12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í núv. ríkisstj. sitja tveir helstu lagakennarar í þessu landi og menn sem hafa átt verulegan þátt í því að móta hugsun lögmenntaðra manna um jafnvel tveggja kynslóða bil. Það, sem hér er að gerast og yfirlýsing dr. Gunnars Thoroddsens forsrh. í útvarpinu í fyrrakvöld, þar sem hann gefur sterklega í skyn að beitt verði bráðabirgðalagaheimild, sem hann kallar, nú um jólaleytið eða meðan þingi er frestað, er auðvitað brot gegn anda 2. gr. stjórnarskrárinnar. 2. gr. stjórnarskrárinnar kveður svo á, að valdaþættirnir þrír skuli standa jafnfætis og vera óháðir hver öðrum. Þetta er auðvitað öll hugsunin í þessu. Andi þessara laga stendur til þess, að jafnvægis sé gætt. Það brýtur gegn anda þessara laga að boða það nú, að það kynni að vera í bígerð að þingið skuli sent heim og síðan skuli verða sett brbl. Það brýtur gegn anda 2. gr. stjórnarskrárinnar. Vissulega er það svo, að slík stjórnarskrárbrot eru að fara fram. Þau fara fram nánast á hverjum degi. Dómarar úr Hæstarétti koma fyrir þingnefndir eins og hverjir aðrir pólitískir verslunarmenn og „agitera“ fyrir frumvörpum sem þeir hafa samið. Þetta er auðvitað brot á anda 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þessir þrír valdþættir eiga að standa jafnfætis, og það er hrein ögrun og ósvífni þegar forsrh. segir í útvarpsviðtali: Lagaheimildir eru til. — Ég vil, með leyfi forseta, vísa í útskrift af þessu viðtali: „Lagaheimildir eru til fyrir ýmsu, sem til greina kemur. Það er hugsanlegt að fá samþykkt síðar, þ.e. þegar Alþingi kemur saman aftur. Um þetta er ekki hægt að fullyrða neitt í einstökum atriðum nú.“ Hér er forsrh. auðvitað að ögra þinginu og ögra þjóðinni. Hann er að boða það, að heimildum til brbl. kunni að verða beitt í jólafríi þingsins.

Í enskri sögu þekkja Englendingar það, að þegar Oliver Cromwell var leiður á þinginu sendi hann hermenn á hestum inn í þingið og sendi það heim. Það hefur ekki þótt vera fín gjörð í breskri sögu. Efnislega er nákvæmlega það sama sem forsrh. er nú að gera. Þinginu á að vera misboðið. Þingið á að hafa virðingu fyrir sjálfs sín hönd. Það er þetta virðingarleysi í allri þessari hugsun þessa lögmenntaða manns sem er yfirgengilegt.

Nú er það svo, að þessir leikir hafa verið leiknir áður. En ég spái því, að tímar séu að breytast í þessum efnum, að ný kynslóð líti öðrum augum á þessi efni. Það er kynslóðin, sem er að fara, sem svona hegðar sér. Lífskeðjan heldur áfram, guði sé lof. Þær aðferðir, sem hér er beitt þegar framkvæmdavaldið fótumtreður löggjafarvaldið, eins og auðvitað er hér verið að gera, þetta eru leikaðferðir í stjórnmálum sem við erum vonandi nú að sjá fyrir endann á. Það eru fullorðnir þm., sem áratugum saman hafa stundað stjórnmál bæði af starfi og af ástríðu, sem hegða sér með þessum hætti. Þetta er auðvitað óþolandi, og Alþingi, sem ber einhverja lágmarksvirðingu fyrir sjálfu sér, á auðvitað að mótmæla harðlega slíkum leikreglum sem forsrh. talaði fyrir í útvarpsviðtali í fyrrakvöld. Það er óþolandi með öllu, að fulltrúi og talsmaður framkvæmdavaldsins komi fram í útvarpi og boði setningu brbl., af því að brbl. eru neyðarréttur. Menn eiga að geta séð fyrir brbl. meðan þing situr enn þá, og þá auðvitað framlengir þingið sjálft sig. Bráðabirgðalagahugmyndir eru frá tímum þegar samgöngur voru erfiðar, þegar erfitt var að ná þingi saman, til þess að þetta neyðarvald væri til ef á þyrfti að halda. Þetta er auðvitað misnotkun sögulega, efnislega og lagalega á öllu því valdi sem hér er verið að tala um. Þetta er allt öðruvísi hugsað í stjórnarskránni, eins og sögufróður maður, sem setið hefur áratugum saman hér á Alþingi, veit auðvitað mætavel. Það er útúrsnúningur út úr anda stjórnarskrárinnar að beita brbl. með þessum hætti. (Forseti hringir.) — Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.