12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

1. mál, fjárlög 1981

Frsm. 1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég fyrir hönd okkar þremenninga, sem skrifa undir nál. 1. minni hl., þakka formanni fjvn. fyrir lipurð og þolinmæði í okkar garð. Ég þakka ritara nefndarinnar og hagsýslustjóra fyrir ómetanlega aðstoð og meðnm. okkar fyrir mjög ánægjulegt samstarf. Ég vil taka undir það með formanni fjvn. að ég held að samstarfið í fjvn. sé til fyrirmyndar.

Við þremenningar flytjum — eins og minni hl. fjvn. hefur oftast gert — fjölmargar sameiginlegar till. með meiri hlutanum, með venjulegum fyrirvara um að flytja eða fylgja brtt. Að þessu sinni treystum við okkur ekki til annars en að gera sérstakan fyrirvara um skiptingu nefndarinnar á liðnum Til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva. Þar hefur verið farið á undanförnum árum of djarft í að hefja ný verk og er orðið óviðráðanlegt að skipta því fjármagni sem ríkisstj. og meiri hluti Alþingis skammtar í þennan lið, ef nokkur glóra á að vera í framkvæmdum á hverjum stað, einkum að stærstu verkefnunum. Vil ég þar t.d. nefna Ísafjörð og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hefur neyðarástand verið að skapast undanfarið vegna þrengsla. Sú fjárveiting, sem hér er sett á blað, þýðir að verkið mun dragast og það neyðarástand vaxa sem þar er.

Ég endurtek þakkir okkar þremenninga til formanns fyrir ágætt samstarf í nefndinni. Ég get því miður ekki sagt það sama um hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. þarf hverju sinni að taka ákvarðanir um þýðingarmikla þætti fjárlagagerðarinnar, eftir að fjárlagafrv. er komið fram. Mikilvægt er að þessar ákvarðanir séu teknar tímanlega svo að störf fjvn. Alþingis geti gengið með eðlilegum hætti. Því var svo sannarlega ekki að heilsa að þessu sinni. Ríkisstj. var jafnhikandi og ráðlaus í þessum ákvörðunum og hún hefur verið í stjórn efnahagsmála á öllum sviðum frá því hún settist að völdum.

Enn hefur fjvn. og þingheimur ekki fengið að sjá frv. til lánsfjárlaga fyrir 1981 þrátt fyrir skýtaus ákvæði í svonefndum Ólafslögum um að frv. til lánsfjárlaga skuli lagt fram með frv. til fjárlaga og þrátt fyrir að í grg. fjárlagafrv. er hátíðlega lýst yfir því, að frv. til lánsfjárlaga verði lagt fyrir Alþingi í byrjun nóvember. Nú bendir allt til þess, að þetta frv. verði ekki lagt fram fyrr en eftir jólaleyfi þingmanna.

Vinnubrögð vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar og núv. hæstv. ríkisstj. að því er varðar lánsfjárlög eru dæmigerð fyrir þykjustuleik og hringlandahátt þessara hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar beitti sér fyrir lagasetningu á Alþingi þar sem fest er í lög að frv. til lánsfjárlaga skuli lagt fram jafnframt frv. til fjárlaga á hverju reglulegu Alþingi. Sjálf lagði þessi sama ríkisstj. frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1979 á Alþingi 21. febr. á því ári, 1979. Það var ekki afgreitt fyrr en alveg í þinglok, hinn 16. maí. Frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1980 var ekki lagt fram fyrr en 3. maí á síðasta þingi og afgreitt hinn 19. maí og var því aðeins rúmar tvær vikur til meðferðar á hinu háa Alþingi. Þá stóð að sjálfsögðu sérstaklega á um þingstörf vegna vetrarkosninga og frestunar á afgreiðslu fjárlaga fram yfir áramót. En hæstv. núv. ríkisstj. hefur setið að völdum í rúma 10 mánuði og væntanlega vitað um ákvæði íslenskra laga um vinnubrögð á Alþingi. Hún gerir sér sjálfsagt líka ljósa grein fyrir því, hversu mikilvægt er fyrir farsæla stjórn efnahagsmála að tekin sé afstaða til fjárlaga og lánsfjárlaga samtímis. Samt sem áður er frv. til lánsfjárlaga ekki komið fram. Þetta eru að sjálfsögðu óviðunandi vinnubrögð, en ástæðan er auðvitað illvígar deilur og sundurlyndi í stjórnarherbúðunum.

Það lýsir glöggt því öngþveiti og stjórnleysi sem ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar, að allar verðlags-, launa- og kostnaðarforsendur, sem gengið var út frá þegar fjárlagafrv. var lagt fram fyrir tveimur mánuðum, eru nú gjörsamlega brostnar. Þá var frv. reist á þeim verðlagsforsendum að verðbreytingar milli áranna 1980 og 1981 yrðu 42% og verðlagshækkanir frá áramótum til ársloka 1981 um 31%. Þetta er í samræmi við þjóðhagsspá sem hæstv. forsrh. lagði fram á Alþingi í haust, eins og lög mæla fyrir um.

Nú tveimur mánuðum síðar hefur fjvn. að eigin ósk fengið í hendur skýrslu frá Þjóðhagsstofnun, dags. 21. nóv., sem nefnist: Lausleg áætlun um breytingar verðlags, launa og kaupmáttar á árinu 1981.

