12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Örfá orð um þingsköp.

Þegar ég steig úr ræðustól rétt áðan gaf hæstv. forseti mér áminningu og sagði að ég hefði verið með ásakanir eða dylgjur í hans garð um að hann hagaði fundarstjórn eftir því, hvað menn væru að ræða. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu algjörlega sem röngu og tilhæfulausu. Það hefur ekki hvarflað að mér, hvorki nú né áður, að vera með nokkra gagnrýni eða meiningar um fundarstjórn hæstv. forseta. Ég verð að segja það, að hæstv. forseti hefur meira hugmyndaflug en ég hélt að hann hefði, að geta fundið eitthvað athugavert við það sem ég sagði, — og þegar ég segi, að hann hafi meira hugmyndaflug en ég hefði haldið, segi ég honum það ekki til lasts vegna þess að ég læt mér ekki detta í hug að nokkrum öðrum í þessum sal hafi dottið það sama í hug og hæstv. forseta.

En fyrst ég er staðinn upp — nú hætti ég að tala um þingsköp — vil ég spyrja hæstv. forsrh., af því að ég tók eftir að hæstv. forsrh. vék frá á meðan ég var að tala áðan, kannske hefur hann heyrt það, verið hér frammi. En aðalatriðið í því, sem ég sagði, var að ríkisstj. væri búin að lofa Alþingi því, að ekki yrðu sett brbl. um mótun efnahagsstefnu í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna, og að þetta loforð hafi verið fram borið af hæstv. viðskrh. í umr. hér í Sþ. 4. nóv. s.l. Hæstv. ráðh. sagði að þm. gætu alveg treyst því, að ríkisstj. mundi leggja fyrir Alþingi tillögur sínar um aðgerðir í efnahagsmálunum, sem eru nauðsynlegar og geta að hans mati ekki beðið lengi. (Gripið fram í: Er þetta orðrétt?) Ég las þetta orðrétt áðan. Það er orðrétt núna, nema ég sagði „geta að hans mati ekki beðið lengi.“ Hann sagði „að mínu mati“ því að hann mælti þetta sjálfur. Annars er þetta alveg orðrétt. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort við megum ekki treysta því, að yfirlýsing hæstv. viðskrh. um þetta tiltekna afmarkaða efni standi. Ef hæstv. forsrh. segir að svo sé, hygg ég að við förum allir léttari í lund af þessum fundi.