12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

1. mál, fjárlög 1981

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að verða við þessum tilmælum, sem hv. þm. bar fram. Hins vegar verð ég að leiðrétta það sem kom fram hjá honum áðan, því að frv. til lánsfjárlaga 1980 var borið fram hér í þinginu eftir að fjárlagafrv. hafði verið samþykkt. Nákvæmlega eins var þetta á árinu 1979. Þá var frv. til lánsfjárlaga borið fram hér í þinginu með lagabreytingum, sem vörðuðu stofnlánasjóðina, eftir áramót, í febr. 1979, en fjárlagaafgreiðslan fór fram í des. 1978. Þetta á sér því mörg fordæmi, og ég vil minna á að mjög mörg sambærilega fordæmi má finna í sambandi við afgreiðslu tekjuskattsmála hér á Alþingi. Það hefur hvað eftir annað komið fyrir að bornar væru fram tillögur um breytingar á tekjuskatti í t.d. nóv. eða des., fjárlög verið afgreidd í lok des., en breytingin á tekjuskattslögunum ekki afgreidd fyrr en kannske í febrúar- eða marsmánuði, en fjárlagafrv. þá miðað við áformaða breytingu á tekjuskattslögum. Það eru mörg dæmi þessa og raunar um marga aðra skatta. (ÞK: Má ég segja nokkur orð núna til að spara tímann, ég ætla ekki að tala meira? — Ég held að það sé ekki hægt að gera samanburð þarna á milli teknahliðar og útgjalda. Það gildir ekki það sama í þessu efni. Enn fremur mótmæli ég ekki því sem ráðh. sagði um afgreiðslu síðustu fjárl., en sú afgreiðsla var líka afbrigðileg og var ekki á eðlilegum tíma.) Allt var þetta afbrigðilegt, sem ég nefndi hér, en ég held að það sé nokkuð ljóst að ég hef bæði nefnt fordæmi um þetta úr tekjuhlið fjárl. og úr útgjaldahlið fjárl., og hvort sem menn líta á þessi mörgu fordæmi á liðnum árum sem góð eða vond eru þau fyrir hendi og það eru þessi fordæmi sem nú er verið að fylgja.