Í þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar er áætlað að verðlag hækki að meðaltali um 65% milli áranna 1980 og 1981 og 70% frá ársbyrjun til ársloka 1981. Þá er í nýju áætluninni gert ráð fyrir því, orðrétt: „að kaupmáttur kauptaxta allra launþega verði að meðaltali 2–3% minni á árinu 1981 en á þessu ári, þrátt fyrir grunnkaupshækkanir í haust.“

Þessi áætlun Þjóðhagsstofnunar eða, eins og hún kallar það, framreikningur á víxlgangi kostnaðar og verðlags er miðaður við eftirfarandi meginforsendur. Ég vitna orðrétt í skýrsluna, með leyfi forseta:

„a) Að vísitölubinding launa verði samkv. gildandi lögum.

b) Að framkvæmd verðlagsmála verði óbreytt frá því sem verið hefur.

c) að gengið verði lækkað til þess að mæta áhrifum innlendra kostnaðarhækkana á hag atvinnuveganna.“

Hér er verið að lýsa óbreyttri stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum og afleiðingum hennar á næsta ári. Þjóðhagsstofnun segir í raun við ríkisstj.: Ef þið breytið ekki um stefnu og gerið róttækar ráðstafanir í glímunni við verðbólguna, þá er þjóðhagsspáin, sem hæstv. forsrh. lagði fyrir Alþingi í haust, algjör óskhyggja. Verðbólgan verður ekki rúmlega 30%, heldur verður hún tvöfalt meiri eða nálægt 70%.

Frá því í apríl í vor hefur hæstv. forsrh. ýmist fullyrt eða gefið í skyn að ríkisstj. hafi á prjónunum ný úrræði í viðureigninni við verðbólguna. Hann fullyrti þá í þingræðu og í sjónvarpi að ríkisstj. stefndi að því að koma verðbólgunni niður undir 40% á þessu ári. Ekkert hefur bólað á þessum úrræðum.

Í frv. til fjárlaga er tilgreind sérstök fjárhæð til efnahagsráðstafana, 12 milljarðar kr. Stjórnarandstaðan hefur margspurt hvenær þessar síðbúnu efnahagsráðstafanir sjái dagsins ljós, en allt kemur fyrir ekki. Síðast fyrir nokkrum dögum sagði Svavar Gestsson, formaður Alþbl., hæstv. félmrh., að efnahagsráðstafanir væru tíðræddar í ríkisstj., en niðurstaða væri engin. Orðrétt sagði hann: „Niðurstaða er engin.“

E.t.v. skiptir litlu máli hvort svör fást við þessum spurningum. Nýjustu útreikningar Þjóðhagsstofnunar á verðbólguholskeflu næsta árs mundu þýða að 10 milljarða kr. á fjárlagaverðlagi skorti til þess, að unnt sé að halda sama niðurgreiðslustigi búvara á næsta ári og fjárlög gerðu ráð fyrir á árinu 1980. Sé einungis miðað við forsendur fjárlagafrv. um 42% verðlagshækkanir að meðaltali milli áranna 1980 og 1981 skortir 4.5 milljarða kr. til þess að standa undir sama niðurgreiðslustigi búvara og fjárlög 1980 gerðu ráð fyrir. Bróðurparturinn af því fé, sem ætlað er til sérstakra efnahagsráðstafana, mundi því í báðum tilfellum fara einfaldlega til þess að halda sama niðurgreiðslustigi og var ákveðið samkv. fjárlögum 1980.

Það gefur auga leið, að ógerlegt er að ræða ríkisfjármál við slíkar aðstæður í þjóðarbúskapnum án þess að fjalla almennt um efnahagsþróun síðustu ára, stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum og horfurnar fram undan.

Núv. hæstv. ríkisstj. fylgir eindregnari vinstri stefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum en þær ríkisstj. á síðasta áratug sem hafa sjálfar kallað sig vinstri stjórnir. Hún stefnir að aukinni skattheimtu annað árið í röð og hefur stórlega þyngt skattaálögur vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar, sem þó voru ærnar fyrir. Á verðlagi fjárlagafrv, munu nýir og hækkaðir skattar síðan 1978 nema yfir 60 milljörðum kr. á næsta ári og með útsvarshækkunum, sem leyfðar voru í fyrra, verða skattaálögur til ríkis og sveitarfélaga um 70 milljörðum kr. þyngri á verðlagi fjárlagafrv. á næsta ári en verið hefði ef sömu skattareglur giltu og á miðju ári 1978. Þetta jafngildir rúmlega 1.5 millj. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Þessar tvær ríkisstj., sem báðar fylgja vinstri stefnu í skattamálum, bera ábyrgð á því, að hver einasta fjölskylda í landinu greiðir 1.5 millj. kr. í aukaskatt og útsvar á næsta ári fram yfir þær skattaálögur sem giltu áður en þær settust að völdum árið 1978.

Ríkisstj. þenur út útgjöld ríkissjóðs, jafnvel umfram skattahækkanirnar, eykur miðstýringu og ríkisafskipti auk þess sem hún beitir sér fyrir harkalegri verðlagshöftum en þekkst hafa hér á landi a.m.k. síðasta áratug. Slík haftastefna lamar atvinnulífið, skerðir lífskjör og hefur þveröfug áhrif í verðlagsmálum við það sem fylgjendur hennar segjast vilja. Öll fyrri reynsla og reynsla síðustu mánaða af þessari stefnu staðfestir þessar staðreyndir.

Til marks um að ríkisstj. heldur óðfluga áfram á braut vinstri stefnu er sú kúvending í húsnæðismálum, sem er innsigluð með þessu fjárlagafrv. Framlög úr ríkissjóði til byggingar íbúða á vegum einstaklinga eru freklega skorin niður í þessu frv. samtímis því sem slík framlög eru margfölduð til félagslegra íbúðabygginga. Þörf á byggingu verkamannabústaða fyrir láglaunafólk er mikil, en sú leið að skera niður framlög til annarra íbúðabygginga í sjálfseign um 4 600 millj. kr. hærri fjárhæð en sem nemur hækkun á framlögum til byggingar verkamannabústaða, eins og gert er í þessu fjárlagafrv., sýnir hvert er stefnt.

