12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

1. mál, fjárlög 1981

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem aðrir hafa sagt hér á undan mér, að við söknum hæstv. ráðh. í fundarsal hv. Alþingis. (Gripið fram í.) Ég heyri að formaður þingflokks Framsfl. hefur önnur orð um þetta en ég, en mér er kannske hlýrra til ráðh. en þeir vindar verða sem þaðan blása eftir daginn í dag. Það er ástæða til að minnast á þetta hérna vegna þess að ég man eftir því, að það sama gerðist fyrr á þessu ári, þegar við 2. umr. fjárlaga vantaði ráðh. framan af kvöldi. En nóg um það. Auðvitað er hægt að koma fsp. beint til hæstv. ráðh. á eftir. Þá er spurning hvort það eigi að vera að tefja aðra hv. þm. með því að standa hér í ræðustólnum og tala yfir þeim.

Ég vil strax í upphafi máls míns, og það er mér ljúft og skylt, þakka hv. þm. Geir Gunnarssyni, formanni fjvn., fyrir samstarfið í fjvn. sem hefur verið ákaflega ánægjulegt, svo og vil ég þakka samnefndarmönnum mínum.

Ég þarf ekki í ræðu minni að fara mjög ítarlega út í fjárlagafrv. eða einstaka þætti þess, það hefur hv. þm. Lárus Jónsson gert, auk þess sem sjálfstæðismenn í hv. fjvn. hafa skilað mjög ítarlegu nál.

Því miður hefur það gerst nú, eins og stundum áður, að upplýsingar skortir þegar við ræðum fjárlagafrv. við 2. umr. og til skamms tíma, eða þar til rétt fyrir kvöldmat í dag, höfðum við ekki lánsfjáráætlun hjá okkur. Því miður hefur ekki gefist tími til að kynna sér uppkast að henni, en hún komst mjög seint til skila. Það er hins vegar alvarlegt mál að mínu mati þegar hæstv. fjmrh. kemur í ræðustól Alþingis og segir þá gagnrýni stjórnarandstöðunnar, að ekki skuli liggja fyrir lánsfjáráætlun, vera raus og innantóm orð. Slíkur talsmáli er auðvitað ófyrirgefanlegur þegar í hlut á hæstv. ráðh. sem átti þátt í að setja þau lög sem segja skilyrðislaust að lánsfjáráætlun eigi að fylgja fjárlagafrv. Um þetta ætla ég ekki frekar að fjalla að sinni, en auðvitað vekur þetta þær spurningar hvort ekki sé æskilegt og jafnvel nauðsynlegt að lánsfjáráætlun fái meðferð fjvn. Alþingis, einkum og sér í lagi vegna þess að í lánsfjáráætlun og fjárfestingaráætlun á hverjum tíma er verið að leggja grunninn að fjárlögum næstu ára.

En það er ekki aðeins lánsfjáráætlunin sem er seint á ferðinni. ÖII skattamál hæstv. ríkisstj. eru óklár og tekjustofnafrv. óafgreidd, aðallega vegna ágreinings í hæstv. ríkisstj., eins og sést best á umr. sem hafa orðið um aðlögunargjaldið og hið nýja vörugjald sem nýlegt frv. um er hér á Alþingi. Hæstv. iðnrh. hefur sagt að hann hefði viljað viðhalda aðlögunargjaldinu og láta það síðan hverfa í áföngum. Hæstv. viðskrh. vildi leggja það niður En hæstv. fjmrh. gerði sér lítið fyrir og bjó til nýjan tekjustofn. Þá komum við að því, sem er kannske merkilegast í þessu öllu saman, að verndartollur, sem settur er á fyrir iðnaðinn í ákveðinn stuttan tíma, er gerður að skatti á iðnaðinn eingöngu í því skyni, að því er virðist, að ná fjármagni í ríkissjóð. Ef eitthvað er ósiðlegt í skattheimtu er slíkt ósiðlegt.

Í dag barst alþm. fréttatilkynning frá Félagi ísl. iðnrekenda um þetta mál, þar sem fjallað er um þessi nýju tekjulög ríkisstj. þar sem vörugjald er hækkað úr 480 millj. í 3 milljarða og 400 þús. og sá mismunur á að koma í staðinn fyrir þá 2.7 milljarða sem eru tekjumegin í frv. að aðlögunargjaldinu. Orðrétt, með leyfi forseta, segir í bréfi frá Félagi ísl. iðnrekenda:

„Félag ísl. iðnrekenda vill minna á að í lögum um aðlögunargjald er skýrt tekið fram, að tekjum af aðlögunargjaldi skuli varið til eflingar iðnþróunar, og þannig beinlínis tekið fram, að það sé ekki sérstakur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Hér er því um nýja skattheimtu að ræða sem er alls óskyld niðurfellingu aðlögunargjalds.

