11.12.1980
Neðri deild: 29. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og öllum þm. er kunnugt er til þess ætlast, að samhliða fjárlagafrv. sé lögð fram lánsfjáráætlun hæstv. ríkisstj. og í framhaldi af því séu afgreiddar í lagaformi heimildir til hæstv. ríkisstj. til töku lána innanlands og erlendis samkv. þeirri áætlun sem hún á að leggja fyrir Alþingi. Þegar alþm. afgreiða heimildir til lánsfjártöku til ríkisstj. liggur það þannig ekki aðeins fyrir að þeir séu að heimila hæstv. ríkisstj. að taka tiltekin lán, heldur jafnframt hvað hæstv. ríkisstj. ætlar að gera við þá peninga sem Alþ. heimilar henni að taka til láns. Ég minnist þess hins vegar ekki að það hafi gerst, eins og mætti ætla af orðanna hljóðan í 4. gr. þessa frv., eða þess hafi nokkru sinni verið óskað af ríkisstj., að Alþ. gæfi út nokkurs konar óútfylltan tékka til hæstv. ríkisstj. þ.e. að Alþingi heimilaði hæstv. ríkisstj. að taka lán án þess að fyrir lægi til hvaða þarfa það lán ætti að ganga. Venjan er sem sé sú, sem hefur verið fylgt mjög fast á umliðnum árum, að þegar Alþingi er beðið um að gefa ríkisstj. heimild til töku lánsfjár sé það gert vitandi vits um til hvers eigi að nota þessa peninga. Þetta er hins vegar ekki tryggt eins og 4. gr. þessa frv. hér er orðuð. Hæstv. fjmrh. viðurkenndi raunar úr ræðustól áðan að þarna hefði sér orðið á í messunni, ef svo má segja, — en það skyldi þó ekki vera að hæstv. fjmrh. hafi ætlað sér að fá slíkan óútfylltan tékka frá Alþingi sem hann gæti síðan notað eins og honum sjálfum byði við að horfa.

Ef það er aðeins ætlun hæstv. ríkisstj. að fá nú heimild frá Alþingi til að mega taka lán erlendis, vegna þess að hagkvæmt lán bjóðist nú, og síðan sé það ráðagerð ríkisstj. að ráðstafa engu af því láni fyrr en fyrir liggi og samþ. verði hér á Alþ. lánsfjárlög, þar sem ráð verður fyrir gert hvernig eigi að verja hverri krónu af því lánsfé sem til láns á að taka, þá verður auðvitað að breyta 4. gr. þessa frv. til samræmis við það. Það verður væntanlega verkefni fjh.- og viðskn. að sjá til þess. Þetta er hægt að gera með tvennum hætti: Önnur aðferðin er að taka fram í greininni áð enda þótt ríkisstj. væri heimilað að taka þetta lán, einfaldlega vegna þess að það reynist rétt, sem hún heldur fram, að þetta lán, sem til boða stendur nú, sé sérstaklega hagkvæmt, þá sé óheimilt að ráðstafa því láni að heild eða hluta nema fyrir liggi samþykkt Alþingis á lánsfjárlögum þeim sem væntanlega verða afgreidd eftir jól. Þetta er önnur aðferðin til að tryggja að hæstv. ríkisstj. sé ekki með þessum hætti að leggja út á nýjar og mjög vafasamar brautir í sambandi við viðskipti sín við Alþingi. Þá er tekið sérstaklega fram í greininni að ríkisstj, sé ekki heimilt að ráðstafa neinu af því láni, sem hún tekur, fyrr en búið sé að afgreiða lánsfjárlög með hefðbundnum hætti. Hin aðferðin er sú, sem m.a. var notuð af minnihlutastjórn Alþfl. þegar lánsfjárlög lágu ekki fyrir um s.l. áramót, að tilkynna Alþingi hvaða verkefni það séu sem nauðsynlega þurfi að útvega lánsfé til, svo að unnt verði að standa við skuldbindingar um framkvæmdir á fyrstu vikum nýs árs, og taka síðan fram í lagatexta að óheimilt sé að ráðstafa peningum til annarra þarfa en í slíkum lista væri um getið nema með heimild fjvn. Alþingis. Önnur hvor þessi útgáfa verður að vera á 4. gr. þessa frv. ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér ekki að taka upp þau nýju vinnubrögð að leita heimildar Alþingis til að taka lán og eyða því svo án þess að fjárveitingavaldið hafi hugmynd um í hvað þeir peningar eigi að fara. Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. hafi ekki orðið þessa áskyn ja fyrr en honum var gert það ljóst eftir að frv. hafði verið lagt fram á Alþingi í gær, en miðað við orð hans áðan verður að ætla að hann sé a.m.k. ekki andvígur því að önnur hvor þessara efnisbreytinga verði gerð á 4. gr. frv.

