12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

1. mál, fjárlög 1981

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég verð að byrja á að segja að það er slæmt að engir hæstv. ráðh. eru hér til að hlýða á þessar umr. vegna þess að ég hafði reyndar ætlað mér að beina nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh. Það verður ekki hjá því komist við þessa umr. að gera nokkrar aths. við það, hvernig staðið er að fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins í fjárlagafrv.

Fram kemur í fjárlagafrv. að gert er ráð fyrir 4300 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs ríkisins og ráð fyrir því gert að sjóðurinn hafi til ráðstöfunar 30 milljarða á næsta ári. Ef sú tala á að standast, 30 milljarða ráðstöfunarfé til sjóðsins, hlýtur því að fylgja gífurlega mikil lántaka sjóðsins á næsta ári, varla undir 20 milljörðum. Þegar frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins var til meðferðar á síðasta þingi gagnrýndi Alþfl. þær breytingar, sem gerðar voru á framlögðu frv. Magnúsar H. Magnússonar, og taldi Alþfl. að fjármögnunarþætti Byggingarsjóðs ríkisins væri stefnt í mikla óvissu, en í frv. því, sem upphaflega var lagt fram um Húsnæðismálastofnun, var gengið út frá óbreyttum tekjum sjóðsins af launaskatti, sem voru 2%. Í 9. gr. laga um Húsnæðisstofnun er kveðið á um að fjár í Byggingarsjóð ríkisins skuli aflað með árlegum framlögum úr ríkissjóði af launaskatti, en í fjárlagafrv. kemur fram að svo er litið á að markaðir tekjustofnar Byggingarsjóðs ríkisins séu engir. Verður stórlega að draga í efa að þetta standist lagalega því að í gildandi lögum um launaskatt er kveðið á um að 2% af launaskatti skuli renna til Byggingarsjóðs ríkisins, og þeim lögum hefur ekki verið breytt. Samkv. þeim lögum ættu því að renna 15 milljarðar kr. til Byggingarsjóðs ríkisins eða 2% af launaskatti, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Ef það hefur verið ætlun ríkisstj. á síðasta þingi, þegar lög um Húsnæðisstofnun voru samþ., að lækka þá upphæð af launaskatti sem renna átti til Byggingarsjóðs ríkisins, hefði því samhliða verið nauðsynlegt að breyta lögum um launaskatt. Byggingarsjóður ríkisins er því samkv. þessu snuðaður um rúma 12 milljarða kr., sem sjóðnum ber í rauninni að fá samkv. gildandi lögum um launaskatt, sem telja verður að ríkisvaldinu beri að fara eftir meðan þau eru ekki numin úr gildi. Er því nauðsynlegt að fá fram með hvaða rétti ríkisvaldið fer ekki að lögum um launaskatt og á hverju ríkisstj. byggir þegar hún ákveður Byggingarsjóði ríkisins 0.37% af launaskatti, en lögin um launaskatt kveða á um 2%. Er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. gefi þm. upplýsingar um þetta atriði, áður en þessari umr. lýkur, og á hverju ríkisstj. byggi þegar hún gengur fram hjá gildandi lögum í landinu.

Þegar frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins var til umr. á síðasta þingi fór félmn. Nd., sem hafði frv. til meðferðar, fram á ýmsar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun, t.d. hvaða áhrif breytingar, sem gerðar voru á frv., hefðu á stöðu sjóðanna og hvaða áhrif hugsanlega skertir tekjustofnar sjóðsins hefðu á aukningu lántöku miðað við stefnu frv. Vegna þeirra upplýsinga, sem fram komu hjá Þjóðhagsstofnun, varaði Alþfl. mjög við hvaða áhrif það hefði á uppbyggingu og fjárhagsgetu Byggingarsjóðs ríkisins, ef tekjustofnar hans yrðu skertir, og benti á að þessar upplýsingar gæfu vísbendingu um að lántökur þyrftu að vera rúmlega 100 milljörðum meiri næstu 10 árin hvað Byggingarsjóð ríkisins varðar ef tekjustofn hans varðandi launaskatt yrði skertur.

