12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég kom ekki hingað upp í ræðustól til að eiga orðastað við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, en það virðist svo komið að það megi einna helst ekki ávarpa forsrh. eða stuðningsmenn hans svo að þessi hv. þm. telji sig ekki knúinn til að koma ávallt upp og bæta um betur ef þessir aðilar hafa eitthvað að segja. Það verður þá að vera hans hlutverk, ég ætla ekki að hafa nein afskipti af því.

Það, sem ég var að óska eftir að fá svör við frá hæstv. forsrh., er mjög einföld spurning: Er ríkisstj. nú, áður en Alþingi fer heim í jólafrí, að ráðgera brbl.-setningu eða ekki? Ég hef ekki óskað eftir því, að hæstv. forsrh. gefi yfirlýsingu um að hæstv. ríkisstj. muni ekki nota þann neyðarrétt sem útgáfa brbl. er, ef eitthvað það gerist í fjarveru Alþingis sem gerir nauðsynlegt vegna þjóðarheilla eða slíkra ástæðna að setja brbl. Ég er ekki að óska eftir því að ríkisstj. afsali sér þessu valdi. Ég er að óska eftir svari við þessari einföldu spurningu: Ber að skilja orð hæstv. forsrh. í útvarpinu í fyrrakvöld svo, að þar hefi hann verið að boða að ríkisstj. sé að undirbúa brbl.-setningu á þeim skamma tíma sem eftir lifir frá því að Alþingi fer í jólafrí og þangað til Alþingi kemur saman aftur? Hæstv. forsrh. svaraði ekki þessari einföldu spurningu. Það segir meira en mörg orð. Því ítreka ég spurninguna til hæstv. forsrh.: Ber að skilja orð hans í útvarpinu þannig, að ríkisstj. sé nú að undirbúa brbl.setningu sem hún hyggist láta koma til framkvæmda þegar Alþingi situr ekki að störfum fáa daga í jólaleyfi þm.?

Ég vek athygli hæstv. forseta á því, að hæstv. forsrh. og samráðherrar hans hafa margoft lýst því yfir, að samfara myntbreytingunni, sem á að taka gildi nú um áramótin, verði gerðar efnahagsráðstafanir sem enginn veit hverjar eru. Það er ítrekað um það spurt, hverjar þessar ráðstafanir muni vera. Engin svör hafa fengist við því fyrr en þá í fyrradag á fundi þingflokka stjórnarandstöðu og stjórnarflokka með forsrh., þar sem hæstv. forsrh. lýsti því yfir, að engar slíkar ráðstafanir yrðu lagðar fyrir Alþingi núna fyrir jólin. Það er síðan hann sjálfur sem á upptökin að því að nýjar upplýsingar virðast koma fram, þegar hann nokkru síðar skýrir frá því í frétt í Ríkisútvarpinu, að vera kunni að slíkar ráðstafanir, sem hann skýrir okkur frá að ekki sé í huga ríkisstj. að leita til Alþingis með að lögleiða fyrir áramót, — að vera kunni að slíkar ráðstafanir verði í lög leiddar með brbl.-valdi eftir jól.

Ég spurði hæstv. forsrh. ítrekað að því, hvort það væru fleiri mál en þessi 21 á lista hæstv. ráðh. sem ríkisstj. vildi láta afgreiða áður en Alþingi færi í jólafrí. Hæstv. forsrh. tók fram að svo kynni að vera, að einhverjir aðrir ráðh. í ríkisstj. hefðu slíkar óskir, og tók við beiðni frá mér um að þeim yrði þá bætt við þennan lista. Það var ekki hægt að skilja af orðum hæstv. ráðh. annað en að ríkisstj. ætlaði ekki að leggja áherslu á afgreiðslu fleiri mála fyrir jól en á listanum eru.

Nú er hægt að fresta fundum Alþingis með tvennum hætti. Mönnum er í fersku minni að um s.l. áramót, þegar þm. fóru þá í jólaleyfi, var fundum Alþingis frestað með ákvörðunum forseta þingsins. Hæstv. forseti Sþ., sem þá var Jón Helgason eins og nú, tilkynnti úr forsetastól 21. des. árið 1979 að forsetar Alþingis hefðu ákveðið að fresta fundum Alþingis allt til 8. jan. eða í 18 daga. Þetta þýddi að þáv. ríkisstj. hafði ekki brbl.-vald. Hún gat ekki sett brbl. ef frestunin var þannig framkvæmd.

Það er einnig hægt að fresta fundum með samþykkt sérstakrar þáltill. þar um. Sé það gert hefur hæstv. ríkisstj. brbl.-vald. Ég vek athygli á því, að engin slík till. hefur enn verið lögð fram og engin slík till. er á þeirri málaskrá sem hæstv. forsrh. afhenti okkur formönnum þingflokka fyrir tveimur dögum með ósk um að afgreidd yrðu fyrir jól. Hæstv. ríkisstj. hefur sem sé ekki óskað eftir því, að Alþingi verði frestað með samþykkt þáltill. þar um. Ef slík till. kemur fram í kjölfar þessara umr. er það yfirlýsing af hálfu ríkisstj. um að hún ætli sér að fresta fundum Alþingis með þeim hætti, að hún muni setja brbl. á meðan þingið situr ekki að störfum.

Um hæstv. forsrh. sem sérstakan skákmann ætla ég ekki að fara mörgum orðum. En ég held að hann sé a.m.k. eini skákmaðurinn sem einatt er að tefla sjálfum sér.