12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1380)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Kannske við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson getum skipst á upplýsingum og hann geti frætt mig um ræður forkólfa Alþb. þegar ákveðið var að taka þátt í þessari ríkisstj. og hæstv. núv. fjmrh. fullvissaði efagjarna Alþb.-menn um að það væri allt í lagi að taka þátt í þessari ríkisstj. vegna þess að félagar Alþb. í ríkisstj. og samráðherrar þeirra yrðu bandingjar Alþb. í ríkisstj. Við skulum sjá til, Ólafur Ragnar Grímsson, varðandi þetta.

En ég get vel upplýst Ólaf Ragnar Grímsson um það, að það er hvort tveggja jafnámælisvert, að ríkisstj. hafi engar tilbúnar tillögur til aðgerða í efnahagsmálum, og hitt, að hún hafi slíkar tillögur tilbúnar og vilji hvorki sýna þær tillögur Alþýðusambandsþingi né sjálfri löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Og það eru eingöngu stjórnarliðar, sem geta svarað þeirri fsp. hvoru þessu sé til að dreifa. En ríkisstj. og stjórnarliðar eru jafngagnrýnisverðir hvor heldur skýringin er.

Það hefur verið minnst á það, að núv. hæstv. ríkisstj. hafi brotið ýmis ákvæði svokallaðra Ólafslaga. Hæstv. fjmrh. hefur t.d. brotið það ákvæði Ólafslaga í 7. gr. þeirra, að með fjárlagafrv. ár hvert skuli leggja fram áætlun er lýsi í aðalatriðum meginstefnu í ríkisbúskapnum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrv. tekur til. Hann hefur haft fram á þessa stundu rúma 10 mánuði til að undirbúa þetta og hann getur ekki kennt öðrum um þessa vanrækslusynd sína.

Bent hefur verið á það hér, að hæstv. fjmrh. hefur brotið 14. gr. svokallaðra Ólafslaga þar sem segir að fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn skuli fylgja fjárlagafrv. Og hann hefur brotið það ákvæði sömu greinar, að áætluninni skuli fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrv. tekur til. Hæstv. fjmrh. hefur gert veikburða tilraunir hér, lítilmannlegar tilraunir til að kenna öðrum um þessa vanrækslu sína, en honum hefur verið sýnt fram á að hann hefur eingöngu við sjálfan sig að sakast.

Það er líka rétt að vekja athygli á því, áður en fjárlög eru afgreidd, að svo er tilgreint í Ólafslögum, 6. gr., að áætlanir um tekjur og gjöld í fjárlagafrv. skuli gerðar á sömu meginforsendum og þjóðhagsáætlun og þær spár sem eru hluti hennar, þ. á m. um breytingar verðlags og launa, og þá er átt við þjóðhagsáætlun er fylgir stefnuræðu forsrh. á hverju hausti. En síðan segir í þessari sömu grein áfram: „Á sama hátt skulu þjóðhagsforsendur fjárlaga miðast við endurskoðaða þjóðhagsáætlun fyrir fjárhagsárið, sem í hönd fer, eins og hún liggur fyrir við afgreiðslu fjárlaga.“

Þarna er gerður greinarmunur á þjóðhagsáætlun, sem fylgir stefnuræðu forsrh., og endurskoðaðri fjárhagsáætlun komandi árs. Nú liggur fyrir endurskoðuð þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár sem leiðir allt annað í ljós heldur en þjóðhagsáætlun er fylgir stefnuræðu forsrh., og hefur verið gerð grein fyrir því hér af fyrri ræðumönnum. Annars vegar var verðbólguspá, er nam 42%, og hins vegar er um að ræða verðbólguspá, er nemur 65–70%, þannig að það er ekki unnt að afgreiða fjárlög, ef eftir lögum á að fara, nema fjárlögum sé breytt frá því sem þau eru nú við 2. umr. og þau færð í samræmi við þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunarinnar, eins og lög gera ráð fyrir. Það er því réttmæt krafa þm., að hæstv. ríkisstj. — og einkum og sér í lagi hæstv. fjmrh. — taki til og umreikni fjárlagafrv. í samræmi við kröfur þessarar lagagreinar. Og sannleikurinn er sá, að þetta gerir það að verkum, að réttast væri fyrir ríkisstj. að óska eftir bráðabirgðaheimildum um greiðslur úr ríkissjóði og fjalla um endurskoðun fjárlaga samhliða því sem hún fjallar um væntanlegar efnahagsaðgerðir, þannig að samræmi sé í hlutunum og bókstaf laganna og anda þeirra sé fullnægt.

Það er ekki að ófyrirsynju, að spurt er um hvort brbl. verði gefin út í jólaleyfi þm. þegar svona standa sakir. Það er t.d. alveg ljóst, að samkv. Ólafslögum á að hækka vexti um 10–12 prósentustig fyrir áramót ef engin lög eru samþykkt hér á Alþingi sem breyta 33. gr. Ólafslaga, ákvæði til bráðabirgða. Nú ætla ég að spyrja, þar sem ekki er tilkynnt í skrá ríkisstj. um lög eða lagafrv. sem samþykkja þarf fyrir áramót, hvort ætlunin sé að gefa út brbl. milli jóla og nýárs til þess að Seðlabankinn sé ekki skyldugur að hækka vexti um 10–12% — eða hvað ætlast ríkisstj. fyrir að þessu leyti?

Þetta leiðir hugann að því, að auðvitað er það krafa okkar þm. að vita hvort ríkisstj. ætlar sér að leggja fram tillögur í efnahagsmálum og fylgja þeim fram með bráðabirgðalöggjöf eftir að þingi verður frestað. Ég vil lýsa því yfir fyrir mína hönd og ég veit annarra stjórnarandstöðuþm., að við erum reiðubúnir að sitja hér áfram á þingi án sérstakrar þingfrestunar og fjalla um þau mál sem ríkisstj. telur nauðsynlegt að þingið og löggjafarsamkoman fjalli um, þ. á m. væntanlegar efnahagsaðgerðir, endurskoðun fjárlagafrv. o.s.frv. Ég er andvígur því að heimila frestun á fundum þingsins nema fyrir liggi ákveðin yfirlýsing af hálfu ríkisstj. um væntanlegar efnahagsaðgerðir og hvernig hún ætlar að standa að lagasetningu sem nauðsynleg kann að vera til þess að þær nái fram að ganga. Ég skil vel að ríkisstj. getur ekki afsalað sér valdi til brbl.-útgáfu þegar fundum þingsins er frestað, en hér er um lágmarkskröfu af hálfu þm. að ræða sem ég hef lýst hér á undan.

Ég þakka forseta sæmilega þolinmæði.