12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er leitt til þess að vita, en það blasir þó auðvitað við sérhverjum hv. þm., að svör hæstv. forsrh. hafa verið samfelldur útúrsnúningur. Hann vill augljóslega ekki svara þeim spurningum sem hann hefur verið spurður. Ég vil þá taka eitt mál út fyrir sviga, ef svo má að orði komast, og biðja forsrh. um að svara skýrt.

Það er alveg ljóst að samkv. efnahagslögunum, nr. 13 frá 1979, eiga að koma hér til framkvæmda raunvextir, þ.e. að vextir séu jafnháir verðbólgustigi, um áramótin 1980–81 eða um næstu áramót. Það er alveg ljóst, að verði ekkert gert er Seðlabankanum skylt, hvað sem mönnum annars finnst um þá ráðstöfun, að hækka vexti — hv. þm. Geir Hallgrímsson nefndi tölu — um 10–12%. Það yrði til þess að ákvæðum þessara laga væri fylgt. Þetta er alveg ljóst og alveg skýrt. Frá þessu verður ekki horfið nema ríkisstj. gefi út lög eða kalli þing saman milli jóla og nýárs. Ég spyr því forsrh. skýrrar og beinnar spurningar: Ætlar ríkisstj. að hafast ekki að, láta þá svokölluð Ólafslög koma til framkvæmda, eða ætlar hún að svíkjast aftan að sparifjáreigendum á dögunum milli jóla og nýárs og arðræna þá, eins og hún raunar hefur verið að gera hingað til? Sparifjáreigendur í landinu, sem flestir hverjir eru fullorðið fólk, eins og nýjar tölur sýna, eiga heimtingu á að hæstv. forsrh. svari þessari spurningu: Ætlar ríkisstj. að láta 33. gr. efnahagslaganna koma til framkvæmda eða ætlar hún á síðustu stundu að svíkjast aftan að sparifjáreigendum í þessu landi? Menn eru að gera, allir einstaklingar, fullorðið fólk sem aðrir, sínar fjármálaáætlanir fyrir sitt persónulega efnahagslíf. Þetta fólk á heimtingu á að fá svör við þessu. Það liggur einhvern veginn í loftinu vegna hótana hæstv. forsrh. í útvarpinu að slík lög verði sett og þá jafnvel lög af þessu tagi. Sparendur í landinu eiga heimtingu á því, að þessu sé svarað skýrt og afdráttarlaust: Er von á lögum af þessu tagi eða er ekki von á lögum?

Við setjum brbl. þegar brýna nauðsyn ber til. Hins vegar á það að vera svo, að það sé löggjafarvaldið sem setji lög og framkvæmdavaldið sem framkvæmir. (ÓRG: Hvaða brbl. setti þm. þegar hann var dómsmrh.?) Það var um kosningar 2. og 3. des., brýn nauðsyn, hv. þm. En það, sem hér skiptir máli, er hvort lög af þessu tagi verða sett.

Auk þess má bæta því við, að núv. ríkisstj. styðst við tæpan meiri hluta. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur lýst því yfir, að fari Gervasoni úr landi sé hún þar með orðin stjórnarandstæðingur. Þar með er tala stuðningsmanna ríkisstj. komin niður í 31. Svo vel þekki ég hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að ég veit að hún er „prinsipkona“ sem stendur við sín orð. Engin ástæða er til að ætla annað. En það er þó af öðrum toga.

Ég krefst þess og fullyrði að sparifjáreigendur eiga á því heimtingu að vita: Verða slík lög sett eða verða þau ekki sett? Þessu verður hæstv. forsrh. að svara og honum er óleyfilegt að vera með útúrsnúninga um þessi efni.

Brbl. setjum við þegar brýna nauðsyn ber til, eins og orðað er í stjórnarskrá. Ég spyr: Er það brýn nauðsyn að Alþingi fari í mánaðarfrí? Af hverju fara hv. þm. í svona langt frí? Skólabörn í landinu fara aftur í skóla 5. eða 6. jan. og því skyldu þm. hafa lengra leyfi en skólabörn í landinu? Ég segi fyrir mitt leyti að ég er fullkomlega tilbúinn að mæta hér þegar í stað milli jóla og nýárs ef á þarf að halda eða strax eftir nýár til að vinna þau verk sem ég hef verið kjörinn til: að setja lög í landinu. Ríkisstj. á ekki að setja lög. Það gerir löggjafarvaldið nema sérstaklega standi á, nema sérstakt neyðarástand sé. Þetta er hinn eiginlegi skilningur sem mönnum ber að leggja í stjórnarskrána.

Allt um það, þetta eru almennar vangaveltur. Ég krefst þess, að hæstv. forsrh. svari um vaxtamálin. Er hann sömu skoðunar og ég, að lagaákvæðin séu skýr og Seðlabankanum beri að fara eftir þeim? Ef svo er, ætlar hann sér þá að svíkjast aftan að sparifjáreigendum á síðustu stundu og arðræna þá eina ferðina enn?