur verið þannig, að lán eru ekki veitt nema fyrir liggi meðmæli jarðhitadeildar Orkustofnunar til borunar á tilteknu svæði. Lánin eru fyrst og fremst hugsuð til þess að taka þátt í áhættu við jarðhitaleitina þar til nýtanlegur árangur næst. Þótt nokkrar holur hafi verið borðar á tilteknu svæði, sem ekki gáfu árangur, verða öll lán, sem veitt hafa verið til borunar þeirra, endurgreiðsluskyld 5 árum eftir að hafist er handa um að nýta árangur sem verða kann við framhald borunar á þessu sama svæði. Verulegur hluti þess fjármagns, sem til jarðhitaleitar er ætlað, hefur farið til að fjármagna boranir á svæðum sem þegar hafa verið tekin til vinnslu. Hér er ekki um áhættulán að ræða, þar sem lánin verða strax endurgreiðsluskyld, eins og segir orðrétt í 72. gr. laganna:

„Skulu vera að fullu endurgreidd sjóðnum eigi síðar en fimm árum eftir að hafist er handa um framkvæmdir til hagnýtingar þess jarðhita, sem fundist hefur við leitina.“

Í rauninni henta þessi lán ekki til slíkra borana, þar sem um svo skamman lánstíma hefur verið að ræða, en um önnur lán hefur ekki verið að ræða í þessu skyni. Með hliðsjón af þessu, af því að stöðugt er verið að færa sig út á erfiðari jarðhitasvæði með boranir, kæmi til álita að hækka áhættuhlutfall Orkusjóðs, t.d. í 75%, með óbreyttum lánstíma, 5 árum, og tengja lánstíma þeirra lána sem ekki eru bundin áhættu, jafnframt því sem lánskjör væru endurskoðuð og færð til samræmis við kjör annarra fjárfestingarlánasjóða, en nú eru greiddir hæstu lögleyfðir fasteignalánavextir af þessum lánum.

Framkvæmd útlána Orkusjóðs til jarðhitaleitar er þannig, að sérstakt lán er veitt til borunar hverrar borholu þótt hjá sama aðila sé og á sama svæði. Það kæmi ennfremur til álita að gera hverja borun að áhættuborun, þ.e. breyta þeirri framkvæmdareglu að öll lán verði endurgreiðsluskyld strax og nýting hefst á tilteknu svæði, þannig að endurgreiðsla komi þá aðeins til framkvæmda að árangur verði nýttur úr holu sem lánað hefur verið til. Þessu mætti raunar ná fram með því að fella niður orðin „á tilteknu svæði“ í setningunni í 72. gr. þar sem segir:

„Náist enginn árangur við borun á tilteknu svæði, fellur niður endurgreiðsluskylda lántakanda samkv. 71. gr. 4. tölul.“

Álitamál er hvort rétt er að lengja lánstíma lána vegna jarðborana í 15 ár með hliðsjón af endingartíma borhola. Að áliti sérfræðinga er eðlilegt að afskrifa slíkar holur á 10 árum.

Ég sá ástæðu til að láta þessi sjónarmið koma hér fram til þess að þau verði athuguð í n. sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar.

En í sambandi við jarðhitaleit og reyndar framkvæmdir, sem tengjast hitaveitumálum, er full ástæða til að endurskoða lánskjör til hinna einstöku framkvæmda, en þau eru misjöfn eftir því í hvaða sjóði er leitað. Er um þrjá sjóði að ræða sem veita lán í því skyni, þ.e. Lánasjóð sveitarfélaga, Orkusjóð og svo erlend lán, og það er býsna mikil mismunun, sem fram kemur í sambandi við þetta, eftir því úr hvaða sjóði einstakar veitur fá lán. En það, sem hér er um að ræða, snýst fyrst og fremst um jarðhitaleitina, jarðboranir, og ég met það við hv. flm. að hann hefur komið þessu máli hér á hreyfingu með tillögu þessari.