Í dag hélt stjórn Félags ísl. iðnrekenda fund með framleiðendum í sælgætis-, öl- og gosdrykkjaiðnaði. Þar var ákveðið að mótmæla harðlega þessu frv. og á það bent, að nú þegar innheimti þessar iðngreinar meira en 3.5 milljarða kr. á ári fyrir ríkissjóð í formi sérstaks tímabundins vörugjalds.

Á fundinum kom fram að verð á framleiðsluvörum þessara greina mun hækka stórlega verði frv. að lögum og mun það valda verulegum samdrætti í starfsemi fyrirtækjanna. Vegna þessa hafa þau tilkynnt vinnumálaskrifstofu félmrn. og Iðju að fjöldauppsagnir starfsmanna séu óumflýjanlegar komi til lagasetningar þessarar.“

2. umr. fjárlaga fer fram með nokkuð sérkennilegum hætti af ýmsum ástæðum og einkum þó og sér í lagi vegna ástandsins í efnahagsmálunum. Stefna ríkisstj. er niðurtalningarstefna. Forsendur fjárlaga miðast við það og verðlagsforsendur eru því í fjárlagafrv. 42%. Hins vegar sýna nýjustu spár Þjóðhagsstofnunar allt annað eða fast að 70% verðlagsbreytingar á milli meðaltala áranna 1980 og 1981.

Öllum er ljóst að efnahagsaðgerðir eru nauðsynlegar. En það er ágreiningur í ríkisstj. um þau mál og þá sérstaklega á milli Framsfl. annars vegar og Alþb. hins vegar. Niðurstaða ríkisstj. mun að sjálfsögðu hafa veruleg áhrif á fjárlög og ríkisfjármálin. Þegar talað er um niðurtalninguna, sem Framsfl. barðist harðast fyrir fyrir síðustu kosningar hlýtur það að vera ljóst öllum, sem eitthvað hugsa um stjórnmál, að pólitískar forsendur þeirrar stefnu eru roknar út í veður og vind. Stikar aðgerðir er hægt að framkvæma á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstj., en það er stjórnmálalegt lögmál að þegar frá líður þýðir ekki að bjóða almenningi slíkar aðgerðir.

Það vekur einnig ugg í þessu sambandi, að ríkissjóður er eða virðist vera ónæmur fyrir verðbólgu. Tekjur ríkissjóðs eru að langmestu leyti með þeim hætti að þær eru á fullu verði þegar þær eru innheimtar, en útgjöldin eru að verulegu leyti föst og hækka ekki þótt verðbólga sé meiri eða minni.

Það er athyglisvert í sambandi við skattalög, að af fjölmörgum sköttum eru það átta skattar sem afla ríkissjóði 85% teknanna, en 60 ýmiss konar smáskattar ná inn 15 prósentunum. Og það kemur fyrir að innheimtukostnaður fer allt upp í 73% af skattheimtunni. Þetta bendir til þess, að nauðsyn sé á einföldun og uppstokkun í tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs.

Því er stundum haldið fram, að verðbólgan sé að verulegu leyti innflutt verðbólga. Því hefur einnig verið haldið fram, að það sé einhvers konar efnahagslegt lögmál að verðbólga á Íslandi sé u.þ.b. þrisvar sinnum meiri en í nágrannalöndunum og hefur verið vitnað til ýmissa tímabila til að finna rök fyrir þeim skoðunum. Sé þetta hins vegar skoðað nú kemur í ljós að mikil breyting hefur orðið á þessu sambandi innfluttrar verðbólgu og innlendrar verðbólgu.

Árið 1979 var innflutt verðbólga 20%, en innlend verðbólga 60.7%. 1980 var innflutt verðbólga 12–14%, en innlend verðbólga 55%. Og 1981 er því spáð, að innflutt verðbólga verði 7–8%, en innlend verðbólga 70%. Hér er talað í tölum í erlendri mynt og auðvitað eru tölurnar fyrir 1981 áætlaðar og þar á meðal eru áætlunartölur Þjóðhagsstofnunar. Þetta sýnir, svo ekki verður um villst, að jafnvel þreföld verðbólga miðað við nágrannaþjóðirnar er löngu orðin úrelt lögmál, ef einhvern tíma hefur verið lögmál, því nú má segja að verðbólgan sé frá fimm og upp í tíu sinnum meiri en innflutt verðbólga er.

Þessi verðbólga magnast án efa um næstu áramót, þegar raunvaxtastefnan fær fullt gildi, án þess að gerðar séu um leið aðrar ráðstafanir til að létta útgjaldabyrði fyrirtækja og heimila. Það kom fram í ræðu hv. þm. í dag að það er almennur skilningur á Alþingi fyrir því, að verði ekkert að gert muni vextir hækka samkv. íslenskum lögum upp í raunvaxtamarkið um næstu áramót. Það hefur jafnframt komið fram, að ríkisstj. hyggst ekki setja lög fyrir áramót sem gætu breytt þessari niðurstöðu. Sést þetta m.a. á þeim lista sem ríkisstj. hefur látið frá sér fara um þau mál sem hún vill að fái afgreiðslu fyrir áramót.

