12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kvartaði undan því áðan, að stjórnarandstaðan væri ekki nógu hörð og það liði nokkur tími svo að hann heyrði ekki nægilega mikið frá henni. Hann talaði um að hún svæfi vikum saman. En ég held að hann ætti að hyggja frekar að því, að ríkisstj. rumskar aldrei. Mér finnst líka ákaflega furðulegt að agnúast út í það, að forsrh. sé spurður í framhaldi af þeim yfirlýsingum sem hann gaf í útvarpið um það, að til álita kæmi í efnahagsaðgerðum að gefa út brbl., því að öðruvísi verða ummæli hans ekki skilin. Hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fannst ekki eiga við að spyrja af þessu tilefni. Ég get ekki lagt öðruvísi út af texta þm. en sem svo, að hann ættist ekki til að neitt mark sé tekið á því sem hæstv. forsrh. segir í útvarpið.

Áður hefur verið spurt af minna tilefni hér en því, að hæstv. forsrh. gefi það fyllilega í skyn í útvarpinu, rétt áður en þing fer í frí, að hugmyndin sé að gefa út brbl., því að öðruvísi verður hæstv. forsrh. ekki skilinn. En stjórnarandstaðan hefur dregið í efa, að tillögur væru fyrir hendi hjá ríkisstj., og byggt það á reynslu sinni í þessum efnum. Ég get ekki séð annað en hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi komist að sömu niðurstöðu, að það sé ekkert í undirbúningi hjá ríkisstj., úr því að honum finnst ekki viðeigandi að spyrja um það hér og nú, hvað hafi vakað fyrir forsrh., hvað verið sé að hugsa. (Gripið fram í.) Ég segi það enn og aftur, að mér þykir einkennilegt ef það á að geta farið saman að þykja ekki viðeigandi að spyrja af þessu tilefni og halda því fram, að eitthvað sé í undirbúningi. En hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson getur leyst úr þessu. Úr því að hæstv. forsrh. fæst ekki til að svara nægir þinginu auðvitað yfirlýsing frá formanni Alþb. um að Alþb. muni ekki standa að brbl.setningu, því að ekki trúi ég að hæstv. forsrh. ætli sér að setja brbl. öðruvísi en þingmeirihluti sé fyrir því. Þetta er spurningin um það, hvort hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ætlast til þess, að þingið og þjóðin líti svo á að yfirlýsing hæstv. forsrh. í útvarpinu sé algerlega ómark eða ekki, hvort hún sé jafnmikið ómark og allar aðrar yfirlýsingar sem hafa komið frá ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum.