23.10.1980
Sameinað þing: 8. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

Stefnuræða forseta og umræða um hana

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ríkisstj., sem nú hefur starfað á níunda mánuð, hefur haft fjölmörg mikilvæg mál til úrlausnar jafnhliða undirbúningi að þeim mörgu og þýðingarmiklu stefnumiðum sem um var samið við myndun stjórnarinnar og forsrh. hefur að nokkru gert grein fyrir í sinni stefnuræðu.

Þegar á fyrstu mánuðum starfstíma síns lagði ríkisstj. fram og fékk samþykkt hér á Alþingi mörg og mikilvæg lagafrv., auk fjárlaga og heimildar til lánsfjáröflunar. Er þar ekki síst að nefna lög um ýmsar mikilsverðar félagslegar réttindabætur, svo sem um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lög um Lífeyrissjóð bænda. Þá ber ekki síður að nefna hin nýju lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem víðtæk reglugerð hefur verið byggð á og gefin út nýlega. Með þessum lögum er brotið í blað varðandi íbúðarbyggingar í landinu á félagslegum grundvelli og áhrifa þeirra mun væntanlega gæta um land allt á næstu árum í stórbættri aðstöðu launafólks í húsnæðismálum og þá ekki síst ungs fólks sem er að stofna heimili. Ekki þarf að rifja hér upp tilburði stjórnarandstöðunnar til að stöðva þessa lagasetningu í þinginu s.l. vor.

Á sviði iðnaðarmála tel ég mikilsverðust á þessu tímabili ný lög um Iðnrekstrarsjóð, sem fela í sér mikla eflingu sjóðsins á næstu árum, en hlutverk hans er að veita lán og styrki til margháttaðra iðnþróunarverkefna. Tengist það þeim víðtæku aðgerðum sem að er unnið til að auka framleiðslu og framleiðni almenns iðnaðar í landinu jafnframt.því sem lagt er út á nýjar brautir.

Frá síðustu árámótum að telja býr íslenskur framleiðsluiðnaður og hluti þjónustuiðnaðar við fulla og óhefta samkeppni eftir 10 ára aðlögunartíma frá því tekin var stefna á fríverslun með inngöngu í EFTA. Flestum ber nú saman um að þann tíma hefði þurft að nota betur til að bæta stöðu einstakra greina, bæði af hálfu fyrirtækjanna sjálfra og varðandi hlut hins opinbera.

Frá ýmsum aðilum í iðnaði hafa komið fram kröfur og óskir um tollvernd og lengdan aðlögunartíma vegna þess að íslenskur iðnaður standi halloka gagnvart óheftum innflutningi. Á síðasta ári beitti þáv. vinstri stjórn sér fyrir álagningu svonefnds aðlögunargjalds, sem nemur 3% og lagt er á innfluttar iðnaðarvörur til loka þessa árs. Veitir það nokkra vernd fyrir iðnað okkar á þessu tímabili. En hitt er mikilsverðara, að fjármagn hefur fengist til margháttaðra þróunaraðgerða til að búa ýmsar iðngreinar betur í stakk til að mæta harðnandi samkeppni og jafnframt til að efla þjónustu af opinberri hálfu við iðnað í landinu. Þessar aðgerðir varða m.a. fata-, ullar- og skinnaiðnað, málm- og skipasmíðaiðnað, húsgagna- og innréttingaiðnað og nú síðast sælgætisiðnað, jafnframt því sem sú iðngrein fékk tímabundna tollvernd. Að þessum málum er unnið í samvinnu hins opinbera og samtaka í viðkomandi greinum. Erfitt getur reynst að mæla með nákvæmni árangur slíkra þróunaraðgerða, en fullyrt er af aðilum, er vel eiga að þekkja til þessara mála, að á vissum sviðum sé að vænta mjög verulegrar framleiðniaukningar á skömmum tíma, m.a. í tengslum við bætt skipulag og fræðslu svo og breytt launakerfi.