Ríkisstj. sver sig í ætt við vinstri stjórnir að öðru leyti. Hún lætur reka á reiðanum í peningamálum, fjárfestingarmálum og launamálum. Þrátt fyrir feluleik í verðlags- og gengismálum, í niðurgreiðslum og neðanjarðarhagkerfi, sem hún hefur komið á fót til þess að fara í kringum vísitöluna, fær hið vélgenga kerfi verðlags, launa, búvöruverðs- og fiskverðshækkana svo til óáreitt að viðhalda og magna óðaverðbólguna sem er í þann veginn að sliga atvinnuvegina og valda efnahagslegri og siðferðilegri upplausn í þjóðfélaginu.

Niðurtalning verðbólgunnar, sem er eina áþreifanlega stefnuyfirlýsing ríkisstj. í efnahagsmálum, hefur algjörlega brugðist. Samkv. henni átti verðbólga í ár að lækka í 31% frá ársbyrjun til ársloka, ef marka má grg. fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár. Verðbólgan varð ekki 31%, heldur 55%, og er þó stórlega vantalin þar sem gífurlegum vanda í verðlagsmálum hefur verið frestað með óraunsæjum verðlagshöftum og falskri gengisskráningu.

Þetta skipbrot niðurtalningarinnar kemur ekki á óvart. Niðurtalningin erí raun harðvítugustu verðlagshöft sem upp hafa verið tekin hér á landi á þessum árátug. Hún felst í raun og veru í því að skipa með stjórnvaldsboði atvinnuvegunum að selja vöru sína og þjónustu undir sannanlegu kostnaðarverði.

Ekki hefur skort yfirlýsingar ráðh. um að ný úrræði væru til athugunar í ríkisstj. í viðureigninni við verðbólguna. Yfirlýsingar Steingríms Hermannssonar, formanns Framsfl., eru t.d. frægar að þessu leyti. Einn fjölmiðlaglaðasti stjórnarsinni á Alþingi sagði að þessar yfirlýsingar Steingríms væru að verða efnahagsvandamál. Síðan hefur nokkuð sljákkað í Steingrími. En yfirlýsingar hefur ekki skort frá öðrum ráðherrum. Þannig virðast hæstv. ráðherrar sjálfir gera sér grein fyrir haldleysi niðurtalningarinnar. Málin hafa verið þæfð og rædd í ríkisstj., efnahagsnefndir skipaðar, en allt kemur fyrir ekki, niðurstaða er engin, eins og hæstv. félmrh. orðaði það svo afdráttarlaust hér á hinu háa Alþingi.

Það er nú fullreynt, að ríkisstj. er sjálfri sér sundurþykk og er ráðlaus. Hún er þess vegna engan veginn fær um að marka stefnu í efnahagsmálum sem varðað getur veginn út úr því öngþveiti verðbólgu sem nú ríkir. Athyglisvert er að framsóknarmenn innan ríkisstj. sýnast hafa af þessu nokkrar áhyggjur. Þeir vakna á þriggja mánaða fresti, þegar vísitalan er reiknuð, og reka upp ramakvein í fjölmiðlum. Allt situr þó við hið sama og þeir sitja áfram í ríkisstj. sem heldur að sér höndum og hefst ekki að. Afleiðingin af þessu ráðleysi og þeirri vinstri stefnu, sem rekin hefur verið í íslenskum efnahagsmálum síðan 1979, er komin í ljós.

Ég sagði áðan að verðbólgan væri ekki 40% frá ársbyrjun til ársloka í ár, eins og hæstv. forsrh. lét sér um munn fara í apríl í vor, heldur 55%. Og Þjóðhagsstofnun spáir því, að verðbólgan nái nýju Íslandsmeti og verði 70% á næsta ári ef óbreytt stefnuleysi ríkir í efnahagsmálum. Þessi hrikalega verðbólga er að sjálfsögðu eitt helsta einkenni helsjúks efnahagslífs, en sjúkdómseinkennin eru því miður fleiri og fullt eins alvarleg. Þjóðarframleiðsla á mann, sem jókst um 5.2% árið 1977, stendur í stað á árinu 1980 og mun minnka ef spár Þjóðhagsstofnunar rætast á árinu 1981. Kaupmáttur taxtakaups launþega, sem minnkaði um 5% fyrri hluta þessa árs, mun minnka á næsta ári um svipaðan hundraðshluta. Halli á viðskiptum við útlönd verður nærri 100 milljarðar kr. á árinu 1980 — 1981, en á árinu 1978 var hagstæður jöfnuður á viðskiptum okkar við aðrar þjóðir. Erlend lán hafa hækkað í erlendri mynt frá áramótum 1977 til áramóta 1980 um 320 millj. dollara. Greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum hefur aukist verulega. Árið 1979 var greiðslubyrðin 12.8% af útflutningstekjum, á árinu 1980 er áætlað að þetta hlutfall hækki í 15.2% og að um áramót verði löng erlend lán í prósentum af þjóðarframleiðslu komin í 37% ef gengi væri skráð í samræmi við eðlilega afkomu útflutningsatvinnuveganna. Almennt er talið að hættumörk þessa hlutfalls, þ.e. upphæð langra erlendra lána í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, sé á milli 33 og 34%.

