12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

1. mál, fjárlög 1981

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Af margvíslegum ástæðum og þá m.a. vegna fréttar í Ríkisútvarpinu í kvöld um brtt. Alþfl. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1981, þar sem kom fram að í brtt. fælist einkum niðurskurður á liðum landbúnaðar með yfirfærslum til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, vil ég gera nokkru nánari grein fyrir þeim brtt. sem Alþfl.-menn flytja og hv. þm. Karvel Pálmason, fulltrúi flokksins í fjvn., hefur lagt fram og gert nokkra grein fyrir.

Ég vil leggja höfuðáhersluna á að hér er ekki um að ræða eyðslutillögur eða útgjaldatillögur. Hér er um að ræða tilfærslu á fjármagni á milli liða fjárlaganna sem við teljum eðlilega og kemur heim og saman við þá stefnu sem Alþfl. hefur m.a. haft í landbúnaðarmálum og öðrum þeim málaflokkum sem þessar till. snerta.

Aðatatriði þessara till. eru þau, að gert er ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga verði lækkaður um 13.8 milljarða kr. og.sjúkratryggingagjald um 3 milljarða kr. Þessir fjármunir fáist frá lið sem á fjárlögum er nefndur „Sérstakar efnahagsráðstafanir 12 milljarðar kr.“ En við komum einnig með tillögur um fleiri tekjuliði sem koma þarna á móti.

Í till. er gert ráð fyrir að byggingarsjóðsgjald af tekjuskatti einstaklinga verði einnig lækkað og þá um 200 millj. kr. Á móti komi á liðinn Tekjuskattur félaga hækkun um 2 milljarða kr. Við þennan lið vil ég staldra augnablik. Ég hefði kosið að fjmrh. sæti hér nú vegna þess að þetta hefur verið eitt af hans helstu baráttumálum á hinu háa Alþingi þ.e. að hækka tekjuskatt félaga. Ég minnist þess, að það hefur verið hans lausnarorð um margra ára bil hér á þinginu að það bæri að leggja hærri tekjuskatta á félög. Ég minnist þess líka, að hann veifaði hér einu sinni plaggi með nöfnum yfir eitt hundrað fyrirtækja sem voru tekjuskattslaus. Hvar er nú allur hugur hæstv. fjmrh. og þeirra Alþb.-manna í þá veru að hækka tekjuskatt á félögum? Hann virðist ekki vera fyrir hendi vegna þess að samkv. fjárlögunum eru félögin nánast tekjuskattslaus á næsta ári.

Í þessum till. Alþfl. er ráð fyrir því gert, að liðurinn Rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hækki um 3 milljarða kr. Þessi liður er ákaflega eðlilegur að mínu mati, og ég tel að þetta geti verið þáttur í þeirri stefnu, sem ég vona að sé stefna flestra, að eðlilegt og sjálfsagt sé að hækka verð á áfengi til að draga ofurlítið úr áfengisneyslunni. Ég held að það geti enginn maður verið á móti þessari till. í sjálfu sér vegna þess að þetta er afskaplega þekkilegur og þægilegur tekjuliður.

Þá er ráð fyrir því gert í brtt. Alþfl., að Jarðasjóður verði stórefldur, framlag til hans verði hækkað um 500 millj. kr. Það kemur heim og saman við þá stefnu Alþfl., að það beri að aðstoða bændur sem vilja leysa upp bú sín og selja jarðir sínar. Í fjárlögum eru eingöngu ætlaðar til Jarðasjóðs 40.3 millj. kr. — og hvað skyldu nú verða keyptar margar bújarðir fyrir þá upphæð?

Þá er í brtt. gert ráð fyrir að framlag til Veiðimálaskrifstofu verði aukið um 500 millj. kr. Þetta framlag er til einstaklinga og samtaka, en heitir með öðrum orðum Fiskræktarsjóður. Hér á þingi — og ekki bara á þessu þingi, heldur á þingi Stéttarsambands bænda og fleiri aðila — hefur mikið verið rætt um að efla fiskrækt í landinu. Staða Fiskræktarsjóðs er sú, að hann er gersamlega tómur. Það eru ekki neinir fjármunir í honum. Hann getur ekkert lánað. Hann er tilgangslaus í eðli sínu vegna þess að honum eru ekki ætlaðir neinir tekjustofnar sem neinu máli skipta.

Þá vil ég nefna það, að í till. kemur fram að Alþfl. vill lækka jarðræktarframlög um 1.3 milljarða kr. Og af hverju skyldi hann vilja það? Hann vill ekki auka túnrækt í landinu á sama tíma og bændur sjálfir og samtök þeirra berjast við að reyna að draga úr landbúnaðarframleiðslunni. Þetta finnst okkur ákaflega eðlilegt og sjálfsagt að gera.

Sama máli gegnir um liðinn Framræsla sem flokkurinn gerir tillögu um að lækka um 215 millj. Það kemur heim og saman við það sem ég nefndi hér á undan, að draga beri úr túnrækt.

