27.10.1980
Efri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur verið sagt um það mál, sem hér er til umr., að það muni vera eitt helsta mál sem þetta þing tekur til meðferðar, og ég hygg að það sé rétt, því að svo mikilvægt er þetta mál og ætti öllum að koma saman um það.

Ég ætla ekki að fara að halda inngangsræðu um mikilvægi flugsins eða sögu flugsins eða um sumt af því sem mikið hefur verið rætt um á síðustu dögum og vikum og fram hefur komið m.a. í umr. í hv. Sþ. sem enn standa yfir um skýrslu samgrh. um þetta mál. Ég hygg að það varði nú mestu, að við leggjum áherslu á að þetta mál fái sem skjótasta afgreiðslu. Ég hygg að það fari ekki á milli mála, að það sé mjög veigamikill þáttur í lausn þessa máls að við notum tímann vel og gerum það sem unnt er til þess að ná þeirri lausn eða niðurstöðu í þessu máli sem það krefst.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að fara að flytja hér inngangsræðu um mikilvægi flugsins. Auðvitað liggur það í augum uppi, hve þýðingarmikið flugið er í okkar atvinnulífi og samgöngumálum. Það liggur einnig í augum uppi, að starfsemi Flugleiða og áður Loftleiða og Flugfélags Íslands er með þeim hætti, að við allir Íslendingar hljótum að líta með nokkru stolti til þess. En nú ber þetta mál að vegna þess að miklir rekstrarerfiðleikar steðja að hjá Flugleiðum. Það eru margar ástæður fyrir því og ekki síst, eins og hefur komið fram í umr. um þetta mál, sú gífurlega hækkun sem hefur orðið á eldsneyti til flugvéla. En þessir rekstrarerfiðleikar Flugleiða varða ekki einungis Atlantshafsflugið eða utanlandsflugið, heldur hljóta þeir einnig að varða innanlandsflugið, og svo mikilvægt sem utanlandsflugið er, þá er öllum ljóst að ekki er innanlandsflugið síður mikilvægt. Af þessu verður séð hve mikilvægt og víðfeðmt þetta mái er.

Þessir rekstrarerfiðleikar, sem hafa steðjað að hjá Flugleiðum, eru þess eðlis, að fyrirtækið komst að þeirri niðurstöðu á s.l. sumri að það væri ekki rekstrargrundvöllur undir framhaldi flugsins frá Lúxemborg til Ameríku, og vegna þess að félagið taldi að það væri ekki rekstrargrundvöllur taldi það ekki önnur úrræði en að hætta þessum rekstri. Þannig stendur málið þegar ríkisstj. kemur til skjalanna.

Hvað er það sem ríkisstj. segir? Hún leggur áherslu á mikilvægi Ameríkuflugsins og segir í raun og veru að allt verði að gera sem unnt er til þess að koma í veg fyrir að það leggist niður. Og ríkisstj. býður Flugleiðum aðstoð í þessu efni. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir ræða þessi mál og vega og meta hvað gera skuli og hvað hæstv. ríkisstj. leggur til í þessu máli.

En það er ekki einungis ríkisstj. Íslands sem hér kemur við sögu, heldur og ríkisstj. Lúxemborgar. Lúxemborgarmenn hafa svo mikilvægra hagsmuna að gæta vegna Ameríkuflugs Flugleiða, að þeir vilja fyrir sitt leyti leggja nokkuð af mörkum til þess að koma í veg fyrir að þessi rekstur verði lagður niður. Svo mikilvægt er þetta mál, að það eru tvær ríkisstj. sem telja að þær verði að gera allnokkuð til þess að koma til aðstoðar. En þegar þetta mál er svo mikilvægt sem raun ber vitni um, þá stingur nokkuð í augu sá seinagangur sem hefur verið hjá hæstv. ríkisstj. í þessu máli.