Eitt er alveg ljóst varðandi efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj.: Núv. hæstv. ríkisstj. fylgir lífskjaraskerðingarstefnu. Hún birtist m.a. í stækkun fiskveiðiflotans með opinberum framlögum og aðgerðaleysi í orku- og stór- iðjumálum. Með úrræða- og aðgerðaleysi sínu hefur hæstv. ríkisstj. lagt grunninn að því, að á næstu árum verður hagvöxturinn miklu minni en þurft hefði að vera. Miklu minna er til skipta og kjörin rýrna. Í nál. sjálfstæðismanna er tafla yfir það, hvernig hagvöxtur hefur minnkað á tímum vinstri ríkisstjórna og hver spáin er á næsta ári. Þar kemur glögglega í ljós hve skaðleg áhrif efnahagsstefna ríkisstj. hefur á vöxt þjóðarframleiðslunnar.

Ég ætla ekki í þessari ræðu minni að fara ítarlega út í efnahagsmálin eða nefna marga þætti fjárlagafrv., en það eru þó örfáir þættir sem ég vil gera nokkur skil. Í fyrsta lagi mun ég fjalla um verðfeluleik ríkisstj., sem hefur leitt til neðanjarðarhagkerfis og skýrt er nánar í nál. sjálfstæðismanna. Í öðru lagi vil ég benda á nokkur loforð ríkisstj. eins og þau voru gefin í stjórnarsáttmála og eins og þau hafa síðan verið efnd í því fjárlagafrv. sem nú er til umr. Í þriðja lagi mun ég fjalla um skipan opinberra framkvæmda og nýtingu framkvæmdafjár ríkisins og ríkisstofnana. Í fjórða lagi mun ég fara nokkrum orðum um málefni Reykjavíkurborgar, einkum skuldir ríkis við borg á sviði heilbrigðismála. Og loks mun ég í örstuttu máli drepa á örfá tæknileg atriði við fjárlagagerð, sem mér finnst ástæða til að leggja sérstaka áherslu á.

Þá vil ég víkja að fyrsta þættinum, sem fjallar um feluleikinn sem ríkisstj. iðkar í verðlagsmálum. Það er alveg ljóst, að vísitölubundnir kjarasamningar hafa haft mjög óheppilegar afleiðingar á ríkisfjármálin og leitt til þess, sem kalla má „neðanjarðarhagkerfi“ og er lýst á bls. 6 á þskj. 230. Skulu hér tilfærð þrjú dæmi til skýringar.

Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum eru samkv. fjárlagafrv. 31 milljarður. Þessir fjármunir fara í það að halda niðri vöruverði, en eru þó auðvitað fyrst og fremst hugsaðir til að halda niðri kaupgjaldi í landinu.

Annað dæmi, sem tilfæra má, er það, að ríkisframlag til Þjóðleikhússins verður á næsta ári a.m.k. 1300 millj. Þetta gerist þrátt fyrir að forráðamenn Þjóðleikhússins vilji hærra miðaverð og benda á það máli sínu til stuðnings að víðast erlendis kosta aðgöngumiðar að leikhúsum miklu meira en hér á landi. Þessi verðlagsstefna gagnvart Þjóðleikhúsinu leiðir síðan til þess, að önnur leiklistarstarfsemi verður ósamkeppnisfær og leitar því í auknum mæli til ríkis og sveitarfélaga. Þetta leiðir aftur til þess, að framlög ríkisins til slíkrar starfsemi stórhækka frá ári til árs. — Auk Þjóðleikhúss mætti nefna fjölmörg önnur fyrirtæki, svo sem Skipaútgerð ríkisins, RARIK og fleiri, en þau fyrirtæki hafa ekki verið tekin til alvarlegrar meðhöndlunar í hv. fjvn. og verður það ekki gert fyrr en á milti 2. og 3. umr.

Í þriðja lagi vil ég nefna forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum. Henni var komið á fót með lögum nr. 32/1979 en það var einn af „félagsmálapökkum“ vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar. Þetta var gert til að mæta eftirgjöf bænda á þremur prósentum á launalið verðlagsgrundvallarins í sambandi við efnahagsráðstafanir 1978. Árið 1981 fara samkv. fjárlagafrv. 175 millj. til þessa verkefnis, en hefði átt að vera á sjötta hundrað milljóna ef lögunum hefði verið fylgt. Þetta er enn ein afleiðing vísitölukerfisins. Þarna er um að ræða kostnað sem auðvitað á að koma fram í vöruverði eins og gerist í annarri framleiðslustarfsemi, en ekki í ríkisútgjöldunum, sem verður óhjákvæmilega í þeim feluleik sem ríkisstj. stundar í efnahagsmálunum.