Herra forseti. Það er ekkert óvanalegt að nokkuð dragist að leggja fram lánsfjáráætlun og tilheyrandi fylgifrv. Eins og ég sagði er svo fyrir mælt að slík áætlun skuli lögð fyrir Alþingi nokkuð jafnsnemma og fjárlagafrv. Flestallar ríkisstj. hafa þó átt erfitt með að standa við þau fyrirheit, þó svo að þau fyrirheit séu nú orðin lagabókstafur. Hins vegar verður að líta svo á að núv. hæstv. ríkisstj. hafi ekkert sér til afsökunar að gera slíkt ekki. Hann hefur haft miklu meira en nógan tíma til að ganga frá lánsfjáráætlun.

Í fjárlagaræðu sinni tilkynnti hæstv. fjmrh. að áætlun þessi yrði lögð fram í nóvembermánuði, sem nú er liðinn fyrir nokkru, og ítrekuðum fsp. fjvn.-manna um, hvenær áætlunin yrði lögð fram, hefur ávallt verið svarað á þann veg, að hún væri í burðarliðnum. Mér er kunnugt um að langt er síðan búið var að undirbúa þessa áætlun til ákvarðanatöku. Ástæðan fyrir því, að hún hefur ekki enn verið lögð fram, er einfaldlega sú, að hæstv. ríkisstj. getur ekki tekið þá ákvörðun, sem búin er að vefjast fyrir henni nú vikum saman, hvað skuli standa í þessari áætlun og hvað ekki. Ástæðan fyrir því, að lánsfjáráætlun er ekki lögð fram, er ekki sú, að hún sé tæknilega vanbúin á einhvern hátt. Það er löngu búið að vinna það verk, sem þurfti til undirbúnings henni, af þeim mönnum og sérfræðingum sem um hafa fjallað. Ástæðan fyrir drættinum og seinaganginum er einfaldlega sú, að hæstv. ríkisstj. kemur sér ekki saman um hvað í þessari áætlun á að standa. Ráðh. í ríkisstj. eru enn að rífast um hvað hver um sig á að fá að ráða háum upphæðum í lánsfjáráætlun.

Hæstv. ráðh. hafa nú vikum saman gefið ádrátt um að ef þessi ágreiningur leysist ekki í dag leysist hann kannske á morgun, a.m.k. muni hann verða leystur undir næstu helgi. Þetta minnir mann á frásagnirnar af því, þegar fyrirrennarar Alþb. bjuggust við byltingunni um næstu áramót. Alltaf búast ráðh. við því að nú sé hægt að leysa deilurnar, kannske ekki í dag og e.t.v. ekki á morgun, en alla vega um eða eftir helgina. En margar helgar hafa liðið og enginn ágreiningur hefur verið leystur og engin lánsfjáráætlun komið fram. (Gripið fram í.) Það er þó ekki lengra síðan en í gær að við formenn þingflokka sátum á fundi með hæstv. forsrh. — Ég veit nú ekki, herra forseti, nema hann sé búinn að segja af sér þingmennsku, því að hann sést orðið ekki í þingsölum, hvað annað svo sem hann hefur þarfara að gera. En gerum nú ráð fyrir að hæstv. forsrh. sitji enn á þingi. Hann er búinn að gera það lengi og ætlar sér sjálfsagt að vera þar lengi áfram. — En á fundi, sem við formenn þingflokka áttum með honum í gær, var m.a. verið að ræða plagg, sem hæstv. ríkisstj. afhenti okkur daginn áður, um hvaða mál ætti að afgreiða fyrir jólin. Eitt atriði í þessari upptalningu, en það var 21 mál sem hæstv. ríkisstj. ætlaði að afgreiða fyrir jól, var einmitt lánsfjárheimildalög. Síðast í gær sátum við á fundi með hæstv. forsrh. þar sem hann bað okkur stjórnarandstæðinga að fallast nú á að lánsfjárheimildalög yrðu afgreidd fyrir jól. Við sögðum að út af fyrir sig mundum við ekki setja okkur neitt á móti því. En þegar kom dálítið fram á fundinn upplýsti hæstv. forsrh. að þessi lánsfjáráætlun mundi sennilega ekki verða tilbúin fyrir jól. Það var sem sé fyrst eftir miðjan dag í gær sem það var gert uppskátt að samkomulag mundi sennilega ekki takast í ríkisstj. fyrir jól. Byltingin yrði sennilega ekki fyrr en um áramót. Samkomulag mundi að sjálfsögðu takast strax um eða eftir áramótin, um það þyrftu menn ekki að velkjast í vafa.