Það er í ágúst sem Flugleiðir taka ákvörðun um að leggja flugið niður. En ríkisstj. tekur ekki ákvörðun í málinu fyrr en 16. sept. Það er 16. sept. sem ríkisstj. gerir samþykkt varðandi þetta mál, þar sem tekið er fram hvað hún vill gera til aðstoðar Flugleiðum. Í skýrslu samgrh. um Flugleiðir er í skjali því, sem hæstv. samgrh. undirritar ásamt viðskrh. Lúxemborgar, vitnað til þess, að Lúxemborgarmenn standi við það sem þeir hafi lagt til þegar 27. júní s.l. En þetta plagg er undirritað 18. sept., að loknum umræðum þessara ráðh., eða tveim dögum eftir að samþykkt ríkisstj. er gerð. En það er ekki nóg með þetta. Það líða 10 dagar frá því að Alþ. er sett og þar til borið er fram frv. það sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., — 10 dagar. En ekki nóg með það. Þessu frv. var útbýtt fyrir viku, s.l. mánudag, og ekki er einu sinni lokið 1. umr. um það.

Þetta væri ekki í frásögur færandi ef menn væru á þeirri skoðun, að hér væri um lítt mikilvægt mál að ræða og það skipti ekki máli, hvort því væri hraðað eða ekki. Ef menn eru á þeirri skoðun, þá er ekkert við þennan málatilbúnað að athuga.

En er það svo, að hæstv. ríkisstj. sé á þessari skoðun? (Fjmrh.: Já.) Það á kannske eftir að koma betur í ljós við meðferð þessa máls.

En það er ekki nóg með þetta, heldur er það sumt annað sem stingur nokkuð í augu þegar litið er á þetta mál. Nú liggur það fyrir, að Lúxemborgarmenn, ríkisstj. Lúxemborgar, hefur ákveðið að aðstoð Lúxemborgar sé fólgin í því tvennu: í fyrsta lagi að gefa eftir lendingargjöld og í öðru lagi að greiða beint sem fjárhagslegan styrk til Flugleiða 3 millj. Bandaríkjadala frá 1. okt. þessa árs til jafnlengdar næsta árs. En samkv. frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að ríkissjóður Íslands gefi eftir lendingargjöld og önnur hliðstæð gjöld, en veiti engan beinan fjárhagslegan styrk til Flugleiða. (Gripið fram í.) Peninga, já peninga. Ég sagði að þetta styngi dálítið í augu.

Enn eitt atriði vil ég nefna. Í samþykkt ríkisstj. frá 16. sept. s.l. er gert ráð fyrir að ríkissjóður veiti í þrjú ár bakábyrgð sem nemi allt að 3 millj. Bandaríkjadala á ári til Flugleiða, — 3 millj. Bandaríkjadala á ári hvert ár í þrjú ár. Í þessu frv. er gert ráð fyrir aðstoð af hálfu íslenska ríkisins einungis til eins árs. Ég vek nú þegar athygli á þessu.

Það væri hægt að halda áfram og benda á ýmis dæmi um málsmeðferð sem kemur a.m.k. við fyrstu sýn nokkuð spánskt fyrir augu. Ég ætla ekki að halda áfram að nefna þessi dæmi, en get þó ekki stillt mig um að minnast á eitt enn, og það er mál sem varðar leyfisveitingu til Iscargo með flug fyrir augum til Amsterdam. Þetta mál á ekki að vera hv. þm. ókunnugt, vegna þess að þeir hafa allir fengið í hendur afrit af bréfi frá stjórn Flugleiða til Steingríms Hermannssonar, samgrh., og þetta bréf er dags. 21. okt. Þetta bréf er ítarlegur rökstuðningur stjórnar Flugleiða fyrir því, að það sé röng ákvörðun af hálfu stjórnvalda að veita þetta flugleyfi. Í þessu sambandi er bent á mörg atriði sem bréfritari telur vera þessu til stuðnings. Það er t.d. minnt á það, að það hafi verið forsenda á sínum tíma fyrir sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands, að hið nýja sameinaða félag ætti kost á öllum flugleiðum til og frá landinu á sama hátt og hafði tíðkast áður um Loftleiðir og Flugfélag Íslands. Segir í þessu bréfi með leyfi hæstv. forseta — um þetta efni:

„Bréf samgrh.“ — þ.e. bréf sem þáv. samgrh. ritaði — „var lesið upp á hluthafafundum beggja félaganna og var ein af meginforsendum fyrir sameiningu félaganna.“

