13.12.1980
Sameinað þing: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

1. mál, fjárlög 1981

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Á sama tíma og tugir fiskihafna í landinu eru í algeru fjársvelti og vandræðaástand hefur skapast þar tel ég rangt að taka ákvörðun um hafnargerð á Blönduósi. Í fyrsta lagi tel ég að þessum fjármunum sé betur varið til hafnargerða á öðrum stöðum, t.d. á Sauðárkróki, sem þetta fjármagn er tekið frá, þar sem er mikil útgerð, eða á öðrum stöðum í þessu kjördæmi.

Það má enginn taka orð mín á þann veg, að ég sé á móti uppbyggingu á Blönduósi. Blönduós er fyrst og fremst þjónustumiðstöð og mjög heppileg iðnaðarmiðstöð og Alþingi á vitaskuld að standa með þessum stað í þeirri uppbyggingu. Þessir fjármunir verða ekki Blönduósi að neinu gagni, því að hér er um milljarðaframkvæmd að ræða. Það er rangt að þm. í einhverju ákveðnu kjördæmi geti þannig skuldbundið Alþingi langt fram í tímann. Ég vil ekki sættast á röksemdir hv. 5. þm. Vestf. í þeim efnum. Ef þm. Suðurlands kæmu sér saman um þá vitlausu tillögu að byggja höfn á Selfossi tel ég ekki ástæðu til þess fyrir aðra alþm. að taka undir slíka tillögu.

Ég tel að hér sé tekin mjög stefnumarkandi ákvörðun. Það er ekki eingöngu um þá peninga að ræða, sem hér er verið að færa til, sem koma Blönduósi að engu gagni á næsta ári, heldur þá stefnumörkun að byggja upp höfn fyrir nokkra milljarða. Ekki á að svo stöddu að fara út í slíkar framkvæmdir á meðan í fiskihöfnum í landinu er meira eða minna ólokið við verkefni sem er brýn nauðsyn að vinna. Því segi ég nei.