Ég vík nú nánar að stefnunni í skattamálum frá því haustið 1978 þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar komst til valda. Sú ríkisstj. hóf feril sinn með því að leggja afturvirka aukaskatta á þjóðina. Þessir aukaskattar voru m.a. 50% álag á tekju- og eignarskatt einstaklinga og hafa skattstigar síðan verið við það miðaðir að viðhalda þessum skattaálögum. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur haft þá meginstefnu í skattamálum að viðhalda öllum vinstristjórnarsköttunum og herða á skattaálögum ár eftir ár. Ferill þeirra meirihlutastjórna, sem setið hafa að völdum síðan 1978 á sviði skattamála, sést í hnotskurn þegar skoðaðar eru tölur sem ég hef fengið frá Þjóðhagsstofnun um innheimtu skatta til ríkissjóðs sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Árið 1977 var þetta hlutfall 25% slétt, 1978 26.4%, 1979 27.8%, 1980 er áætlað að þetta hlutfall verði 28% og 1981 áætlar Þjóðhagsstofnun samkv. frv, til fjárlaga að þetta hlutfall fari upp í 28.3%. Ég endurtek að hér er um að ræða innheimta skatta ríkissjóðs eingöngu, skatta ríkissjóðs á innheimtugrundvelli sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Á þessu tímabili hafa skattar til ríkisins af vergri þjóðarframleiðslu hækkað um 3.3%. Þjóðarframleiðslan er áættuð næsta ár 1850 milljarðar kr., sbr. skýrslu forsrh. um þjóðhagsáætlun fyrir 1981. Skattahækkunin á næsta ári verður því rúmlega 61 milljarður kr. þannig reiknað. Að auki var sveitarfélögum heimilað fyrir forgöngu núv. ríkisstj. og meiri hl. hennar hér á hinu háa Alþingi að hækka útsvör um 10% í fyrra. Gæti sú skattahækkun numið 10–12 milljörðum á næsta ári. Viðbótarskattheimta á næsta ári af völdum þessara tveggja ríkisstj. er því, eins og ég sagði áðan, 1.5 millj. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Svo til sama útkoma fæst ef lagðar eru saman viðbótartekjur ríkissjóðs vegna nýrra og hækkaðra skattstofna frá haustinu 1978 á verðlagi fjárlagafrv. sem hér er til umr. Nákvæma sundurliðun á þessum aukaskattreikningi er að finna í nál. okkar þremenninga á þskj. 230. Ákvörðunin haustið 1978 um hækkun tekju- og eignarskatta að frádreginni lækkun sjúkratryggingagjalds, sem reiknað hefur verið með í tekju- og eignarsköttum æ síðan, þyngir þessa beinu skatta á næsta ári um tæpa 11 milljarða kr. Hækkun söluskatts um tvö prósentustig haustið 1979 hækkar skatta á næsta ári um 16 milljarða kr. Hækkun vörugjalds um sex prósentustig á sama tíma hækkar skatta á næsta ári um 10–11 milljarða kr. Skattgjald á ferðalög til útlanda, sem er nýr skattur á þessu tímabili, hækkar skatta næsta ár um 2.4 milljarða kr. Innflutningsgjald á sælgæti, sem er nýr skattur upp fundinn á árinu í ár, hækkar skatta á næsta ári um 1.2 milljarða kr. Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hækkar skatta á næsta ári um 2.2 milljarða kr., en þar er einnig um nýjan skatt vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar að ræða. Aðlögunargjald, nýr skattur á þessu tímabili, hækkar skatt á næsta ári um 2.7 milljarða kr., og þótt þetta gjald verði ekki framlengt tekur annað við sem á að vega heldur þyngra í skattheimtunni samkv. frv. um vörugjald sem lagt var fram í gær. Hækkun verðjöfnunargjalds á raforku þyngir skatta á næsta ári um 1.8 milljarða kr., og skattahækkun á bensíni þyngir skattbyrðina á næsta ári um rúma 13 milljarða kr. umfram almennar verðlagshækkanir og bætast þeir skattar ofan á hækkað innflutningsverð á bensíni, en sú hækkun hefur verið gífurleg eins og kunnugt er.

Orkujöfnunargjald, sem lagt var á með lögum í fyrra og er í rauninni 1.5% söluskattsauki, þyngir skatta á næsta ári um 13 milljarða kr., og markaðar tekjur teknar í ríkissjóð nema 6.9 milljörðum kr., en frá þessum skattahækkunum dregst niðurfelling söluskatts á matvörur, sem ákveðin var haustið 1978, og lækkun tolla á tímabilinu. Niðurstaðan er heildarskattahækkun ríkissjóðs á verðlagi fjárlagafrv. 1981 um rúmlega 60 milljarða kr.

Ef sérstaklega er athugað hver fyrirhugað skattahækkun á árinu 1981 er til viðbótar þeim skattahækkunum, sem komnar voru til framkvæmda á árinu í ár, kemur í ljós að einum nýjum skattstofni er bætt við í fjárlagafrv.: innflutningsgjaldi á sælgæti. Síðan hefur komið fram nýtt frv. um hækkun á vörugjaldi, sem á að mér skilst að leysa aðlögunargjaldið af hólmi, en þyngir skattbyrðina meira en aðlögunargjaldið léttir af. Orkujöfnunargjald er lagt á allt árið 1981 samkv. frv., en aðeins hluta úr ári í fyrra, og þyngjast skattar á næsta ári um 8 milljarða kr. af þeim sökum. Eins og skattvísitalan er ákveðin í frv. mundi hún valda 2–3 milljarða kr. tekjuskattshækkun frá því í fyrra. Þá er enn ætlunin að þyngja skatt á bensíni umfram verðlagshækkanir. Samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar er stefnt að því í frv. að hækka skatt á bensíni um 14.4 milljarða kr. frá fjárlögum í ár, sem er 52.7% hækkun milli ára, og nemur hækkunin því umfram verðlagshækkanir samkv. forsendum frv. um 3 milljörðum kr. Frá þessum nýju hækkuðu skattstofnum dregst afnám nýbyggingargjalds, sem er áætlað að hafi í för með sér 300 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð á árinu 1981.

