12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

1. mál, fjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er næstum því að maður biðjist afsökunar á því að koma hér í ræðustól núna því að ég ætla ekki að tala um það sem nú er orðið aðalmálið. Það er spurningin um hvor átti að tala á undan, hæstv. fjmrh. eða hv. þm. Karvel Pálmason. Það er spurningin um hvort aths. var stutt eða örstutt. Og það er spurningin um hve mikið hafi verið farið á bak við hv. þm. Karvel Pálmason og hæstv. forseta o.fl. En ég ætla ekki að ræða um þetta.

Hæstv. fjmrh. hélt hér alllanga ræðu og vék þá að ræðum ýmissa stjórnarandstæðinga. Ég saknaði þess, að hann vék ekkert að minni ræðu. Ég get þess vegna ekki þakkað honum fyrir það svar og ummæli um mína ræðu. Ég gæti látið mér koma til hugar að hæstv, ráðh. hefði ekki heyrt hana, því að ég er sannfærður um að hæstv. ráðh. hefði vikið að henni ef hann hefði heyrt hana. (Fjmrh.: Það var einskis spurt.) Það var einskis spurt. Taldi hæstv. ráðh. að það væri engin ástæða til að tjá sig um þá ræðu? Ég skil þetta svar þannig. En þá þarf ég ekki núna að fara að rifja upp það sem ég sagði við hæstv. ráðh., því að það kemur fram í frammíkalli hans að hann hefur hlýtt á það sem ég sagði.

Ég vík þá strax að erindi mínu núna í ræðustól. Það er sú till. sem ég geri á þskj. 224 um breytingar á framlagi af launaskatti í Byggingarsjóð ríkisins. Ég ætla ekki að fara að ræða núna um húsnæðismálin og stöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Hv. þm. Karvel Pálmason, Jóhanna Sigurðardóttir, að ógleymdum Friðrik Sophussyni, hafa gert ítarlega grein fyrir því hörmulega ástandi, sem er í fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins, og þeim fyrirsjáanlegu erfiðleikum, sem sjóðurinn stefnir nú í. En ég legg til að liðurinn um launaskatt sé hækkaður úr 2 milljörðum 788 millj. 700 þús. kr. í 15 milljarða. Ég sé ekki hvernig hæstv. fjmrh. treystir sér til að standa að afgreiðslu þessa fjárlagafrv. nema hækka framlagið til Byggingarsjóðsins af launaskattinum til samræmis við það sem ég legg til.

Nú er það föst regla og þarf ekki að taka hér fram, að hæstv. fjmrh. er við fjárlagagerð bundinn af lagafyrirmælum um útgjöld ríkisins. Og við heyrum það ósjaldan, að hæstv. fjármálaráðherrar og raunar fleiri tala mikið um að það sé ekki mikið svigrúm við fjárlagagerð vegna þess að það sé svo mikið af útgjöldum ríkisins bundið með lögum. Nú veit ég að hæstv. fjmrh. veit þetta allt jafnvel og ég. Ég veit líka að hæstv. fjmrh. er samviskusamur maður og hann virðir og verður að virða þessa reglu. Ég geri ráð fyrir að það skorti ekkert á það nema í einu tilfelli, sem ég veit um, og það er varðandi Byggingarsjóð ríkisins. Í lögum frá 16. des. 1977 um breyt. á lögum um launaskatt er tekið fram að 2% af launaskattinum eigi að renna í Byggingarsjóð ríkisins sem stofnfjárframlag. Þessi lög eru í gildi í dag. Það leikur því engin vafi á að hæstv. fjmrh. verður að taka mið af þeirri staðreynd — ég segi: verður. Það er altekin regla, eins og ég vék að áðan, og það er skylda samkv. 42. gr. stjórnarskrárinnar, það er tekið fram í stjórnarskránni sjálfri. Samkv. þessu sýnist mér að í þessu máli sé ekki nema tvennt til fyrir hæstv. fjmrh.: annaðhvort að samþykkja brtt. mína á þskj. 224, sem ég hef rætt um, eða afnema lögin um launaskattinn frá 16. des. 1977. Það er ekki nema um tvennt að ræða. (Fjmrh.: Það er rétt.) Já, það er rétt, segir ráðh.

Ég vildi vekja athygli á þessu, því að það er mjög alvarlegt mál. Ég hef ekki neina löngun til að stefna hæstv. fjmrh. í vanda út af þessu máli. Þvert á móti. Ég vildi geta stutt hann í því að komast að réttri niðurstöðu, því að það er ekkert spaug að virða ekki þessa reglu. Ef hæstv. ráðh. gerði það ekki, og ég heyri að honum dettur ekki í hug að virða ekki þessa reglu, væri hann ábyrgur samkv. ráðherraábyrgðarlögunum frá 1963 vegna þess að þá hefur hann látið undir höfuð leggjast að sinna þýðingarmiklum þætti í sambandi við fjárlagagerðina, sem honum bar skylda að sinna samkv. stjórnarskrá ríkisins.

Ég sagði að hæstv. ráðh. hefði ekki nema um tvennt að velja. En nú vil ég ekki skiljast svo við þetta mál að taka ekki skýrt fram að annar kosturinn er náttúrlega miklu betri. Í raun og veru tel ég að ekki sé nema um annan kostinn að ræða. Með tillitli til þess, hver staða Byggingarsjóðs ríkisins er og staða húsnæðismálanna og hvert stefnir í þeim efnum, án þess að ég ætli að fara að tíunda það hér nú, er þessi leið sú að láta lögin um launaskatt vera óbreytt og samþykkja brtt. um hækkun framlags af launaskattinum til Byggingarsjóðs ríkisins á þskj. 224. Nú vil ég vænta þess, að hæstv. ráðh. tjái sig um þetta hér úr ræðustól. Og ég verð að segja að mér hefði fundist ástæða til þess að hæstv. ráðh. hefði gert það í ræðu sinni áðan, fyrst hann heyrði mál mitt þegar ég talaði fyrr í umr.