Hæstv. forsrh. fór þess á leit við okkur stjórnarandstæðinga, að við gerðum við hann samkomulag um að afgreiða öll þau mál á þessum fáu klukkustundum fram að jólahléi þm. sem til ráðstöfunar eru, að við afgreiddum með stjórnarflokkunum öll þau mál sem ríkisstj. teldi nauðsynlegt að afgreiða á þessum tíma, svo að þegar þm. færu í jólafrí væri búið að gera hreint á borðum okkar, það væri búið að gera hreint í Alþingi fyrir jólin, áður en jólafrí þm. hæfist, menn væru búnir að gera hreint fyrir sínum dyrum, þm. gætu sem sé farið í sitt hefðbundna jólafrí þar sem öll þau vandkvæði, sem ríkisstj. teldi að þyrfti að leysa á starfstíma Alþingis fyrir jól, yrðu þá leyst. Við formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar tókum mjög jákvætt í þessa málaleitan hæstv. forsrh. Við tjáðum honum að stjórnarandstaðan mundi fúslega geta fallist á að afgreiða þau mál, sem ríkisstj. teldi nauðsynlegt að fá afgreiðslu á, fyrir jól.

Hæstv. forsrh. þakkaði okkur formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar fyrir þessar undirtektir. Síðan gekk hæstv. forsrh. beint af okkar fundi og til samtals við fréttamann Ríkisútvarpsins. Þar varð ekki betur heyrt en hæstv. forsrh. upplýsti að þegar væri búið að ná samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um öll þau mál sem ríkisstj. teldi nauðsynlegt að afgreiða og eftir að búið væri að senda Alþingi heim í jólafrí, eftir að alþm. hefðu þannig gert hreint fyrir sínum dyrum, þá mundi hann grípa til þess úrræðis ásamt ríkisstj. að gefa út sem brbl. í nokkurra daga fjarveru þm. þau úrræði sem búið er að kalla eftir frá hæstv. ríkisstj. í allt haust. Það var ekki annað að skilja á hæstv. forsrh. en þetta væri hugmyndin. Hæstv. ráðh. kom beint af samningafundi við stjórnarandstöðuna, þar sem stjórnarandstaðan lýsti því yfir að hún væri öll af vilja gerð til að afgreiða öll þau mál sem hæstv. ríkisstj. óskaði eftir að fá afgreiðslu á fyrir jól, samþykkti allt sem ráðh. hafði beðið um. — Hæstv. forsrh. fór beint af þessum fundi til að tilkynna landslýð að hann hefði gert þetta samkomulag við hv. stjórnarandstöðu, þm. gætu sem sagt farið í sitt hefðbundna jólaleyfi. Í hinu hefðbundna fárra daga jólaleyfi þm. ætlaði hæstv. ráðh. síðan að gera ráðstafanir með lagasetningu sem Alþingi gæti staðfest seinna, þegar þing væri komið saman aftur. Þetta mundi nú ekki vera nefnd drengileg framkoma þingreyndasta stjórnmálamanns á Íslandi. Það ber ekki vott um mikinn drengskap, hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson, að halda svona á málum.