Ég legg áherslu á að í þeim málum er varðar starfsfólkið með beinum hætti, svo sem varðandi vinnuálag og starfstilhögun, séu höfð góð samráð á undirbúningsstigi. Fátt er brýnna en að styrkja samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar með aukinni framleiðni og bæta kjör þeirra er við hann starfa. Íslenskt iðnverkafólk hefur um langt skeið verið í hópi hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu. Á því þarf að verða breyting og af þeim sökum er brýnt að efla iðnað er boðið gæti hliðstæð kjör og annar atvinnurekstur í landinu.

Fyrirhugað er að leggja fram hér á Alþ. innan skamms stefnumarkandi till. um iðnþróun. Að hliðstæðri stefnumörkun er unnið á vegum rn., annarra atvinnuvega og ríkisstjórnarinnar í samræmi við þá áherslu sem lögð er á málefni atvinnulífsins í stjórnarsáttmála. Í þeim efnum má engin einsýni ráða, heldur ber að greina þá kosti sem lífvænlegir eru til frambúðar á grundvelli skynsamlegrar hagnýtingar íslenskra auðlinda.

Ástæða er til að vara við röddum, sem nú gerast býsna háværar, að þróunarmöguleikar í hefðbundnum atvinnuvegum og þá öðrum fremur í landbúnaði og sjávarútvegi séu þverrandi og jafnvel þrotnir. Sumir ganga svo langt að vilja stefna að stórfelldum samdrætti í landbúnaði. Ekki skal lítið gert úr nauðsyn þess að skipuleggja betur en verið hefur framleiðstu í landbúnaði og ná samræmi milli veiða, vinnslu og markaðar í sjávarútvegi. Þetta er brýnt verkefni og þá einnig með tilliti til verndunar og viðgangs fiskstofna og gróðurlenda. En á sama hátt og í iðnaði þarf að hyggja að fjölbreytni og sem mestri verðmætasköpun í þessum atvinnuvegum einnig með því að draga úr tilkostnaði.

Sjávarútvegurinn hefur átt undir högg að sækja í rekstri að undanförnu og raunar einnig útflutningsiðnaður. Þar eru á ferð margar samverkandi ástæður sem þegar hefur verið fjallað um hér í umr. Flestar eiga þær upptök sín í þróun erlendis, í gífurlegri hækkun olíuverðs og lækkandi raunvirði fyrir mikilvægar útflutningsafurðir okkar. Hin mikla verðbólga hér innanlands ásamt óraunhæfri vaxtastefnu, sem lögfest var á síðasta ári, bæta ekki úr skák við úrlausn á tímabundnum vanda. Af hálfu ríkisstj. hefur margt verið gert til að draga úr erfiðleikum í atvinnulífinu og afstýra rekstrarstöðvun. Frekari aðgerða er þó þörf á því sviði samhliða ráðstöfunum til að hamla gegn verðbólgu. Slíkar ráðstafanir mega þó hvorki bitna á viðunandi atvinnuöryggi né kjörum þess fólks sem fyllir hinn stóra hóp láglaunamanna í landinu, svo að ekki sé minnst á ellilífeyrisþega og öryrkja.

Nátengd kjörum fólks og stöðu og þróun atvinnulífsins í landinu eru orkumálin. Ekkert eitt svið hefur valdið jafnmiklum breytingum í viðhorfum og aðstæðum á alþjóðavettvangi og margföldun verðlags á olíuafurðum undanfarin 8 ár og hækkun á almennu verðlagi og öðrum orkugjöfum í kjölfarið. Þessi þróun hefur ekki farið fram hjá íslenskum þjóðarbúskap, sem enn byggir á innfluttri orku að jöfnu á við innlenda orkugjafa. Þessi verðþróun hefur bitnað mjög misjafnlega á landsmönnum sem kunnugt er, þannig að í reynd jafngildir það stórfelldri kjaraskerðingu hjá þeim sem lakast eru settir og búa við olíu til húshitunar og um leið við hátt raforkuverð. Þær verðjöfnunaraðgerðir, sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir síðustu tvö ár með margföldun á olíustyrk og jöfnun á raforkuverði, hafa vissulega mildað þetta högg verulega, en frekari aðgerða er þörf í þessu efni. Ekki skiptir þó minna máli að vinna sig út úr vandanum með því að koma innlendum orkugjöfum sem fyrst í gagnið í húshitun og lækka tilkostnað með samræmdum hætti.