Þá vík ég að öðrum þætti, sem eru þau loforð sem gefin eru og hafa verið gefin í stjórnarsáttmálanum, sem ríkisstj. var mynduð á, og enn fremur í fjárlagafrumvörpum.

Hæstv. ríkisstj. lofaði í stjórnarsáttmálanum að halda niðurgreiðslunum í ákveðnu hlutfalli við búvöruverð. Í fjárlagafrv. vegna fjárlaga yfirstandandi árs er miðað við að hlutfallið sé eins og það var 1. júlí 1979. Á yfirstandandi ári, árinu 1980, vantar 1 milljarð upp á að ríkisstj. hafi staðið við þetta loforð sitt, og fyrir næsta ár má segja að fjárvöntunin sé a.m.k. 4–5 milljarðar ef miðað er við verðlagsforsendur frv., en líkast til nær 10 milljörðum ef tekið er tillit til þeirra verðlagsforsendna sem koma fram hjá Þjóðhagsstofnun samkv. niðurstöðuspá.

Hér er ekki verið að mæla bót stefnuákvörðun hæstv. ríkisstj. í niðurgreiðslumálum, heldur einungis verið að benda á vöntun fjármagns ef standa á við gefin loforð ríkisstj. í stjórnarsáttmála og fjárlagafrv. (Gripið fram í.) Hér kallar hæstv. ráðh. fram í að þetta sé hrein vitleysa. Hann getur komið hér upp á eftir og fært orðum sínum stað. Ég bíð eftir því, að hann geri það með fullgildum rökum og taki þá tillit til þeirra orða sem koma fram í fjárlagafrv. yfirstandandi árs, þar sem þessi regla er tíunduð mjög rækilega. Sáttmáli stjórnarinnar verður ekki skilinn öðruvísi en sem staðfesting á því sem þar stendur. Ég veit að ég þarf ekki að lesa þetta fyrir hæstv. ráðh., en í þessi gögn get ég vitnað, ef hann kærir sig um, og get sýnt honum þau á eftir.

Sömu sögu er að segja um húsnæðismálin. Þá er von að sumir hverfi úr þingsalnum. Í kvöld hafa tveir ræðumenn gert þessu máli skil og í dag fjölluðu að sjálfsögðu frsm. minni hlutanna um þetta mál. Það þarf að rifja það upp, að í stjórnarsáttmála ríkisstj. er því heitið, að 5–7 milljarðar skuli ganga til húsnæðismála, og nefndir eru sérstaklega verkamannabústaðir og fleira slíkt í þeim efnum. Auðvitað töldu menn, þegar þessi loforð voru gefin, að þetta fjármagn ætti að koma til viðbótar því fjármagni sem áður hafði verið til ráðstöfunar samkvæmt lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þegar fjárlagafrv. er skoðað kemur hins vegar í ljós að þarna vantar stórkostlega fjármuni upp á. Það, sem hefur gerst og breytir þessu loforði og mikla og stóra stefnumáli hæstv. ríkisstj., er einfaldlega það, að 1% launaskattsins er dregið í Byggingarsjóð verkamanna, en Byggingarsjóður ríkisins situr uppi nánast fjármagnslaus. Það má færa því stað, að það vanti fjölmarga milljarða í þetta dæmi. Lágmarkið er að það vanti 4.6 milljarða, en sumir telja að það vanti allt að 12 milljörðum í þetta dæmi. Þar á ofan virðist ríkisframlagið m.a. byggjast á gjaldstofni, byggingarsjóðsgjaldi, sem búið er að fella úr lögum. Má þá bæta 1400 millj. við fyrrgreindar tölur.

Fjárvöntun Byggingarsjóðsins á að mæta með lánum, en með áframhaldandi sömu stefnu verður sjóðurinn gjaldþrota eftir 10–15 ár. Þetta sést best á því, að sjóðurinn er aðallega fjármagnaður með lánum frá lífeyrissjóðum á 3.25% vöxtum, en útlánavextir sjóðsins til lánþega eru 2%.

Á þetta minnist ég vegna þess að hér er um svikið loforð ríkisstj. að ræða og vandanum eru ýtt til komandi ríkisstjórnar. En vegna þess að svo vel vill til að hæstv. ráðh. er staddur hér í salnum núna langar mig til að beina þeirri fsp. til hans, hvernig hann hyggist fjármagna Byggingarsjóð ríkisins þegar tekið er tillit til þess, að í hann vantar líklega u. þ. b. 15 milljarða kr. til þess að hann haldi þeirri útlánagetu sem til er ætlast, eða um 40 milljörðum, á næsta ári.

