12.12.1980
Sameinað þing: 33. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Vinnubrögð manna eru misjöfn og ég sé ekki að það sé ástæða til þess fyrir okkur framsóknarmenn að fara að svara fyrir forsrh. þegar menn eru að yrða á hann. Við erum ekkert að blása hér í ræðustólnum að óþörfu. Við teljum að það vinnist ekki verulega með umr. eins og hér hafa farið fram í dag. Við viljum stemma stigu við verðbólgunni, þessari brjálæðislegu verðbólgu sem hrjáir okkur. Það er unnið að því í ríkisstj. að finna ráð til þess að gera það. Sum eru fundin, önnur ekki. (Gripið fram í: Hver eru fundin?) Það kemur í ljós. — Við treystum því, að þessi vinna beri þann árangur sem til þarf og við viljum spara allar yfirlýsingar fram að þeim tíma.

Menn eru tortryggnir og halda að nú sé kannske ekki óhætt að halda jólin af því að skeð gæti að ríkisstj. ryki til og setti einhver ósköp af brbl. á meðan. Auðvitað verður hver ríkisstj. að hafa vald til að setja brbl. Hún verður að hafa þann rétt sem til þess þarf. En það er mjög óskynsamlegt að mínum dómi af ríkisstj. á hverjum tíma að vera að beita því valdi að þarflausu, beita því valdi nema endilega megi til. Við þurfum ekki að tortryggja stjórnarandstöðuna þannig að við getum ekki komið frá lagasetningu hér í þinginu. Ég held að við verðum að lita svo á, að í stjórnarandstöðu séu góðviljaðir, skynsamir og þjóðhollir menn, a.m.k. að mestu leyti, og við hljótum að gera ráð fyrir að þeir taki undir góð ráð sem við komum til með að leggja til mála hér.

Það er gott samstarf í þessari ríkisstj. og miklu betra samstarf en t.d. í þeirri ríkisstj. sem mynduð var hér 1978. Við erum ekkert að reyna að hafa skóinn hver niður af öðrum og við erum ekkert að hrópa hver að öðrum að þarflausu. (SighB: Framsóknarmenn hafa nú ekkert verið ánægðir, ekki satt?)

Það kom hér fram hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefði með einhverjum aths. „lokað kokinu á,“ eins og hann orðaði það, tveimur ráðh. Framsfl. Það vill nú svo til að við framsóknarmenn viljum hafa gott og elskulegt samstarf og höfum það líka við hv. 11. þm. Reykv., Ólaf Ragnar Grímsson, en við kippum okkur ekkert upp við það, og þaðan af síður að hann loki neitt á okkur kokinu sérstaklega, þó að hann reki aðeins upp hljóð öðru hvoru. Okkur þykir það svo sem ekkert betra, en við metum það svona eins og þakleka.