Það er ósköp eðlilegt að okkur stjórnarandstæðingum, sem vorum nýkomnir frá því að gera samkomulag við hæstv. forsrh. um að afgreiða allt, sem honum datt í hug að biðja um, á þessum fáu klukkustundum, yrði nokkuð bilt við þegar við heyrðum orð hans í útvarpinu í gær. Ráðstafanir voru gerðar til að fá nánari upplýsingar um það hjá hæstv. forsrh., hvað í þessari yfirlýsingu hans fælist. Mjög lengi var í dag leitað að hæstv. forsrh. um alla Reykjavík til að fá þetta upplýst. Og það voru ekki aðeins við stjórnarandstæðingar sem voru að leita að hæstv. forsrh. Stuðningsmenn hans í Ed. Alþingis leituðu að ráðh. um alla Reykjavík vegna þess að hann hafði ekki sést á þingfundi og í hv. Ed. var ekki hægt að afgreiða mál af því að oddviti ríkisstj. sat ekki á þingi. Það tók talsvert langan tíma að hafa uppi á hæstv. forsrh. En honum datt ekki í hug að verða við þeim vinsamlegu tilmælum stjórnarandstæðinga að gefa eilítið nánari skýringar á ummælum ráðh. í útvarpinu í gærkvöld fyrr en e.t.v. á morgun.

Og hæstv. forsrh. situr ekki enn þá á þingi. Hvar er hæstv. ráðh.? Sumir segja að hann dveljist alla daga, ef hann mögulega getur komið því við, á Þingvöllum í andrúmslofti þeirra minninga og þeirrar tignar sem er yfir þeim stað. Það má vel vera að hann sé kominn upp á Þingvöll núna og leggist þar undir feld eins og annar nafntogaður stjórnmálamaður, þó að það sé nokkuð lengra síðan sá var valinn til þings en hæstv. forsrh. En það er auðvitað alveg fráleitt, að á sama tíma og við erum að reyna að afgreiða hér fyrir hæstv, ríkisstj. hvert málið á fætur öðru sé Ed. Alþingis verkefnalaus stundum saman vegna þess að oddamaðurinn í deildinni, hæstv. forsrh., hefur ekki tíma til að sitja á Alþingi. Hér erum við stjórnarandstæðingar búnir að sitja í allan dag afgreiðandi mál fyrir hæstv. ríkisstj. og forsrh., sem á sæti hérna næst mér við ráðherraborðið, sést ekki. Hann fæst ekki einu sinni til að gefa okkur skýringar á ummælum sínum í útvarpinu í gærkvöld, sem ganga gersamlega á snið við það heiðursmannasamkomulag sem við höfðum gert við þennan sama mann tveimur klukkutímum áður. Ég verð nú að segja eins og er, mínir ágætu þingbræður og systur, að það er varhugavert að gera samkomulag við slíka fursta. Og ef við stjórnarandstæðingar fáum ekki skýr og afdráttarlaus svör frá hæstv. forsrh. tel ég ekki vera nokkra ástæðu til þess að við séum að standa við það samkomulag sem við gerðum í gær við hæstv. ráðh. um að greiða götu allra þeirra mála sem hæstv. ríkisstj. kærir sig um að fá afgreidd frá Alþingi Íslendinga fyrir jólin.

Kannske verður hæstv. forsrh. kominn til þings á morgun eða kannske kemur hann hinn daginn, en kannske kemur hann ekki fyrir jól. Það verður að bíða og sjá. En hann ætlar sjálfsagt öllum öðrum þm. en sjálfum sér að sitja hér lon og don frá morgni til kvölds til að afgreiða þau mál sem honum þóknast að biðja um stimpilinn á héðan frá deildum þingsins.