Á bls. 216 í fjárlagafrv. segir, með leyfi forseta: „Auk þess er fyrirhuguð lántaka hjá lífeyrissjóðum og skyldusparendum, en skipting þeirra fjárhæða verður skýrð í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 og er þar af leiðandi ekki sett fram í yfirliti yfir sjóðinn í B-hluta fjárlagafrv.“

Það má vel vera að ætlunin sé að taka þetta inn í lánsfjáráætlun. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort það sé meiningin. Á því lauslega yfirliti, sem ég hef fengið í hendur og ég held að ekki sé neitt trúnaðarmál, get ég ekki fundið þessar upphæðir og þess vegna vil ég biðja hæstv. ráðh. um að skýra út hvernig á því standi að þessir 15 milljarðar komi ekki til skila.

Einnig er rétt að geta þess, að það kom fram í viðtölum við forráðamenn Húsnæðismálastofnunar ríkisins, sem nú heitir reyndar Húsnæðisstofnun ríkisins, að þeir töldu að þessi lán væru umfram getu lífeyrissjóðanna og það væri farið út fyrir þann ramma sem umsamið væri við lífeyrissjóði innan vébanda ASÍ, en það munu vera um 20% af þeim sjóðum sem mega renna til þessara verkefna samkv. samningi. Mér finnst það þurfa að koma hér fram hvar þessi 15 milljarðar eru. Eiga þeir að koma fram á lánsfjáráætlun? Eru þeir í því lauslega yfirliti sem dreift hefur verið til a.m.k. nokkurra þm.? Ef ekki, hvernig í ósköpunum er hægt að finna þessa milljarða í yfirliti yfir ríkisfjármálin? Auðvitað dettur mér ekki í hug að halda að þeir eigi að ganga til húsbyggingasjóðs utan fjárlaga eða lánsfjáráætlunar.

Það má halda áfram og telja upp loforð ríkisstj. og nægir að minna til viðbótar á orkujöfnunargjaldið sem var fundið upp til að veita olíustyrk til þeirra sem hita hús sín með olíu. Söluskattsaukinn eða orkujöfnunargjaldið gefur á næsta ári 13 milljarða, en aðeins 5 milljarðar eiga að ganga til olíustyrkja. Einhvern tíma hefði sjálfsagt einhverjum dottið í hug að nota sögnina „að stela“ í þessu sambandi, en það er fjarri mér að nota slík orð.

Erfiðleikar eru hjá Lánasjóði ísl. námsmanna, eins og þeir vita sem eitthvað þekkja til þeirra mála. Og enn á ný er leitað eftir lánum til þess að hann geti fjármagnað það sem til er ætlast af honum. 3 milljarðar og 300 millj. koma á lánsfjáráætlun. Það gerir að verkum að sjóðurinn verður miklu seinni að byggja sig upp en boðlegt getur talist. Þetta segi ég sérstaklega vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur boðað verulegar breytingar á Lánasjóði ísl. námsmanna sem skila sér í auknum eigin tekjum til framtíðar, en til styttri tíma geta kostað ríkissjóð aukna fjármuni.

Næst vil ég ræða um skipun opinberra framkvæmda.

Hv. formaður fjvn., Geir Gunnarsson, ræddi í framsöguræðu sinni um þá erfiðleika, sem hljótast af stofnkostnaði sjúkrahúsa, og nefndi í því sambandi 85%regluna. Hér ætla ég ekki að fjalla um þessa tilfærslu verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga og væri þó ærin ástæða til. Ekki ætla ég heldur að fjalla almennt um útboð opinberra framkvæmda, en minni á að við hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson höfum flutt um þau efni frv. á hv. Alþingi þar sem gert er ráð fyrir að almenn útboð verði stunduð meira en hingað til.

Það er eitt atriði sérstaklega, sem ég vil vekja athygli hv. þm. á varðandi opinberar framkvæmdir og skipan þeirra. Það er svokallað skilamat samkv. 20. gr. laga nr. 63 frá 1970, en þar segir, með leyfi forseta:

„Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því, hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir, sem þegar hafa verið metnar.

Ríkisendurskoðun setur nánari reglur um fyrirkomulag skilamats og sér um það, að greinargerðir um skilamat séu lagðar fyrir fjvn. Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.“

Þessu ákvæði þessara ágætu laga hefur aldrei verið framfylgt. Ég hef á undanförnum dögum nokkuð kynnt mér þetta mál, og ég hef þær fréttir að færa að fyrir skömmu hefur það gerst, að ríkisendurskoðun og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins ætla sér að koma skilamatinu á. Þá fyrst verður hægt að segja að hægt sé fyrir hv. fjvn. að meta árangur útboða og verka sem unnin eru á vegum ríkisins og ríkisstofnana og heyra undir lögin um skipan opinberra framkvæmda.

Ég ætla ekki frekar að fjalla um þetta skilamat, en legg áherslu á að hér er mjög merkilegt mál á ferðinni. Það vekur reyndar fjölmargar aðrar spurningar, t.d. hvort ekki sé kominn tími til að færa ríkisendurskoðun undir Alþingi, undir fjárveitingavaldið, hvort það sé ekki eðlilegra en sá háttur sem nú er viðhafður. Ég minni í því sambandi á till. sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur flutt á fyrri þingum.

