23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hér hefur í kvöld verið gumað af því, að staða ríkissjóðs sé góð miðað við fyrri ár. Í þessu sambandi er rétt að leiða athyglina að því, að samkv. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að skattar verði á næsta ári hvorki meira né minna en 75 milljörðum kr. hærri en þeir voru fyrir tveimur árum, þ.e. fyrir valdatöku síðustu vinstri stjórnar, og er þá mætt í sambærilegum krónum.

Þessi upphæð lýsir vel skattastefnu ríkisstj. Skattahækkunin er 1 millj. 300 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu eða um það bil 2–3 mánaða laun. Sumum kann að þykja þetta ótrúlega há tala, en hún er engu að síður staðreynd og skýrist af stórhækkuðum óbeinum sköttum og sérstökum sköttum sem faldir eru í vöruverðinu.

Hækkun beinu skattanna, tekju- og eignarskatta, er aðeins hluti af heildarskatthækkuninni. Og svo kemur Ragnar Arnalds fjmrh. hér í ræðustól og talar mikið um skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann á tímum Matthíasar Á. Mathiesen sem fjmrh., en tekur það ekki fram, að nú eru skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann ekki aðeins 25 milljarðar eins og þá, heldur 40 milljarðar ofan á 70 milljarða skattahækkun.

Það er hins vegar hægur vandi að reka ríkissjóð hallalausan þegar þannig er takmarkalaust seilst í vasa skattborgaranna. Ég er þess fullviss að gjaldkerar í frjálsum félagasamtökum gætu verið ánægðir með fjárhaginn ef þeir gætu lagt árgjöld á félagsmenn að eigin geðþótta. Og það væri hægari vandi að reka heimilin í landinu ef almennar launatekjur hækkuðu í sama hlutfalli og tekjur ríkissjóðs. Það munar um minna en tvenn mánaðarlaun á ári.

Forsrh. sagði í útvarpinu í gær að Alþb.-ráðh. væru bæði samviskusamir og duglegir, sem sagt dugandi menn og drengir góðir. Hafi hann átt við dugnaðinn við að arðræna láglaunafólkið í nafni ríkissjóðs, þá er hægt að taka undir þau orð hans.

Núv. ríkisstj. var að nafninu til mynduð til að berjast við verðbólguna. Niðurtalningin var galdratækið sem leysa átti vandann í áföngum. Samkv. stjórnarsáttmálanum átti verðhækkun á vörum og þjónustu að hækka um 8% 1. júní. Sú hækkun varð 13%. Hækkunin átti að verða 7% 1. sept., en varð 10%. Og hún á að verða 5% 1. des., en nú er ljóst að hún verður að öllum líkindum 12%.

ÖII hafa þessi áform sem sagt runnið út í sandinn og nú liggur fyrir að verðhækkanir verða meiri en helmingi hærri 1. des. en niðurtalningin gerði ráð fyrir.

Á undanförnum vikum hafa ráðh. hver á fætur öðrum lýst yfir því, að niðurtalningin hafi mistekist, þótt Steingrímur Hermannsson hafi í ræðu sinni áðan reynt að þráast við og talið að hún væri ekki hafin. Og í kvöld urðu hlustendur vitni að því, að Guðmundur J. Guðmundsson bættist í þennan hóp sem genginn er af trúnni. Það er því orðið aumt hlutskipti hjá verkalýðsforingjanum þegar hann styður enn stjórn sem ekki einungis hefur gefist upp við að ráða niðurlögum verðbólgunnar, heldur hefur með ráðleysi rýrt launakjör láglaunafólks um 10% á þessu ári.

En hvað ætlar ríkisstj. þá að taka til bragðs? Því miður verður heldur fátt um svör. Í fjárlagafrv, er varla minnst á efnahagsstefnu, en þó er gert ráð fyrir 12 milljörðum kr. til þess að mæta aðgerðum í efnahagsmálum, eins og það er orðað, án frekari lýsingar í frv. Og nú minnist enginn lengur á efnahagsnefnd ríkisstj., sem skilaði af sér tillögum fyrir tveimur mánuðum. Það er eins og þær tillögur hafi gufað upp. Það eina ákveðna efnahagsúrræði, sem fram hefur komið, er það sem forsrh. sagði í ræðu sinni fyrr í kvöld, að unnið væri að nýjum vísitölugrundvelli sem ætti að geta gengið í gildi um áramótin.

Ríkisstj. hefur markað stefnu í kjaramálum með samningi sínum við ríkisstarfsmenn. Fyrir nokkrum dögum hóf stjórnin viðræður við starfsfólk ríkisins sem á aðild að almennum verkalýðsfélögum, og stefnt er að því að gera samninga um a.m.k. 10% almennar launahækkanir á grundvelli innanhússtillagna sáttasemjara. Mestar líkur benda til þess, að slíkir kjarasamningar verði gerðir, enda hafa forustumenn Alþb. í verkalýðshreyfingunni heimtað að ríkisstj. lögbindi sáttatillögurnar. Fari á þá leið að kjarasamningarnir verði gerðir með þessum hætti er tiltölulega auðvelt að gera sér grein fyrir framvindu efnahagsmála á næstu mánuðum: Verðbætur á laun verða um það bil 10% 1. des. Fiskverð verður að líkindum hækkað um áramótin um 20%, enda er ekki lengur hægt að skerða kjarabætur til sjómanna. 1/5 hlutum fiskverðshækkunarinnar verður að mæta með hröðu gengissigi, þannig að ef ekkert verður að gert verða verðbætur á laun 1. mars um það bil 18–19% án nokkurra raunverulegra kjarabóta.