Herra forseti. Ég ræddi um síðara efnisatriði þessa frv., sem hér liggur frammi, í máli mínu áðan, þ.e. 4. gr., og benti á að það er alveg út í hött og óviðunandi með öllu að samþykkja 4. gr. eins og hún er óbreytt í frv. Alþingi hlýtur að breyta henni og það verður sjálfsagt gert í meðferð málsins í hv. fjh.- og viðskn. 2. gr. er hins vegar nokkuð annars eðlis en 4. gr. — 2. gr. fjallar um að gera upp, ef svo má segja, syndir yfirstandandi árs. Þar segir m.a. að vegna þess, að ýmis kostnaður hafi farið fram úr áætlun og ekki hafi verið unnt að ljúka æskilegum framkvæmdum o.s.frv., hafi ríkisstj. orðið að taka meira lán erlendis og innanlands en hún hafði heimild til. Hæstv. ríkisstj., þegar hún taldi sig ekki geta gert það sem hana langaði til að gera, brá á það ráð að taka lán umfram þær heimildir sem Alþ. afgreiddi til hæstv. ríkisstj. með samþykkt lántökulaganna á s.l. vori. Ég man eftir því í umr. um þau lög, að ég spurði hæstv. fjmrh. sérstaklega að því, hvort það væri ekki staðfastur ásetningur hans og ríkisstj. að sú fjárhæð, sem væri verið að afgreiða í lánsfjárheimildarlögunum, væri föst fjárhæð. Ég spurði hæstv. ráðh. hvort það mætti ekki treysta því alfarið að hæstv. ríkisstj. mundi ekki bregða á hið sama ráð og ríkisstj. sú sem Alþb. átti aðild að næst á undan gerði, þ.e. að gera sér leik að því að virða lög frá Alþingi um heimildir til lántöku innanlands og erlendis gersamlega að vettugi og ef henni þætti hún ekki hafa úr nógu að spila leitaði hún sér peninga sjálf í heimildarleysi. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að alþm. mættu treysta því. Hann lýsti því sérstaklega yfir, að ríkisstj. mundi ekki bregða á það ráð að bæta við lántökur innanlands og erlendis á árinu umfram það sem Alþingi heimilaði.

Þessu lýsti hæstv. fjmrh. formlega yfir aðspurður fyrir nokkrum mánuðum. Efndirnar á þessum skjalfestu loforðum hæstv. ráðh. sjást í 2. gr. Þar hefur ríkisstj. farið tæpum 5 milljörðum kr. fram úr þeim heimildum sem Alþingi gaf ríkisstj. með lögum um að hún mætti taka til láns erlendis og innanlands á því ári sem er að líða. Og hún hefur enga afsökun fyrir því að hafa látið sér verða þetta á, vegna þess að hæstv. ráðh. var sérstaklega spurður að því fyrir nokkrum mánuðum hvort hætta væri á því, að þetta yrði gert, og hann svaraði því neitandi. Auðvitað er það með öllu út í hött, herra forseti, að Alþingi afgreiði lög um heimildir til ríkisstj. til að taka lán erlendis eða innanlands ef þau lög eru gersamlega dauður bókstafur, ef hæstv. ríkisstj. starfar eins og þessi lög hafi aldrei verið afgreidd og séu ekki til. Þá er miklu heiðarlegra og betra að láta vera að setja lögin en að hæstv. ríkisstj. fái þau sett og brjóti þau síðan.

Ef hæstv. fjmrh. væri nú viðstaddur, sem hann er ekki frekar en hæstv. forsrh. og flestir hinir, að tveimur undanteknum, mundi ég spyrja hann að því, hvort það væri alveg ljóst að jafnvel þótt 4. gr. frv. yrði breytt þannig að Alþingi heimilaði honum ekki ráðstöfun á því lánsfé, sem þar er verið að biðja um heimild til að taka, nema með sérstökum skilmálum, yrði við þá afgreiðslu Alþingis staðið. En ég verð að segja eins og er, herra forseti, að miðað við reynsluna af þessari ágætu ríkisstj. og hæstv. fjmrh. væri ekkert að marka þá yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. gæfi spurður um þetta. Þess vegna tel ég að hafi verið nauðsynlegt að ganga rækilega frá öllum hnútum við afgreiðslu mála um lánsfjárheimildir og raunar fjárlög líka fyrir nokkrum mánuðum, þegar þau voru afgreidd hér á Alþ. síðast, þá sé enn nauðsynlegra að ganga tryggilega frá öllum saumum nú eftir þá reynslu sem menn hafa fengið af framkvæmd núv. hæstv. ríkisstj. á lögum sem Alþingi samþykkti og við alþm. fyrir nokkrum mánuðum.