Það þarf að breyta viðhorfum til aðferða við opinberar framkvæmdir. Vil ég nefna nokkur atriði í því sambandi. Í fyrsta lagi þarf að meta samfélagslega arðsemi.

Raunverulegur vilji verður skilyrðislaust að vera að baki hverri ákvörðun um framkvæmd, og er þá bæði framkvæmdakostnaður og rekstrarkostnaður hafður í huga og einnig sú nytsemd fyrir þjóðfélagið sem leiðir af viðkomandi fjárfestingu. Þetta er ákaflega þýðingarmikill liður. Koma verður í veg fyrir að áhugasamir hagsmunaaðilar og fylgnir sér vegi þyngra en þekking og skynsemi. Hafa verður í huga að ráðstöfun fjármagns í eina framkvæmd útilokar aðra. Það er engu líkara en þessa grundvallaratriðis sé ekki alltaf gætt fyllilega. Þessu til rökstuðnings má m.a. benda á að framkvæmdir eru stundum dregnar eftir að þær eru hafnar, e.t.v. árum saman, án þess að aðrar ástæður virðist sjáanlegar en þær að framkvæmdavaldið veigri sér við því að taka á sig þann kostnað sem leiðir af notkun viðkomandi mannvirkis.

Í öðru lagi þarf að liggja fyrir í upphafi framkvæmdatími og framkvæmdaröð framkvæmdanna. Sá tími, sem hver fjárfesting tekur, verður að miðast við að verkefninu sé lokið á skemmsta mögulega tíma út frá tæknilegum framkvæmdatíma og kostnaði. Oft er bent á að sé framkvæmd flýtt um of fylgi því viðbótarkostnaður. En hitt fylgir sjaldnar, að sé hægt á framkvæmd eykur það einnig kostnað. Það er dýrt að láta fjármagn liggja í ónotuðum mannvirkjum. Af þessu leiðir að fjármögnun verður að miðast við að hægt sé að fullnægja þessu skilyrði, þ.e. að framkvæmdatíminn sé eðlilegur, sem þýðir að takmörkuðu fjármagni má ekki dreifa á marga staði með þeim afleiðingum að engu verki er hægt að ljúka á hagkvæmasta tíma. Í ríkisbúskapnum úir og grúir af dæmum sem brjóta gegn þessari meginreglu.

Í þriðja lagi vil ég nefna að áfangaskipting er nauðsynleg. Það er nauðsynlegt að skipta hverju verkefni í sjálfstæða áfanga eftir því sem kostur er þannig að að loknum hverjum áfanga komist fjárfestingin í notkun, þ.e. ráðstafaðir fjármunir byrji að gefa arð. Þetta er vitaskuld grundvallaratriði þar sem mannvirki kemur samfélaginu að engum notum fyrr en það er tekið í notkun.

Í þessu sambandi má benda á ýmsar framkvæmdir sem hugsanlega hefði mátt standa að á hagkvæmari hátt ef þetta atriði hefði verið haft í huga. Það er þó rétt að benda á að á síðustu árum hefur í vaxandi mæli verið tekið mið af hugsanlegri áfangaskiptingu í áætlanagerð. M.a. hefur Háskóli Íslands tekið upp slíkt fyrirkomulag í uppbyggingu á kennsluhúsnæði á landspítalalóðinni. En það eru mál sem geymd verða til 3. umr.

Til þess að hagkvæm áfangaskipting geti átt sér stað mega ákvörðunartafir ekki koma til í kerfinu. Slíkar tafir geta orðið til þess að draga verulega úr hagkvæmni áfangaskiptinga. Jafnframt hefur það slæm áhrif á þá aðila að þurfa að sækja á um mannvirkjagerð til framkvæmdavaldsins. Kann þeim að þykja lítill skilningur í sparnaðarviðleitni þeirra, þess vegna sé í raun árangursríkast að byggja nógu stórt og skapa þannig sem mestan þrýsting á hið opinbera til að ljúka verkinu sem fyrst.

Þá þarf í fjórða lagi að tryggja fjármögnun strax. Endanlega þarf að ganga frá heildarfjármögnun áður en framkvæmdir hefjast. Þannig hefjist framkvæmdir ekki undir neinum kringumstæðum fyrr en heildarfjármögnun liggur fyrir og skiptir framkvæmdatíminn þar engu máli.