Útkoman úr þessu dæmi er sú, að milli áranna 1980 og 1981 þyngjast skattar enn um rúmlega 11 milljarða kr. að raungildi, þ.e. áverðlagi fjárlagafrv. 1981. Það vekur sérstaka athygli í þessu sambandi, að ætlunin er að innheimta 13 milljarða í svonefnt orkujöfnunargjald á árinu, sem er í raun söluskattsauki um 1.5 prósentustig, en greiða einungis af því 5 milljarða í olíustyrki, þ.e. í beina jöfnun á verði á olíu til upphitunar. Þessir styrkir hækka einungis um 25% samkv. frv. frá fjárlögum í ár, sem er augljóslega mikil lækkun að raungildi.

Þensla ýmissa rekstrar- og millifærsluútgjalda ríkissjóðs hefur verið verulega meiri en sem nemur þeirri hrikalegu skattahækkun, sem ég hef hér lýst. Þessi þensla ríkisútgjalda hefur valdið hallarekstri ríkissjóðs, niðurskurði ýmissa framkvæmdaframlaga og niðurskurði á fjárframlögum til sjóða og atvinnuvega. Ætla má að rekstrarútgjöld ríkissjóðs hafi hækkað að raungildi um 70–80 milljarða á þessu tímabili, mælt á verðlagi fjárlagafrv. Sem dæmi um þensluna voru um það bil 100 nýjar stöður samþykktar í fjárlagafrv. yfirstandandi árs og miklu fleiri í þessu fjárlagafrv., en mér hefur ekki tekist að fá yfirlit enn frá fjárlaga- og hagsýslustofnun um nýjar stöður í þessu frv. þó að ég hafi beðið um þessar upplýsingar fyrir 2 — vikum. Ég veit ekki hvort þær eru eins margar. Vonandi koma þessar upplýsingar áður en fjárlagaafgreiðslu lýkur.

Sé vikið að niðurskurði á framkvæmdaframlögum, sem þessi eyðslustefna á sviði rekstrarútgjalda ríkissjóðs hefur í för með sér, má nefna, að framlög til hafnargerða eru einungis 78.2% að raungildi framlaganna á kjörtímabilinu 1974–1978 og þyrftu að vera 940 millj. kr. hærri 1981 til þess að halda sama raungildi. Til byggingar grunnskóla skortir samkv. brtt. fjvn. 1270 millj. kr. til að framlögin næsta ár haldi raungildi meðaltals áranna 1974–1978, en þá var hart deild á ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar fyrir niðurskurð á þessum framlögum einkum af Alþb.-mönnum, flokksmönnum núv. hæstv. fjmrh.

Sá óeðlilegi og nánast óþinglegi háttur var upp tekinn í tíð vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar að skerða markaðar tekjur, sem eiga að renna til ákveðinna félagslegra þarfa samkv. lögum, og láta tekjurnar ganga í ríkissjóð. Dæmi er um þetta í þessu frv. þegar áformað er að skerða tekjur Erfðafjársjóðs og Byggingarsjóðs ríkisins og láta skerðinguna ganga í ríkissjóð. Samkv. lögum á erfðafjárskattur að renna í Erfðafjársjóð sem nota á t.d. til að styrkja endurhæfingarstöðvar fyrir fatlaða. Undir því yfirskini er skatturinn lagður á. Síðustu tvö ár hefur engu að síður verið ákveðið með öðrum lögum að láta hluta þessa skatts renna beint í ríkissjóð. Auðvitað er ekkert athugavert, nema síður sé við að fella niður skatta sem ráðstafa á til ákveðinna þarfa samkv. lögum, en slík fjáröflunarleið í ríkissjóð, sem farin hefur verið undanfarið með því að láta þessar skatttekjur ganga í ríkissjóð í stað þess að efla þau framfaramál sem þessir skattar eru innheimtir til, er í hæsta máta óeðlileg. Í lögum eru ákvæði um að tvö prósentustig af 2.5 af launaskatti skuli ganga í Byggingarsjóð ríkisins auk byggingarsjóðsgjalds. Engu að síður verður launaskattur og byggingarsjóðsgjald innheimt beint til ríkissjóðs samkv. fjárlagafrv. og einungis hluti af því, sem lögum samkv. á að renna til Byggingarsjóðs, fer þangað. Ríkissjóður hagnast sem hér segir á þessum tilfæringum um markaða tekjustofna miðað við gildandi lög:

Hluti erfðafjárskatts, sem rennur í ríkissjóð er 209 millj. kr., hluti skemmtanaskatts 130 millj. kr., byggingarsjóðsgjald 1386 millj. kr., hluti launaskatts 4600 millj. kr. Samtals krækir ríkissjóður í 6 milljarða 325 millj. kr. með þessum hætti samkv. fjárlagafrv. fyrir 1981.

Ég vek sérstaka athygli á því, að sá hluti launaskatts, sem nú er tekinn í ríkissjóð en á samkv. lögum að ganga til Byggingarsjóðs ríkisins, er reiknaður þannig: Lög ákveða að 2% launaskattur skuli renna til byggingarsjóðs ríkisins. Hér er um að ræða 16.4 milljarða kr. samkv. fjárlagafrv. Frá þeirri tölu dregst framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs, 4.3 milljarðar, og einnig framlag til Byggingarsjóðs verkamanna, 7.5 milljarðar kr., þannig að í þessu hefur verið tekið tillit til hækkaðs framlags ríkissjóðs af launaskatti í Byggingarsjóð verkamanna.