Í þessu bréfi segir að þessi leyfisveiting til Iscargo gangi þvert á þá stefnu sem mörkuð hafi verið með sameiningu flugfélaganna. Þá er í þessu bréfi bent á þá staðreynd, að smæð íslenska markaðarins sé slík, að ef sinna eigi reglubundnu áætlunarflugi milli Íslands og annarra landa sé það bjargföst skoðun stjórnar Flugleiða, að einungis einn aðili eigi að hafa til þess leyfi. Í þessu sambandi er bent á að þetta sé ekkert einsdæmi fyrir okkur Íslendinga, það sé svo í öðrum löndum, sem helst koma til samanburðar við okkur Íslendinga, að þar eru einum og sama aðilanum ætlaðar flugsamgöngur við útlönd. (StJ: Hvað um frjálsa samkeppni?) Í því sambandi er bent á að Luxair hafi þá aðstöðu í Lúxemborg, Air Lingus í Írlandi, Sabena í Belgíu, KLM í Hollandi, Swissair í Sviss, Austrian Airlines í Austurríki, og þeir segja að svo mætti lengi telja. (StJ: Hvað um frjálsa samkeppni?) Já, hvað um frjálsa samkeppni? Við skulum ekki láta merki frjálsrar samkeppni falla. Ég vil segja það við hv. þm. Stefán Jónsson, að það er einmitt spurningin um það, hvort merki frjálsrar samkeppni fellur, hvort starfsemi eins og Flugleiða heldur velli eða ekki. Og við skulum sjá, Stefán Jónsson og aðrir áhugamenn um frjálsa samkeppni, hvað okkur er fært að gera í þessu efni. En víkjum aftur að bréfinu. Vinur Carters var að kalla fram í hér, en ég kýs að láta Carter liggja milli hluta þegar ég er að skýra bréf Flugleiða. ( RG: Það er nú erfitt.) Það er erfitt, segir hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, það kann að vera að Carter sé honum svo hugfanginn, en hann er ekki mér svo hugfanginn.

Í bréfi stjórnar Flugleiða er minnt á það, hvert skipulag þessara mála er á Norðurlöndum, minnt á SAS og starfsemi SAS og að það eru þrjú þjóðlönd sem standa að því eina flugfélagi.

Þá er bent á í þessu bréfi, að ef Iscargo taki upp þetta flug til Amsterdam þurfi að kaupa nýja flugvél í því skyni. Og það er álit stjórnar Flugleiða, að það sé kyndug ráðstöfun, ef við ætlum okkur nú að fara að kaupa flugvél í þessu skyni á meðan Flugleiðir sitja uppi með flugvélar sem ekki er hægt að selja í bili. (StJ: Hvað með flugsamkeppni?) Ég skal ekki rekja bréf stjórnar Flugleiða frekar, en vil — með leyfi hæstv. forseta lesa lokaorð bréfsins. Þau hljóða svo:

„Að öllu samanlögðu er það mat félagsins, að hér sé um mjög varhugaverða þróun að ræða, sem á engan háu geti farið heim og saman við þá stefnu sem uppi hefur verið varðandi skipan áætlunarflugs milli Íslands og annarra landa. Sérstaklega ber að undirstrika, að á þessum tíma, þegar félagið á í erfiðleikum og verið er að gera alvarlega tilraun til þess að viðhalda umfangsmikilli starfsemi félagsins, hlýtur ákvörðun sem þessi að vera mjög neikvæð á allan hátt, eins og rakið hefur verið hér að framan.“

Nú ætla ég mér ekki að gerast dómari í þessu máli, og ég er ekki að rekja þetta hér vegna þess að ég telji mig færari um að meta rök með og móti í málinu en ýmsir aðrir. En ég er að benda á þetta vegna þess að mér þykir það alvarleg tíðindi, að stjórn Flugleiða, sem ríkisstj. hefur lofað stuðningi til þess að leysa tiltekin vandamál, segir að ráðstöfun, sem hæstv. ríkisstj. er að gera á sama tíma og hún segist vera að vinna fyrir Flugleiðir, valdi Flugleiðum erfiðleikum og að þetta sé mjög neikvætt á allan hátt fyrir starfsemi Flugleiða. Hvað er hér að gerast? Ég held að það verði að koma einhverjar skýringar fram af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessu máli.

Við skulum þá víkja beint að frv. því sem hér liggur fyrir.

