11.12.1980
Efri deild: 28. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

45. mál, viðskptafræðingar

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Þetta frv. var lagt fram í Nd. í fyrravor, en fékk þar ekki fullnaðarafgreiðslu. Það var lagt að nýju fyrir Nd. nú á þessu hausti með nokkrum breytingum og hefur fengið fullnaðarafgreiðslu í Nd. án þess að nokkur breyting væri á frv. gerð. Menntmn. Nd. fjallaði um málið og lagði þar til að það yrði samþ. óbreytt, og í því formi er frv. nú lagt fyrir þessa hv. deild.

Í 1. gr. frv. segir að rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga, hagfræðinga eða nota heiti, sem felur í sér orðin viðskiptafræðingur eða hagfræðingur, hafi þeir menn hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi ráðh., en þeir, sem lokið hafa prófi úr viðskiptadeild Háskóla Íslands, þurfi ekki slíkt leyfi ráðh.

Í 2. gr. er svo gert ráð fyrir því, að engum megi veita leyfi til að kalla sig þessum starfsheitum nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðskiptafræði eða hagfræði við háskóla eða annan æðri skóla sem ráðh. viðurkennir sem fullgildan skóla og fullgilt nám í þeirri grein. Síðan er gert ráð fyrir því, að áður en ráðh. ákveður að veita manni starfsheiti af þessu tagi skuli hann bera það undir félagsskap þeirra, sem lokið hafa prófi héðan frá Háskóla Íslands í viðskiptafræðum, og þeirra, sem hagfræðingar eru nú og eru í félagsskap sem nefnist Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. En ef ágreiningur verður um það, hvort maður hafi rétt til að bera þetta heiti, skal ráðh. skera úr.

Þetta frv. er með mjög svipuðu sniði og lög sem gilda um starfsheiti tiltekinna starfsstétta, þó að því leyti frábrugðið að í þessu frv. er lagt til að ráðh. hafi meira vald en oft mun tíðkast í löggjöf af þessu tagi. Í sumum lögum um svipað efni er það sjálf stéttin eða stéttarfélögin sem hafa nánast úrskurðarvald um þetta, en ég taldi, eftir að hafa kannað málið betur, óeðlilegt að veita stéttarfélagsskap slíkt vald. Eðlilegra væri að ráðh. skæri úr ágreiningi, en leitaði hins vegar álits viðkomandi félagsskapar, í þessu tilfelli Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, ellegar annarra aðila sem ástæða væri til að leita umsagnar hjá.

Þetta mál er ekki stórt í sniðum eða mikið að efni. Ég held að það sé eðlilegt að veita viðskiptafræðingum og hagfræðingum þennan rétt. Þetta frv. er flutt samkv. beiðni og ósk Félags viðskipta- og hagfræðinga, og eins og ég hef áður greint frá hefur Nd, fjallað um málið og þar var það afgreitt á fundi í dag án þess að nokkur breyting væri gerð á frv. Og í því formi er það nú lagt fram hér í hv. Ed.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. menntmn.