Í fimmta lagi er nauðsynlegt að það sé einn fjármögnunaraðili að hverri framkvæmd, en ekki skipt ábyrgð eins og nú er samkv. ýmsum lögum. Í hverju tilviki verði fjármögnun einungis á höndum eins aðila. Þegar fjármögnun og framkvæmd er í höndum tveggja eða fleiri aðila er hætta á að ýmis önnur sjónarmið en þau, sem eru þjóðhagslega hagkvæmust, ráði að einhverju leyti ferðinni. Þarflaust er að benda á dæmi um þetta, þar sem oft hefur verið bent á þetta atriði, og látið nægja að minnast á uppbyggingu heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa, eins og reyndar kom fram í framsöguræðu hv. formanns. Þetta yrði til þess að einfalda verulega ákvörðunarferilinn.

En í þessum efnum kallar margt annað einnig á breytingar. í mörgum tilvikum er um flókinn feril að ræða þegar ákvarðanir eru teknar um opinberar framkvæmdir. Má þar minna t.d. á vegaframkvæmdir í landinu. Þingmenn kjördæma ráðstafa að miklu leyti því fjármagni sem til skiptanna er innan hvers kjördæmis. Þess vegna hafa hv. fjvn. og fleiri slíkar nefndir verið kallaðar bútunarnefndir, en ættu kannske frekar að kalla sig röðunarnefndir. Það er röðun verkefna sem skiptir máli, en ekki hvernig þær eru bútaðar niður.

Ég vil sérstaklega nefna í þessu sambandi hve hættulegt það er þegar þingmenn ákveðinna kjördæma taka sig saman um að færa til liði innbyrðis í kjördæminu og stofna jafnvel með þeim hætti til framkvæmdar án þess að út í það sé hugsað, hve mikinn kostnað það hefur í för með sér til frambúðar. Ég þori að nefna eitt dæmi í sambandi við afgreiðslu þessara fjárlaga. Það er úr Norðurlandskjördæmi vestra. Fjármunir eru teknir úr hafnarframkvæmdum á Sauðárkróki eins og tillögur voru um, og settir í hafnarframkvæmdir á Blönduósi. Með slíku er í raun verið að stofna til framkvæmda sem hugsanlega geta kostað 2 milljarða af almannafé. Svo einfalt, jafnvel með einu símtali, er hægt að hefja framkvæmd. Sýnir þetta dæmi kannske best við hvaða erfiðleika er að etja og í raun að þessir erfiðleikar eru fyrst og fremst stjórnmálalegir.

Að lokum vil ég nefna það um opinberar framkvæmdir, að ég tel að um fastar fjárhæðir eigi að vera að ræða sem framlag ríkisins í þeim verkum, sem ríkið á aðild að, og það eigi að miðast við upphaflega áætlun, en ekki eins og staðið er að þeim verkefnum nú.

Ég hef gerst æðilangorður um þennan þátt, en það hef ég gert vegna þess að frá því að ég kom í fjvn., sem ekki er mjög langt, hefur mér blöskrað hvernig staðið er að þessum málum. Ég tel það vera eitt af stærri verkefnum Alþingis að fara að þeim ágætu lögum sem til eru um skipan opinberra framkvæmda. Það er þess vegna sem ég hef talað sérstaklega um þetta mál núna.

Ég vil þá snúa mér að Reykjavíkurmáli sem í raun er náskylt því sem ég var að tala um áðan og sýnir hvaða vandamál geta orðið til þegar um er að ræða skiptingu á fjárframlögum til einstakra verkefna.

Í bréfi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. okt. 1980, til hv. fjvn. er rakið mjög nákvæmlega hvernig borgarstjórn Reykjavíkur telur að ríkið eigi að standa að endurgreiðslu á fjárframlögum vegna byggingar heilbrigðisstofnana í Reykjavík. Ég ætla ekki að lesa þetta bréf, það er óþarfi, en gefa hugmynd um hvað í þessu bréfi felst.

Þar kemur í ljós að sú fjárhæð, sem ríkið skuldar Reykjavíkurborg vegna bygginga sjúkrastofnana í Reykjavík til ársloka 1980, er 1267 millj. kr. Þá er aðeins í krónum talið eins og þær koma á hverjum tíma inn í verkin. Ágreiningur er á milli Reykjavíkurborgar og fjmrn. um hvernig þessa fjármuni eigi að greiða. Séu þeir metnir upp til verðlags eru þetta hvorki meira né minna en 5 milljarðar 832 millj. kr. Þá er ég að tala um upphæðir á sama grundvelli og fjárlagafrv. byggir á, sem er á byggingarvísitölunni 750, en það er við þá byggingarvísitölu sem sjúkrahúsakostnaðurinn miðast í fjárlagafrv. Þetta þýðir að skuld ríkisins við Reykjavíkurborg er jafnhá upphæð og er í frv. ætluð til allra sjúkrastofnana í landinu. Í heimildarákvæði 6. gr. frv. er liður sem heimilar ríkisstj. að gera í samráði við fjvn. Alþingis samning við Reykjavíkurborg um skuld við ríkissjóð vegna framkvæmda í heilbrigðismálum. Hafa verið gerðar sundurliðaðar kröfur af hálfu Reykjavíkurborgar, en samningaviðræður eru enn ekki hafnar.