Hæstv. fjmrh. flutti framsögu fyrir því s.l. miðvikudag. Fjmrh. sagði þá, þegar hann var að skýra 1. gr. frv.: „Tilhögun á þessu er í flóknara lagi og má til sanns vegar færa.“ Ég verð að segja það, að mér fannst þetta vera það besta sem hæstv. fjmrh. sagði í þessari ræðu, því að mér fannst að hæstv. ráðh. legði sig ekkert sérstaklega fram um að gera mál þetta, sem frv. fjallar um, sem einfaldast og skýranlegast. Ekki efaðist ég þó um að svo færum manni sem hæstv. fjmrh. væri það ekki í lófa lagið ef hann legði áherslu á það. Ég ætla ekki hér að fara að lesa upp 1. gr. frv. af því að ég veit að hv. þm. hafa það fyrir framan sig og hafa sjálfsagt lesið. En þegar ég var búinn að lesa það, þá spurði ég mig: Hvað þýðir þetta? Og þá fann ég út að efnið væri þetta: Ríkisstj. er heimilt að gefa eftir lendingargjöld og leigugjöld af Norður-Atlantshafsflugi frá 1. okt. 1980 til 30. sept 1981 allt að 3 millj. Bandaríkjadala eða jafnvirði þess í íslenskum krónum. — Þegar ég var búinn að lesa alla þessa lengju, sem er í 1. gr., fékk ég út að þetta væri raunverulega það sem um væri að ræða, að ríkisstj. fengi heimild til þess að gefa eftir lendingargjöld og leigugjöld, það væri það sem um væri að ræða. Það er einfalt að segja þetta, en hæstv. ríkisstj. hefur sína aðferð til þess.

Í 2. mgr. 1. gr, er tekið fram að gjöld þau, sem á að gefa eftir, eigi félagið að greiða á réttum gjalddaga, eins og þar stendur. Þau á að greiða á réttum gjalddaga, en síðan á aftur að greiða til félagsins sömu upphæð. Þegar þetta er skoðað niður í kjölinn, þá held ég að á einfaldri íslensku þýði þetta að það eigi að gefa eftir lendingar- og leigugjöldin. (Fjmrh.: Það er aðalatriðið.)

Hæstv. ráðh. vék að láninu og ég ætla nú einnig að koma að því. Það er talað um í 1. mgr., að ríkisstj. sé heimilt að veita Flugleiðum sjálfskuldarábyrgð á láni. Hæstv. ráðh. sagði: Það er veitt lán. — Jú, það verður einhver að veita lánið ef á að veita ábyrgðina. En ríkissjóði er samkv. þessari grein ekki ætlað að veita tánið, honum er ætlað að veita ríkisábyrgð. Ég var að tala um það, hvað ríkisstj. væri að gera, en ekki aðrir. En í framhaldi af þessu: Liggur það fyrir hvaða lán þetta er? Liggur það fyrir hver er lánveitandinn? Hæstv. ráðh. getur sjálfsagt skýrt nánar frá því.

En við erum ekki lausir við 1. gr. frv. enn þá, því að ég hef ekki vikið að 3. mgr. 1. gr. og hún fjallar um uppgjör. Þar er talað um uppgjör á þessu öllu saman. Það er talað um hlutdeild ríkissjóðs, en ekki er ákveðið hver hlutdeild ríkissjóðs skuli vera. Það segir einungis í 3. mgr. 1. gr., að gerð skuli till. í fjárlagafrv. um hlutdeild ríkissjóðs í uppgjörinu. Það er nokkuð vel til fundið að setja löggjöf um hvað eigi að gera till. um í fjárl. En till. við afgreiðslu fjárlaga er nú ekki allt í þessu efni. Það liggur ekki fyrir að sú till. verði samþ. Það er aldrei vitað um örlög einnar till. fyrr en búið er að afgreiða hana. Þetta hljótum við að vera sammála um. Ef það er átt við með þessu orðalagi og ef það er alvara að ríkið taki á sig þá hlutdeild sem verið er að tala um hér, þá væri miklu einfaldara og alveg sjálfsagt að orða þetta einfaldlega á þá leið, að að því marki, sem tap verður á umræddum rekstri, skal ríkissjóður greiða lán tekið skv. 1. mgr. Ef þetta er orðað eitthvað í þessa átt, þá skilja menn a.m.k. við hvað er átt. Það hlýtur að vera þýðingarmeira, að í lögum standi að ríkissjóður skuli taka á sig hlutdeild, heldur en það eigi að gera till. um það við fjárlagagerð fyrir árið 1982, eins og segir hér.