Hin gegndarlausa eyðslustefna í rekstrarútgjöldum ríkissjóðs hefur m.a. komið fram í því, að frá árinu 1979 hefur verið gripið til skerðingar lögboðinna framlaga ríkissjóðs til ýmissa stofnlána- og fjárfestingarlánasjóða. Þessi skerðing nemur verulegum fjármunum samkv. frv. til fjárl. fyrir árið 1981. Framlag til Stofnlánadeildar landbúnaðarins er skert um 732 millj., til Lánasjóða sveitarfélaga um 135 millj., til Fiskveiðasjóðs um 1337 millj., til Ferðamálasjóðs um 15 millj., til Félagsheimilasjóðs um 127 millj., til Hafnarbótasjóðs um 56 millj., til Aflatryggingasjóðs um 532 millj., til Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra um 300 millj. og til Ferðamálaráðs hefur framlagverið skert um 166 millj. Allar þessar tölur eru frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, en auk þess hef ég reiknað út að skerðing á framlagi ríkissjóðs að réttum lögum til Byggðasjóðs samkv. frv. 1981 sé hvorki meira né minna en 5700 millj. kr. Samtals er skerðing lögboðinna framlaga ríkissjóðs til ýmissa stofnlána- og fjárfestingarlánasjóða því 9107 millj. kr. samkv. fjárlagafrv.

Nú vil ég taka það skýrt fram, að það er alls ekki gagnrýni vert, þvert á móti, að draga úr lögboðnum útgjöldum ríkissjóðs. En þessi skerðing á framlögum ríkissjóðs til stofnlánasjóða, sem eru fyrst og fremst stofnlánasjóðir atvinnuveganna, er ekki gerð til þess að létta sköttum af þjóðinni. Þessi skerðing er ekki gerð til þess að lækka ríkisútgjöldin og skapa þannig svigrúm til skattalækkunar. Hún er gerð til þess að geta notað þetta fé til að auka þensluna í eyðslu- og rekstrarútgjöldum ríkissjóðs á öðrum sviðum. Og ég verð að segja að miklu hefði mér verið nær skapi að þessu fé hefði verið varið til sjóða atvinnuveganna samkv. lögum heldur en til að auka og þenja út ríkisbáknið svo sem gert hefur verið og stefnt er að af hálfu hæstv. ríkisstj.

Þessi mikla eyðslustefna í rekstrarútgjöldum ríkissjóðs á undanförnum árum hefur valdið verulegum hallarekstri á ríkissjóði þrátt fyrir hinar gífurlega miklu skattahækkanir, niðurskurð á framkvæmdaframlögum, upptekt markaðra tekjustofna í ríkissjóð og niðurskurð á framlögum til fjárfestingarlánasjóða. Þrátt fyrir allt þetta hefur þessi eyðslustefna valdið verulegum halla á rekstri ríkissjóðs árin 1978 og 1979, og á yfirstandandi ári stefnir enn í hallarekstur ríkissjóðs þótt hann sé að vísu nokkru minni en áður. Ríkisfjármálin voru í jafnvægi á árinu 1978, þegar vinstri stjórnin settist að völdum. Hún gerði beinlínis ráð fyrir hallarekstri ríkissjóðs það ár og gerði margvíslegar ráðstafanir til þess að auka útgjöld ríkissjóðs, m.a. stórauka niðurgreiðslur. Þennan rekstrarhalla átti að vinna upp á árinu 1979. Því var þó þveröfugt farið og var rekstrarafkoma ríkissjóðs 23 milljörðum verri á desemberverðlagi í ár þessi þrjú ár, 1978, 1979 og 1980, heldur en fjárlög gerðu ráð fyrir, — 23 milljörðum kr. verri. Þessi niðurstaða er nánar rökstudd í nál. okkar þremenninga í l. minni hl. fjvn. og sé ég ekki ástæðu til að fara um hana frekari orðum.

Af því hefur verið nokkuð gumað af hæstv. ráðh., að afkoma ríkissjóðs væri mjög góð á þessu ári, ríkisfjármálin væru komin í jafnvægi. Hæstv. forsrh. reið á vaðið með þennan dýrðarsöng, og hæstv. fjmrh. hlaut að taka undir með honum þegar frá leið þótt hann hafi haft sig lítið í frammi við að tala um góða afkomu ríkissjóðs meðan á samningum við BSRB stóð, þegar hann talaði um að ekki væri grundvöllur fyrir grunnkaupshækkunum til ríkisstarfsmanna. Því miður er það svo samkv. minnisblaði, sem fjárlaga- og hagsýslustofnun lét fjvn. í té, dags. 6. nóv. s.l., að útlit er fyrir rekstrarhalla á ríkissjóði á þessu ári sem nemur rúmlega 2000 millj. kr. og ívið hærri greiðsluhalla. Þó hefur sýnilega verið tekin ákvörðun í ríkisstj. um að skera niður niðurgreiðslur miðað við ákvarðanir í fjárlögum um 1000 millj. kr. á þessu ári. Það þarf því meira en litla óskammfeilni til þess að hæla sér svo af stjórn ríkisfjármálanna sem hæstv. fjmrh. hafa gert á þessu ári, ef haft er í huga hversu djúpt þessir hæstv. ráðh. hafa seilst í vasa skattborgaranna. Það ætti að vera a.m.k. sumum ráðh. hæstv. ríkisstj. mikið umhugsunarefni, að enn lítur út fyrir hallarekstur ríkissjóðs þrátt fyrir 60 milljarða kr. heildarskattauka síðan 1978, og samkv. fjárlagafrv. er enn stefnt í 10 milljarða kr. íþyngingu skatta að raungildi á næsta ári til þess að ná endum saman.