Félmn. Nd. óskaði eftir því, eftir að þing kom saman nú í haust, að Þjóðhagsstofnun gerði nýja útreikninga á áætlaðri stöðu sjóðsins, miðað við þær upplýsingar sem fyrir lægju um tekjustofn á fjárlögum og áætlun Húsnæðisstofnunar um tekju- og útlánaáætlun. Þær upplýsingar liggja nú fyrir. Þar sem í ljós hefur komið á fjárlögum að ekki er áætlað meira framlag úr ríkissjóði af launaskatti en raun ber vitni er brýnt að þm. geri sér ljóst hvert muni stefna með Byggingarsjóð ríkisins ef ekki komi til veruleg aukning fjármagns úr ríkissjóði til Byggingarsjóðsins, en af fram komnum upplýsingum Þjóðhagsstofnunar nú er ljóst að sjóðnum er stefnt í verulega tvísýnu, svo að vægilega sé tekið til orða, og mun hann í reynd aldrei ná því að byggjast upp.

Ég skal ekki tefja tímann nú við þessa fjárlagaumr. með því að gera þeim upplýsingum tæmandi skil sem fram koma í þessari áætlun Þjóðhagsstofnunar, þó að reyndar væri full þörf á því, en vil drepa á þá aukningu sem þarf að verða á lántökum frá lífeyrissjóðunum gengið út frá þeim forsendum sem fyrir liggja í fjárlögum, sem ég tel tvímælalaust að þm. verði að glöggva sig á. Sú vísbending, sem fram kemur hjá Þjóðhagsstofnun, gefur grófa bendingu hvert stefnir ef óafturkræf framlög verða ekki stóraukin. Útreikningar stofnunarinnar eru miðaðir við forsendur fjárlaga, útlána- og tekjuáætlun Húsnæðisstofnunar og núgildandi kjör hjá lífeyrissjóðunum. Í dæmum Þjóðhagsstofnunar voru eingöngu reiknaðar lántökur hjá lífeyrissjóðunum, en ekki hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og af skyldusparnaði, en þá væru lántökur til muna meiri. En þrjú dæmi voru tekin. Í fyrsta lagi er gengið út frá 1% tekjum Byggingarsjóðs af launaskatti, í öðru lagi 2% tekjum eins og hann á að hafa samkv. lögum um launaskatt og í þriðja lagi þeirri upphæð sem fram kemur í fjárl. Eftirfarandi kemur þá í ljós:

Lántökur hjá lífeyrissjóðunum, og þá eru lántökur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og af skyldusparnaði undanskildar, yrðu miðað við 1% framlag af launaskatti á tímabilinu 1980–2000 eða á 20 ára tímabili tæpir 380 milljarðar. Miðað við sama tímabil og 2% launaskatt áætlast þær 196.5 milljarðar og fjárlagadæmið eins og það nú er þýðir í áætluninni 490 milljarða lántökur hjá lífeyrissjóðunum á næsta 20 ára tímabili. Einnig er fróðlegt að líta á tímabilið 1980–1990, eins og var gert í vísbendingum Alþfl. s.l. vor, en þá benti Alþfl. á að frv., eins og það var samþykkt, benti til rúmlega 100 milljarða meiri lántökuþarfar Byggingarsjóðs ríkisins en upphaflegt frv. Magnúsar H. Magnússonar. Ef litið er á töflu þá sem Þjóðhagsstofnun hefur nú gert kemur í ljós, að 2% launaskattur, eins og upphaflegt frv. Alþfl. um Húsnæðisstofnun gerði ráð fyrir, þýddi 8.5 milljarða lántöku, en fjárlagadæmið nú þýðir á þessu 10 ára tímabili 217.7 milljarða lántöku eða um 132 milljörðum meira. Er því ljóst að aðvaranir Alþfl. á síðasta þingi hafa að því er þetta varðar átt við full rök að styðjast.

Í þessum gögnum Þjóðhagsstofnunar kemur einnig fram að þær lántökur, sem fram koma, miðað við forsendur fjárlaga séu meiri en svo, að þær teljist raunhæfar, og sjóðurinn nái engan veginn að byggjast upp. Bendir þetta til að stefna verði að töluvert hægari útlánaaukningu en gert hefur verið ráð fyrir fram að þessu eigi fjáröflun að vera með þeim hætti sem fram kemur í fjárlögum. Ef gengið yrði hins vegar út frá 2% launaskatti mundi sjóðurinn ná að byggjast upp og vöxtur tekinna lána stöðvast á árinu 1992, og verða þá nýjar lántökur orðnar minni en afborganir og vextir eldri lána. Einnig er vert að benda á að lánahlutfall er verulega á eftir því sem upphaflega var gert ráð fyrir, en í þessum forsendum er gert ráð fyrir 25% lánahlutfalli 1981. Er það reyndar nánast sama lánsfjárhæð og hefði átt að gilda frá 1. jan. n.k. samkv. eldri lögum, og er það eitt út af fyrir sig verulegt umhugsunarefni.