Í ár er varið mun meira fjármagni að raungildi til raforku- og hitaveituframkvæmda en mörg undanfarin ár, og þær framkvæmdir tengjast með beinum og óbeinum hætti því átaki í húshitun með innlendum orkugjöfum sem sjá má fyrir endann á að 3–5 árum liðnum. Að þessu verkefni hefur verið unnið með breytilegum áherslum um árabil. Þeim fjármunum og orku, sem til þess renna, er vel varið. Engin fjárfesting í landinu mun ávaxtast betur en það fé sem veitt er í vel undirbúnar hitaveitu- og raforkuframkvæmdir sem draga úr olíunotkun. Þetta er því sjálfsagt forgangsverkefni í orkumálum uns því er lokið, en jafnhliða verður að auka öryggi varðandi flutning og dreifingu raforku til notenda í öllum landshlutum. Að sama marki er stefnt með því að dreifa stórvirkjunum til raforkuöflunar um landið, en ákvörðun þar að lútandi þarf að taka á næsta ári.

Eðlilegt er að landsmenn horfi til orkulindanna: vatnsafls og jarðvarma, í tengslum við margvíslega hagnýtingu í framtíðinni. Ljóst er að hér er um auðlindir að ræða sem skipt geta sköpum um öryggi og lífskjör þjóðarinnar í framtíðinni. Þannig þarf að halda á málum, að jafnt atvinnufyrirtæki sem almenningur í landinu eigi völ á orku við sanngjörnu verði og þessa auðlind megi hagnýta sem bakhjarl fyrir íslenskt atvinnulíf. Að því er nú unnið á vegum iðnrn. að afla sem ítarlegastrar vitneskju um atvinnurekstur sem reisa mætti í tengslum við nýtingu á innlendri orku og hráefnum. Þar mun við nánari skoðun margt koma til álita, en fyrir utan ótvírætt íslenskt forræði yfir slíkum atvinnurekstri þarf að gæta að fjölmörgum öðrum þáttum, m.a. orkuverði og tengslum við það atvinnulíf sem fyrir er svo og að úrvinnslumöguleikum. Á þessu sviði ber að forðast allar kollsteypur, en sækja fram að vel athuguðu máli.

Sá málflutningur, sem stjórnarandstaðan hefur viðhaft í þessum efnum að undanförnu, er gamalkunnur og bendir ekki til að þeir hinir sömu og stóðu að samningunum um álverið í Straumsvík á sínum tíma hafi neitt lært á þeim áratug sem liðinn er frá þeirri samningsgerð. Ég er hins vegar fullviss um að þorri landsmanna er andvígur erlendri stóriðju og vill að við Íslendingar ráðum jafnt yfir auðlindum sem atvinnurekstri í landi okkar í framtíðinni.

Herra forseti. Sú ríkisstj., sem mynduð var við óvenjulegar aðstæður á s.l. vetri, hefur mörg verk að vinna og eðlilega eru gerðar til hennar kröfur af stuðningsmönnum jafnt sem andstæðingum. Alþb. gekk einhuga til þessa stjórnarsamstarfs á grundvelli þess sáttmála sem aðilar að ríkisstj. náðu samstöðu um.

Innan ríkisstj. hefur ríkt góður samstarfsvilji, á meðan stjórnarandstaðan hefur hins vegar staðið sundruð og sumpart í hjaðningavígum. Ég hef ekki séð ástæðu til að fjalla um málflutning stjórnarandstöðunnar, ráðleysi hennar og sundurþykki í þessari stuttu ræðu. Fréttum af heimavígstöðvum sínum kemur hún vel til skila sjálf og hjálparlaust. Jafnljóst er það, að við, sem að ríkisstj. stöndum, höfum við mörg brýn og vandasöm verkefni að fást. Við úrlausn þeirra mun reyna á innviði stjórnarinnar og þá sem næst henni standa. Þar skiptir góð samstaða og heilindi máli og vilji til að láta gott af sér leiða fyrir alþýðu þessa lands. Í von um að það veganesti endist sem lengst í þessu stjórnarsamstarfi skulum við ótrauð heilsa vetri. — Þökk fyrir áheyrnina. Góða nótt.