12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1404 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í stefnuræðu minni á Alþingi 23. okt. s.l. var sagt að ríkisstj. hefði í huga ýmsar efnahagsaðgerðir samfara gjaldmiðilsbreytingunni um næstu áramót. Eins og Alþingi hefur margsinnis síðan verið skýrt frá er unnið að undirbúningi slíkra aðgerða. Nú sem fyrr útheimtir slíkur undirbúningur ítarlega könnun á áhrifum þeirra og samhengi. Meðan þessar aðgerðir eru á vinnslu- og umræðustigi er ekki tímabært að skýra frá þeim opinberlega. Verði þær tilbúnar áður en fundum Alþingis verður frestað nú fyrir jól verður Alþingi þegar skýrt frá þeim.

Mörg þeirra atriða, sem eru til umræðu, eru framkvæmdaatriði í verkahring ríkisstj. og opinberra stofnana. Meðan ekki er fullráðið með hverjum hætti efnahagsaðgerðirnar verða er ekki unnt að segja hver þörf kann að verða á nýjum lagaheimildum. Ef fundum Alþingis verður frestað með samþykki þess fram til síðari hluta janúarmánaðar hefur ríkisstj. heimild til að gefa út brbl., ef brýna nauðsyn ber til. Ríkisstj. getur ekki afsalað sér þeim rétti, en mun að sjálfsögðu nota þann rétt með aðgát eins og stjórnarskráin ætlast til.