12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þar sem ég hóf þessar umr. vil ég þakka hæstv. forsrh. svör hans þótt í þeim væri satt að segja hin mikla teygja sem oft einkennir svör hæstv. ráðh. Ég spurði hér einfaldra en ákveðinna spurninga. Ég fæ ekki skýr svör. Hins vegar fara menn að tala hér um allt annað og þar á meðal gerir hæstv. forsrh. það.

Mér er alveg ljóst að þess verður ekki krafist af hæstv. ríkisstj., að hún afsali sér þeim rétti sem hún hefur til útgáfu brbl. Það, sem hér er hins vegar um að ræða, er að það er ekkert vitað hvað ríkisstj. hyggst fyrir. Hefur hún tillögur eða hefur hún ekki tillögur? Ekki svarar hæstv. forsrh. því, og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson telur það ekki vera í sinum verkahring, merkilegt nokk. Sumir hefðu nú kannske haldið af athöfnum hans undanfarin misseri að það væri einmitt hann sem ætti að svara því. En hann telur svo ekki vera.

Hæstv. forsrh. sagði að ég hefði farið með rangt mál þegar ég sagði að hann hefði neitað að svara fsp. hér í hv. Nd. í gær. Ég viðhafði að vísu ekki þau orð, en söm var kannske meiningin þegar ég sagði að hann hefði ekki fallist á að ræða við okkur hér í gær. Ég hef aðrar upplýsingar en hann flytur hér. Hann segir að það hafi verið hringt í sig kl. 4 í gær og þess krafist, að hann kæmi hingað til fundar. Ég veit ekki betur en hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hafi haft tal af forsrh. milli kl. 2 og 3, nánar tiltekið upp úr kl. hálfþrjú. Þá var þingflokksfundur hjá okkur og hv. þm. Matthías Á. Mathiesen fór þá til þess að tala við hæstv. forsrh. (Gripið fram í: Var ekki forsrh. á fundinum hjá ykkur?) Nei, hann var það nú ekki, aldrei þessu vant.

Varðandi það, sem alls ekkert kemur þessu máli við, hvað okkur fór á milli, hæstv. forsrh. og mér, á fundi sem ég var á hjá honum kl. hálftíu í gærmorgun, þá ræddum við ekki þetta mál. Fyrir því voru tvær ástæður. Í fyrsta lagi var það ekki erindi mitt við hann og í öðru lagi heyrði ég ekki útvarpsviðtalið sem allt þetta mál hefur nú sprottið út af. Þegar af þeirri ástæðu gat ég ekki rætt um það við hann eða haft aths. um viðtalið að gera þá.

Nokkuð hefur dregist inn í þessar umr. fundur okkar formanna þingflokkanna með hæstv. forsrh. Hæstv. ráðh. segir að á þessum fundi okkar hafi ekkert slíkt skilyrði komið fram, að ekki væru gefin út brbl. meðan þingið væri í fríi. Það er alveg rétt. Á það var ekkert minnst, einfaldlega vegna þess að forsrh. hafði þá ekki látið að því liggja, svo að ekki sé meira sagt, að brbl. yrðu gefin út. En það er einmitt það, sem hæstv. forsrh. gerði og hér hefur rækilega verið rakið, í því útvarpsviðtali sem hér hefur verið vitnað til. Og það er þess vegna sem þessi umr. hefur farið fram hér í dag.