Herra forseti. Ég skal ekki taka lengri tíma í þetta mál, en ég taldi nauðsynlegt að þessar upplýsingar kæmu fram varðandi það, að stöðu Byggingarsjóðs er stefnt í mikla tvísýnu í fjárlagafrv. og verður það að kallast fullkomið ábyrgðarleysi hvernig núv. hæstv. ríkisstj. ætlar að halda á þessum málum. Eins var nauðsynlegt að benda á að gildandi lög um launaskatt kveða á um 12 milljarða kr. meira framlag af hendi ríkissjóðs en ráð er fyrir gert í þessu frv., og hlýtur að verða að athuga það mál sérstaklega áður en fjárlög verða afgreidd, hvort lög heimila að hægt sé að afgreiða Byggingarsjóð ríkisins með þeim hætti sem fram kemur á fjárlögum.

Annað atriði þessa fjárlagafrv. vil ég einnig gera að umtalsefni í örstuttu máli, en það eru stórlega vanáætluð útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins til sjúkra- og lífeyristrygginga. Ég óskaði eftir útreikningum á áætlun Tryggingastofnunarinnar á útgjöldum stofnunarinnar fyrir árið 1981 til þessara mála nú í byrjun des., og ætla ég að þessi áætlun, sem nýlega var gerð, hafi verið send fjvn. til meðferðar. Í áætluninni, sem gerð var um lífeyristryggingagreiðslur fyrir árið 1981, kemur í ljós að um vanáætlun er að ræða miðað við útreikninga stofnunarinnar miðað við fjárlagafrv., og er um að ræða rúma 6.5 milljarða. Á sjúkratryggingadeild er um vanáætlun að ræða í fjárlagafrv. um rúma 12 milljarða. Stærstu útgjaldaliðir sjúkratryggingadeildar eru vistgjöld á sjúkrahúsum, en þar kemur helst fram vanáætlun á sjúkratryggingadeildinni. Í áætlun Tryggingastofnunar er gengið út frá daggjöldum á hverju einstöku sjúkrahúsi eins og þau voru frá 1. sept. 1980 og legudögum 1979 og þar er, eins og í fjárlagafrv., gert ráð fyrir 10.5% hækkun frá 1. des. og 15% meðaltalshækkun 1981. Einnig er reiknað með 2% árlegri aukningu. Á báðum þessum deildum er því samtals um vanáætlun að ræða upp á 18.5 milljarða svo að reikna verður með mun meiri útgjöldum til almannatrygginga en fram kemur í þessu fjárlagafrv.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, mæla fyrir brtt., sem ég flyt á þskj. 234 við brtt. á þskj. 209, þess efnis að hækka liðinn Önnur rekstrargjöld til Jafnréttisráðs um 14 millj. Um er að ræða að fyrirhugað er, ef þessi fjárveiting fæst, að gefa út fræðslubækling fyrir verðandi foreldra og er hann hugsaður sem framlag til foreldrafræðslu. Útgáfa þessi er fyrirhuguð í samráði við heilbrigðisráð Reykjavíkurborgar, borgarlækni og landlækni og einnig hefur heilbrrh. verið kynnt málið. Allir þessir aðilar hafa tekið máli þessu vel og sýnt því mikinn áhuga. Hefur til að mynda landlæknisembættið boðið að aðstoða með því að sjá um dreifingu bæklingsins á allar heilsugæslustöðvar. Ég vil, með leyfi forseta, lesa örfáar línur úr bréfi frá landlækni þar sem lýst er stuðningi við þetta mál, en þar segir:

„Landlæknisembættið telur, að hér sé um mjög áhugaverða útgáfu að ræða, og vill styðja málið eftir mætti. Embættið telur, að bæklingurinn eigi skilyrðislaust erindi til lækna, og vill aðstoða með því að sjá um dreifingu bæklingsins á allar heilsugæslustöðvar.“

Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þessa brtt., en vona að stuðningur fáist við málið hér á hv. Alþingi þannig að hægt sé að gefa út þennan fræðslubækling.