Í nýútkomnu nóvemberhefti Hagtalna mánaðarins er athyglisverð grein um afkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þar er svo komist að orði, með leyfi forseta: „Afkoma ríkissjóðs hefur verið skárri í ár en mörg undanfarin ár.“ Greinarhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu, að skýringanna sé fyrst og fremst að leita í þrennu: 1. Að tekjur ríkissjóðs hafi í heild innheimst betur en fjárlög gerðu ráð fyrir, þ.e. skattar hafi verið þyngri á almenningi en fjárlög gerðu ráð fyrir. 2. Að stórkostlega hafi verið dregið úr niðurgreiðslum á árinu 1980 að raungildi miðað við árið 1979. 3. Að útgjöld ríkissjóðs fyrri hluta ársins hafi verið minni en ætla mátti vegna þess að greiðsluheimildir voru takmarkaðar áður en fjárlög gengu í gildi. Orðrétt segir um fyrstu tvö atriðin í þessari grein, með leyfi forseta:

„Á fyrstu níu mánuðunum í ár voru tekjur ríkissjóðs 58.7% meiri en á sama tíma í fyrra og gjöldin 51.6% meiri. Auk þess, sem fyrr er nefnt, þ.e. minni gjalda en ella vegna takmarkaðra greiðsluheimilda á fyrstu þremur mánuðum ársins, má án efa rekja orsakir bætts rekstrarjafnaðar ríkissjóðs að nokkru til tekjuaukandi aðgerða á seinni hluta árs 1979, en þá var söluskatturinn hækkaður um 2 prósentustig, í 22%, og neðra álagningarþrep hins sérstaka vörugjalds hækkað úr 18% í 24%. Sömuleiðis var söluskatturinn hækkaður um 11/2% til viðbótar á s.l. vori, og skyldi tekjum af þeirri viðbót varið til jöfnunar á hitunarkostnaði.“ Enn segir orðrétt, með leyfi forseta: „Þessar hækkanir endurspeglast í því, að á tímabilinu jan.-sept. í ár gaf söluskatturinn tæpum 75% meira af sér en á sama tíma í fyrra og vörugjaldið 86% meira.“

Um niðurgreiðslurnar segir orðrétt, með leyfi forseta: „Á gjaldahliðinni er eftirtektarvert að niðurgreiðslur námu hér um bil sömu fjárhæð á fyrstu níu mánuðunum í ár og á síðasta ári, en frá 1978 til 1979 hækkuðu þær um 150% vegna stóraukinna niðurgreiðslna seint á árinu 1978.“

Hér fjallar óvilhallur aðili um afkomu ríkissjóðs á árinu 1980 og kemst að þeirri niðurstöðu, að skárri afkomu ríkissjóðs megi rekja til minni niðurgreiðslna á árinu 1980 heldur en 1979 og auk þess 1000 millj. kr. minni en fjárlög gerðu ráð fyrir og hins vegar stóraukinnar skattheimtu ríkissjóðs. Þegar þetta er skoðað er varla ástæða til að hrópa hátt og snjallt húrra fyrir því, að lítið brot af auknum sköttum umfram það, sem fjárlög höfðu áður gert ráð fyrir, kemur ríkissjóði til góða og niðurstaðan verður heldur skárri rekstrarafkoma en fyrr. Eftir stendur sú staðreynd, að sé lítið yfir tímabilið frá 1978, tímabil vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar og núv. ríkisstj., sem fylgir sömu stefnu í ríkisfjármálunum, er rekstrarafkoma ríkissjóðs 23 milljörðum kr. verri en fjárlög gerðu ráð fyrir á þessu tímabili þrátt fyrir alla skattana. Það er svo kapítuli út af fyrir sig, að mörg stór ríkisfyrirtæki, Póstur og sími, Ríkisútvarp og fleiri, eru rekin með milljarða halla, jafnvel sjúkrahúsa- og daggjaldakerfi hafa safnað milljarðaskuldum á árinu. Þar er í raun verið að fresta greiðslum úr ríkissjóði vegna þess að auðvitað borga sjúkratryggingar hallann þegar upp verður staðið. Ríkisbúskapurinn í heild er því með sama marki brenndur í ár og 1978 og 1979 þrátt fyrir allar skattahækkanirnar.

Efnahagsþróunin á áratugnum, sem er að ljúka, einkenndist fyrst og fremst af tveimur óðaverðbólgutímabilum. Hið fyrra hófst á valdatíma vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar. Þá var verðbólgan mæld á mælikvarða framfærsluvísitölu 49.7% frá ársbyrjun til ársloka 1974, en verðbólga á árinu 1971 var einungis 3.8%. Hlé varð á verðbólguvextinum 1975 og 1976, en síðan seig aftur á ógæfuhliðina eftir sólstöðusamningana 1977. Steininn tók úr eftir valdatöku vinstri stjórnarinnar 1978. Þá hækkaði verðlag um 60.7% frá ársbyrjun til ársloka 1979, og nú stefnir í enn meiri ógæfu, eins og ég hef komið hér að áður. Ferill verðbólgunnar á þessum áratug, eins og hann birtist í tölum í skýrslu um þjóðhagsspá, sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, og framreikningi Þjóðhagsstofnunar, talar skýru máli um vinstri úrræði í efnahagsmálum og verðbólgu. Upphaf þess sérstaka verðbólguflóðs, sem við var að glíma á þessum áratug, má rekja beint til vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar, hjöðnunartímabilið, sem varaði í tvö ár, 1975 og 1976, til ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar og hið nýja verðbólgutímabil, sem hófst fyrir alvöru 1979, er á ábyrgð síðari ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar og núv. hæstv. ríkisstj. Hún framkvæmir sömu vinstri stefnuna í efnahagsmálum og vinstri stjórnir hafa áður gert.

Því er mjög haldið á lofti af formælendum núv. hæstv. ríkisstj., að nú sé við að glíma innflutta verðbólgu, þ.e. olíuverð og almennt innflutningsverð hafi hækkað gífurlega og leitt til þeirrar óðaverðbólgu sem hér ríkir. Þetta er mikil blekking og skýrir ekki það efnahagsöngþveiti og verðbólgu, sem nú ríkir, nema að mjög litlu leyti. Samkv. skýrslu forsrh, um þjóðhagsáætlun 1981 kemur fram að innflutningsverð hækkaði um 20% í erlendri mynt árið 1979, 12–14% 1980 og áætluð hækkun er 7–8% 1981. Þegar þessar tölur eru bornar saman við þróun verðbólgunnar innanlands sést að þessi innflutta verðbólga fer ört lækkandi árin 1979–1981. Þennan sama tíma fer innlend verðbólga mjög hækkandi samkv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar, ef ekki verður gerbreytt um efnahagsstefnu.