Reiknað hefur verið út að verðhækkanir á vöru og þjónustu verði yfir 80% frá 1. nóv. til 1. nóv. á næsta ári, verði þróunin með þessum hætti. En hvers vegna grípur ríkisstj. ekki í taumana strax? Eru augu ráðh. blind á þessa þróun? Því er til að svara, að auðvitað sjá þeir þetta eins og aðrir menn. Ástæðan fyrir aðgerðaleysi þeirra er sú, að Alþb. telur óheppilegt fyrir sig að efnt verði til kjaraskerðandi aðgerða rétt fyrir Alþýðusambandsþing, sem haldið verður eftir rúman mánuð. Þess vegna hafa Alþb.-ráðherrarnir dregið allar ákvarðanir á langinn. Tímann hafa þeir notað til þess að grafa undan einkarekstrinum, eins og nýleg dæmi sanna.

Fyrr eða síðar verður Alþb. og ríkisstj. þó að gera það upp við sig með hvaða ráðum draga á úr verðbólgunni þegar niðurtalningin hefur reynst ófær. Verði það ekki gert fyrir 1. des. n.k. stendur ríkisstj. frammi fyrir nákvæmlega sömu erfiðleikum eftir áramótin og ríkisstj. sem sat að völdum í febr. 1978, en í henni áttu sæti þrír af ráðh. núv. ríkisstj. Mér býður í grun, að forustumenn Alþb. í verkalýðshreyfingunni verði farnir að ókyrrast þegar ráðh. flokksins þurfa að beita svokölluðum kaupránslögum til að ná einhverjum tökum á efnahagsþróuninni. Hvort aðgerðin verði með svokölluðum nýjum vísitölugrundvelli eða öðrum hætti skiptir ekki meginmáli. Kjaraskerðingarmarkmiðið er eitt og hið sama. —

Og það verður fróðlegt þá að vita hvar Guðmundur J. Guðmundsson verður staddur í veröldinni. Var einhver að tala um Stykkishólm — eða minntist einhver á New York?

Í síðustu kosningum var tekist á um það, hvort farin skyldi niðurtalningarleiðin eða hvort tími væri kominn til að viðurkenna þá staðreynd, að verðbólguvandinn verður ekki leystur með töfrabrögðum, heldur markvissum samræmdum efnahagsúrræðum, sem kosta fórnir um sinn, en skila raunhæfum árangri þegar fram í sækir. Núv. ríkisstj. er mynduð á grundvelli niðurtalningarstefnunnar. Sú stefna hefur reynst gagnslaus í reynd. Allar líkur benda því til þess að á næstunni verði þáttaskil í íslenskum stjórnmálum og fólkið í landinu sé tilbúið til að reyna nýjar leiðir út úr efnahagsógöngunum. Niðurtalningaraðferðin hefur reynst ófær í því skyni. Tími hennar er liðinn.

Íslenska þjóðin er ekki reiðubúin til að hverfa aftur til boða og banna. Haftastefnu hefur þegar verið hafnað. Nú er kominn tími til að leysa úr læðingi þann kraft sem frelsið býr yfir — frelsi til framtaks og framfara. Í nýrri lífskjarasókn byggðri á athafnafrelsi og einkaframtaki þarf forustu sterks, frjálslynds stjórnmálaflokks sem hefur kjark til að takast á við nauðsynleg viðfangsefni.

Í fyrsta lagi verðum við að virkja vatnsföllin til stóriðju. Síðasta stóra vatnsfallsvirkjunin var ákveðin á dögum viðreisnarstjórnarinnar og aðgerðaleysi núv. iðnrh. hefur dregið úr möguleikum okkar til að nýta orkulindirnar í þágu arðbærrar atvinnugreinar.

Í öðru lagi verðum við að finna lausn á kjördæmamálinu og leiðrétta þann mikla mun sem er á kosningarrétti í landinu eftir búsetu manna.

Í þriðja lagi verðum við að finna viðunandi lausn á landbúnaðarmálunum og brúa það bil sem hefur myndast á milli hugmynda og aðstöðu fólks í strjálbýli og þéttbýli.

Og í fjórða lagi verðum við að móta stefnu í menningar- og menntamálum, sem tekur tillit til einstaklinga og fjölskyldna, en hafnar því að alið sé á áhrifum kommúnista undir yfirskini menningar og lista.

Góðir áheyrendur. Þótt um sinn hafi skilið leiðir með sjálfstæðismönnum skulum við hafa í huga að það er skylda okkar að sameinast í einum samhentum flokki þegar kallið kemur. Til forustumanna og þm. flokksins eru gerðar þær kröfur að sjálfstæðismenn gangi hreint til verks og taki til hendi þar sem frá var horfið í upphafi viðreisnar á sjöunda áratugnum, en þá voru lífskjörin bætt með því að leysa athafnafrelsið og framkvæmdaviljann úr læðingi. — Góða nótt.