Mér finnst ástæða til þess fyrir mig sem þm. Reykjavíkur að nefna þessi atriði sérstaklega og spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi kynnt sér þessi mál og hvort hann hafi hugmynd um það sjálfur, hvernig úr megi leysa. Til greina koma ýmsir þættir. Þar á meðal er Reykjavíkurborg tilbúin til að taka upp í þessa skuld ýmis landsvæði, sem eru nú í eign ríkisins, en eru í nágrenni Reykjavíkur.

Ég ætla ekki að fjalla frekar um þennan lið, en vil þó segja frá því, að á þingmannafundi Reykjavíkurþingmanna var ákveðið að halda sérstakan fund í janúar um þessi efni. Það er auðvitað gert vegna þess að í atgjört óefni er komið í þessum málaflokki.

Fimmti þátturinn, sem ég vil nefna í ræðu minni, er nýjar aðferðir við fjárlagagerð. Ég skal vera stuttorður um þennan lið. Ég flutti ásamt nokkrum öðrum þm. Sjálfstfl. á síðasta þingi till. um nýja aðferð við fjárlagagerð. Hún hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar, að fjárveitingar hins opinbera verði óbundnar af fyrri fjárveitingum, þannig að verkefni komi til endurskoðunar frá grunni við fjárlagagerð. Því skorar Alþingi á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að „rekstrar- og fjárhagsáætlanir“ verði svo sem við verði komið reistar á svokölluðum núllgrunni.“

Þetta mál var til meðferðar í hv. fjvn. á s.l. sumri. 23. júní 1980 var gerð svohljóðandi samþykkt í n., með leyfi forseta:

„Í tilefni af þáltill. um núllgrunnsáætlanir samþykkir fjvn. að gerð verði í samráði við fjárlaga- og hagsýslustofnun tilraun með nýjar aðferðir við áætlunargerð í tengslum við undirbúning fjárlaga 1981. Kemur þá til greina að velja eina eða tvær stofnanir sem hentugar þykja.“

Því nefni ég þetta að fjárlaga- og hagsýslustjóri ákvað og tilkynnti nefndinni að hann ætlaði að beita sér fyrir slíkri könnun og gera tilraun á vegum hagsýslustofnunar fyrir eða við fjárlagagerðina vegna ársins 1981. Því miður hefur þetta verk tafist, en samkvæmt nýjustu upplýsingum er mér tjáð að ætlunin sé að gera slíka tilraun eftir áramótin, og ég veit að nm. í fjvn. bíða eftir því, að fjárlaga- og hagsýslustofnun hafi tíma til að gera slíkar tilraunir. Því miður hefur það gerst í þessum efnum eins og mörgum öðrum að við höfum látið undir höfuð leggjast að reyna nýjar aðferðir, við höfum verið of uppteknir við að hjakka í sama gamla farinu, sem gerir það að verkum að stundum sjáum við ekki upp fyrir þúfnakollana í kringum okkur.

Það eru fleiri atriði, sem mætti drepa á, sem hafa verið reynd víða erlendis varðandi fjárlagagerð, eins og aðferð sem kölluð er „sólsetursaðferð“ og margir fleiri þættir sem ég gæti nefnt og hef reyndar gert fyrr á hv. Alþingi, en ég tel ekki ástæðu til þess að tefja umr. með núna.

Á þetta minni ég því að ég held að hagsýslustofnunin hafi á undanförnum árum ekki staðið fyllilega undir nafni. Það er ekki því fólki, sem þar vinnur, að kenna, heldur hinu, að lítill tími hefur verið til að sinna slíkum verkefnum og því miður virðist það vera algengt í ríkiskerfinu að lítill áhugi sé á nýjungum eins og þessum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. Ég hef tækifæri sem nm. til að ræða þessi mál í hv. fjvn. á milli umr. Mér þótti þó eðlilegt að minnast á þessi atriði hér sérstaklega af því að ég er ekki viss um að margir hv. þm. séu gjörkunnugir því mikla starfi sem fer fram í hv. fjvn. og hve mikilvægt það er fyrir Alþingi að þar sé staðið vel að málum.

Það hefur komið fram í þessum umr. að verðlagsforsendur fjárlagafrv. eru brostnar. Í stað þess að gert er ráð fyrir 42% verðlagshækkun á milli meðaltala áranna 1980 og 1981 segja nýjustu tölur Þjóðhagsstofnunar að þær tölur séu a.m.k. 68%. Efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstj. koma væntanlega til með að hafa mikil áhrif á niðurstöðutölur fjárlaga fyrir næsta ár. Á meðan frekari upplýsingar berast ekki hv. Alþingi og hv. fjvn. er fjárlagafrv. auðvitað aðeins plagg sem byggt er á röngum forsendum.