Sú óðaverðbólga, sem nú ríkir hér á landi, er auðvitað fyrst og fremst heimatilbúin, og orsakanna er að leita í því ráðleysi og óskhyggju sem einkennt hefur allar vinstri stjórnir, sem setið hafa á Íslandi, og núv. hæstv. ríkisstj. Efnahagsstefna vinstri stjórna hefur nokkur megineinkenni. Í fyrsta lagi hafa þær sérstakt dálæti á verðlagshöftum, miðstýringu og hvers konar efnahagslegum feluleik. Í öðru lagi beita þær niðurgreiðslum, félagsmálapökkum og millifærslum í ríkum mæli. Í þriðja lagi fylgja þær eyðslu- og útþenslustefnu í ríkisfjármálum og fjárfestingu. Í fjórða lagi láta þær reka á reiðanum í peningamálum, fjárfestingarmálum og launamálum. Síðast en ekki síst beita þær hóflausum skattaálögum sem þó nægja ekki til að reka ríkissjóð með greiðsluafgangi.

Ég lýsti áðan afleiðingum þessarar stefnu í ríkisfjármálunum að því er varðar verðlagshöftin, félagsmálapakkana, niðurgreiðslurnar, millifærslurnar og efnahagslegan feluleik. Verður afleiðingum þeirrar stefnu skást lýst með orðinu „neðanjarðarhagkerfi“. Þetta orð hefur að vísu verið notað í öðru samhengi. Ég held þó að það finnist vart skárra orð til þess að lýsa því fyrirbrigði sem er hinn mikli þykjustuleikur eða feluleikur vinstristjórna í efnahagsmálum.

Það er bannað að selja vöru á sannanlegu kostnaðarverði, t.d. orku frá Hitaveitu Reykjavíkur, olíu, bensín eða brauð, svo að nokkur dæmi séu tekin. Hluta af raunverulegu verði er neðanjarðar. Fyrirtækin eru látin safna skuldum. Jafnvel sjúkrahús, sem rekin eru á daggjaldakerfi, hafa safnað milljarðaskuldum á þessu ári. Veigamikill þáttur í verðlagshöftunum eða efnahagslegum feluleik vinstri ríkisstjórna er það sem þær nefna stundum ranglega aðhald í gengismálum. Þær viðurkenna ekki það gengi krónunnar sem útflutningsatvinnuvegirnir þurfa til þess að hagkvæmur og eðlilegur rekstur útflutningsgreina geti borið sig þegar til lengdar lætur. Hluta sannanlegs kostnaðar við öflun gjaldeyris er þannig þrýst undir yfirborðið eða haldið neðanjarðar, ef svo mætti að orði kveða. Afleiðingarnar eru þær, að útflutningsatvinnuvegirnir eru reknir með halla og vaxandi skuldasöfnun. Á þessu ári er talið að gengið hefði þurft að vera 8–9% lægra til þess að útflutningsatvinnuvegirnir bæru sig. Þetta falska gengi frestar verðbólguflóði til næsta árs eða ára og dylur ýmis sjúkdómseinkenni efnahagslífsins, sem öll kæmu upp á yfirborðið ef slíkum feluleik væri ekki beitt.

Núv. hæstv. ríkisstj. er sannarlega ekki eftirbátur vinstri stjórna í þessum hráskinnaleik. Það þarf ekki að rekja þessa sögu frekar. Allar þessar ráðstafanir eru auðvitað gerðar til þess að fara í kringum vísitöluna, sem á þó á sama tíma að vera heilagur verðmælir á launakjör alls almennings. Reynslan hefur sýnt að þessi óskhyggja, feluleikur, ráðleysi, sem einkennir vinstri stjórnir í efnahagsmálum, hefur ekki eingöngu í för með sér óðaverðbólgu, heldur dregur þessi stefna úr þrótti atvinnuveganna. Þjóðarframleiðsla minnkar, þjóðartekjur á mann dragast saman, lífskjörin rýrna og kaupmátturinn minnkar.

Herra forseti. Um áramót tekur gildi nýr gjaldmiðill. Nýkrónan hefur hundraðfalt gildi gömlu krónunnar. Hér gafst gullið tækifæri til að endurvekja trú almennings á gjaldmiðlinum og stjórn efnahagsmála. Öflugar samræmdar ráðstafanir hefði þurft að gera til þess að varðveita verðgildi hinnar nýju krónu. Allar líkur benda til að á eins árs afmæli nýju krónunnar hafi hún fallið hraðar í verði en gamla krónan hefur nokkru sinni gert. Slíkt er öngþveitið og stjórnleysið í íslenskum efnahagsmálum. Því er hætta á að gjaldmiðilsbreytingin geti veikt trú fólksins á gjaldmiðlinum og lýðræðislegum stjórnarháttum enn meir en orðið er.

Við þær aðstæður, sem hér hafa verið raktar, er algerlega útilokað fyrir stjórnarandstöðu að flytja einstakar tillögur til breytinga á fjárlagafrv. til verulegs niðurskurðar, eins og þörf væri á, enda kæmi ekkert annað til en alger stefnubreyting í ríkisfjármálum og efnahagsmálum.

Herra forseti. Þetta frv. gengur þvert á stefnumið sjálfstfl., eins og rækilega hefur verið rakið hér að framan. Sama máli gegnir um meginstefnu ríkisstj. í efnahagsmálum. Er því allri ábyrgð á gerð fjárlaga lýst á hendur ríkisstj. og stuðningsmanna hennar.