Þetta frv. og þessi 1. gr. er þess eðlis, að það er eðlilegt að það vakni ýmsar spurningar. Hvers vegna er þessi grein sett svo upp sem raun ber vitni um? Hverju þjónar það að hafa þessa grein svo óskýra? Ég læt mér ekki koma til hugar, að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið þess umkominn að orða þessa grein skýrar og þannig að enginn vafi væri á í sumum tilfellum hvað hún þýddi. Annaðhvort er hér um að ræða einhver sérstök mistök eða þá að einhver beinn tilgangur er í því að leggja fram svo óvenjulega lagagerð.

Það, sem ég hef nú sagt, varðar 1. gr. frv.

Í 2. gr. frv. er ríkisstj. heimilað að auka hlutafjáreign ríkissjóðs í Flugleiðum í allt að 20% hlutafjár. Mér fannst hæstv. fjmrh. fara fljótt yfir sögu hvað þetta varðar í framsögu fyrir frv. En hér er að sjálfsögðu um mikið mál að ræða, hvernig sem litið er á það. Það er í fyrsta lagi mikið mál, hvort á að auka ríkisrekstur á þessu sviði eða ekki. Hæstv. ráðh. vék ekkert að því, hver væri skoðun hans í þessu efni eða hver væri skoðun annarra hæstv. ráðh. eða hvort þeir væru allir á sömu skoðun í þessu efni. Það er líka spurning um það, burt séð frá þessu stóra „prinsip“-atriði, hvaða þýðingu aukning á hlut ríkissjóðs hefur til þess að leysa úr þeim vanda sem Flugleiðir nú eru í.

Í skýringum með 2. gr. frv. er greint frá því, að búið sé að samþykk ja að auka hlutafé Flugleiða um 560 millj. kr. Það er tekið fram, að heimildin mundi fela í sér að ríkissjóður gæti aukið hlutafé um tæpar 536 millj. kr. Það segir ekki í skýringum með frv. að ríkissjóður ætli að gera þetta. Mér virðist að það verði ekki litið á þetta mál nema í nokkrum tengslum við 5. gr. frv., því að þar er gert ráð fyrir að ríkisstj. geti sett það skilyrði, að áhrif starfsfólks á stjórn fyrirtækisins verði aukin með sölu hlutabréfa. Og hvað er nú það, sem ríkisstj. ætlar að leggja mesta áherslu á í þessu efni? Ég kem nánar að 5. gr. frv.

Um 3. gr. frv. er það að segja, að það liggur ljóst fyrir hvað við er átt með henni og þarf því ekki að fjölyrða um það.

Með tilliti til þess, sem ég hef áður sagt um mikilvægi þess að flýta þessu máli, vil ég leggja áherslu á það að ég held að hæstv. fjmrh. verði t;ú að taka á stóra sínum og sjá um að ekki líði margir dagar þar til fyrir liggur mat á eignum Flugleiða þannig að ljóst liggi fyrir hvað verður um þessa heimild. Þessi heimild eða það mál, sem hana varðar, er víðtækara en aðstoðin vegna utanlandsflugsins, Ameríkuflugsins, vegna þess að mér virðist að það sé nauðsynlegt að leysa þann vanda, sem ábyrgðin skv. 3. gr. á að leysa, bæði vegna utanlandsflugsins og innanlandsflugsins.

Ég kem þá að 4. gr. frv. og skal verða fáorður um hana. Þar segir í upphafi, að ríkisstj. sé heimilt að fella niður ógreidd lendingargjöld Flugleiða hf. á Keflavíkurflugvelli af Atlantshafsfluginu fram til 1. okt. 1980. Nú hygg ég að það sé rétt, að Flugleiðir hafi verið búnar að greiða þessi gjöld fram í ágústmánuð s.l., en það á ekki að gefa eftir nema þau gjöld sem eru ógreidd. Ég hygg að það sé líka rétt, að Lúxemborg gefi eftir sín lendingargjöld fyrir allt árið. En samkv. þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður Íslands geri slíkt. Ég vek athygli á þessu. (Fjmrh.: Um hvaða ár er þm. að tala?) 1980. (Fjmrh.: Það hefur ekkert verið greitt af lendingargjöldum á þessu ári.) Af hálfu ríkissjóðs? (Fjmrh.: Já.) Ekkert, já. Ég vil ekki deila við hæstv. ráðh. um þetta. Ég vík aðeins að þessu. Þetta er ekki höfuðmál, en mér hefur verið tjáð, að greiðslur hafi farið fram fram í ágúst. (Fjmrh.: Það er misskilningur.) Er það kannske fram í ágúst 1979? (Gripið fram í.) 1979, já. Þetta upplýsist, og ef þetta er á einhvern hátt betra en mér virtist, þá samgleðst ég sannarlega hæstv. fjmrh. í því efni.