Þá leggur Alþfl. til enn einu sinni, og fer nú að verða eins og Kató gamli, að útflutningsuppbætur verði lækkaðar. Samkv. lögum mega útflutningsuppbætur vera allt að 10% af framleiðsluverðmæti, en Alþfl. hefur lagt til að þessi prósentutala eða þessi hundraðshluti yrði lækkaður í áföngum. Með þessu yrði þetta hlutfall lækkað í 9%. Þarna spöruðust 1200 millj. kr.

Þá kemur fram í till. Alþfl., sem kann að skjóta nokkuð skökku við vegna þess að ég hefði álitið að svona till. kæmi frá hv. framsóknarmönnum hér á þingi, en það er áætlun um að leggja fram 600 millj. til stuðnings við nýjar búgreinar og ábatasamar hliðarbúgreinar. Engin till. af þessu tagi kemur frá framsóknarmönnum. Það er af og frá. (AS: Ég taldi að þm. misskildi hvað væri átt við með jarðræktarframkvæmdum.) Onei, hv. þm. misskilur ekkert í þeim efnum, ekki nokkurn skapaðan hlut. En það gæti verið að annar hv. þm., sem hér er í salnum og er fulltrúi Framsfl., misskildi það eitthvað. — Ég var hér að ræða um nýjar búgreinar og ábatasamar hliðarbúgreinar, sem Alþfl. leggur til í brtt. sínum að fái um 600 millj. kr., sem ráðh. gæti þá ráðstafað eftir hentugleikum.

Þá kem ég að öðrum lið sem einnig tengist fiskrækt. Í till. Alþfl. er gert ráð fyrir að Fiskifélag Íslands, fiskræktardeild, fái framlag sitt hækkað um 100 millj. kr. Þessi deild fær nú 26 millj., en við gerum ráð fyrir að liðurinn hækki í 126 millj. Fiskræktardeild Fiskifélags Íslands hefur gert stórmerkar rannsóknir á fiskræktarmálum á undanförnum árum af miklum vanefnum. Þess njóta allir landsmenn. Þessar rannsóknir þarf að stórefla og við viljum með þessari brtt. gera tilraun til að efla þessar rannsóknir.

Í sömu átt horfir sú brtt. sem gerir ráð fyrir að undir liðnum Hafrannsóknastofnun komi nýr liður sem heiti: Til rannsókna á eldi sjávarfiska 800 millj. kr. — Hér er á ferðinni stórmerkilegt mál. Hv. þm. Magnús H. Magnússon og sá sem hér stendur hafa flutt hér á þingi frv. til l. sem fellur í þá átt að hafin verði rannsókn á eldi sjávarfiska, sem gefið hefur mjög góða raun í Noregi, í Brettandi og víðar um heim og talið er að geti valdið gjörbyltingu í þá veru að maðurinn sjálfur, en ekki eingöngu náttúruöflin, geti haft áhrif á stofnstærðir Og stofngöngur. Þessu máli verða allir þm. að gefa gaum. Þetta er eitt af stærstu framtíðarmálum þessarar þjóðar. Við viljum með þessari brtt. okkar renna stoðum undir þær rannsóknir sem við teljum nauðsynlegt, að fari fram í þessum efnum á allra næstu árum, og viljum að verði unnar í samvinnu Hafrannsóknastofnunar, Fiskifélags Íslands og Háskóla Íslands. Við höfum nægan mannafla til að sinna þessu verkefni og við höfum allar aðstæður til að gera það.

Herra forseti. Ég skal ekki teygja þessa umr. á langinn. Ég vildi eingöngu gera grein fyrir þessum brtt. Alþfl., sem ekki eru niðurskurðartillögur á þætti landbúnaðarmála í fjárlögum, heldur millifærslur á milli liða. Þarna er einnig um að ræða átak í þá veru að lækka stórlega tekjuskatt einstaklinga og sjúkratryggingagjald og nota til þess þá fjármuni sem á fjárlögum eru nefndir „Sérstakar efnahagsráðstafanir 12 milljarðar kr.“

Ég tók fram í upphafi að hér væri ekki um að ræða útgjaldatillögur, eins og svo margar brtt. á fjárlögum eru. Þessar till. eru eingöngu millifærsla á milli liða í fjárlögunum sjálfum, og ég er sannfærður um að margir af þm. hér inni gætu tekið undir fjölmargar af þeim brtt. sem hér koma fram, þótt þeir séu fulltrúar ríkisstj. og ríkistjórnarflokkanna hér á þingi. En auðvitað geta þeir það ekki ef þeir verða negldir niður í stóla sína, eins og venjulega er gert við afgreiðslu fjárlaga þegar sagt er já öðrum megin og nei hinum megin gagngert í gegnum öll fjárlögin án tillits til þess, hvort brtt., sem fluttar eru, eru af einhverju viti eða ekki.