En þá vík ég að 5. gr., — það mun sennilega vera prentvilla þar, vísað til 1. og 2. gr., á að vera 1. og 3. gr., — en þar er talað um skilyrði sem ríkisstj. getur sett fyrir ríkisábyrgðum skv. 1. gr. og skv. 3. gr. Og þar er talað um að setja skilyrði, þ. á m. að fyrirtækið standi skil á opinberum gjöldum og aukin verði áhrif starfsfólks á stjórn fyrirtækisins með sölu hlutabréfa. Orðalagið þ. á m. bendir til þess, að ríkisstj. hafi í huga ýmis skilyrði. Mér þykir nauðsynlegt, að áður en frv. þetta fær afgreiðslu frá d. liggi einhverjar upplýsingar fyrir um það, hver þessi skilyrði gætu hugsanlega verið hvers eðlis þau eru, hvort það gæti verið að slík skilyrði stöðvuðu allar aðgerðir hæstv. ríkisstj. til aðstoðar Flugleiðum í þessum efnum.

Það er eitt skilyrði hér, sem ég gat um áðan, að aukin verði áhrif starfsfólks á stjórn fyrirtækisins með sölu hlutabréfa. Hvað hugsar hæstv. ráðh. miklar aðgerðir í þessum efnum? Hugsar hann sér að það leiði til þess, að starfsfólk hafi meiri hl. í félaginu, og ef svo er, hvað þarf til þess? Og hugsar hæstv. ráðh. sér að það verði gert allt sem í valdi ríkisstj. stendur til þess að aðstoða starfsfólkið í þessu skyni? Margar fleiri spurningar koma upp í hugann í þessu efni, en ég skal ekki vera að tíunda þær sérstaklega.

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, taka það skýrt fram, að ég er algerlega sammála hæstv. ríkisstj. um að það beri að gera allt sem fært þykir til aðstoðar Flugleiðum, svo að þetta umrædda flug, Ameríkuflugið, leggist ekki niður. Ég skil það mjög vel, að í þessu efni þarf að hyggja að ýmsu, og deili ekki á slíkt. En ég hef með orðum mínum áður í raun og veru fundið að því, að ríkisstj. fari sér of hægt í þessu máli, og þarf ég ekki að endurtaka það sem ég áður hef sagt í þeim efnum. En áður en þetta mál verður afgreitt et nauðsynlegt fyrir okkur þm. að fá ýmsar upplýsingar frá hæstv. ríkisstj., frá hæstv. fjmrh., og því vil ég nú að lokum leyfa mér að gera nokkrar fsp. til hæstv. fjmrh.

Fyrsta spurning: Hvernig stendur á því, að ríkisstj. heitir í samþykkt sinni 16. sept. s.l. að veita Flugleiðum í þrjú ár bakábyrgð sem nemi allt að 3 millj. Bandaríkjadollara á ári, en í frv. þessu er talað um sjálfsskuldarábyrgð á láni sem nemi allt að 3 millj. Bandaríkjadollara til eins árs?

Önnur spurning: Telur ráðh. að það nægi að veita Flugleiðum aðstoð samkv. 1. gr. frv. í eitt ár? Ef svo et ekki, er ætlun hans að aðstoðin verði veitt samtals í þrjú ár, svo að það, sem gert er á fyrsta ári, verði ekki unnið fyrir gýg?

Þriðja spurning: Telur ráðh. það samræmast íslenskum hagsmunum, að Íslendingar veiti Flugleiðum minni aðstoð en Lúxemborg frá 1. okt. 1980 til 30. sept. 1981 ?

Og fjórða og lokaspurningin er þessi: Er það stefna hæstv. ráðh., að hlutafjáreign ríkissjóðs verði aukin í 20% af hlutafé Flugleiða? Ef svo er ekki, ætlar ráðh. að veita heimild 2. gr. frv. aðeins að því marki sem ekki tekst að auka hlutafé félagsins með sölu hlutabréfa til starfsfólks fyrirtækisins og annarra einkaaðila?

Ég vænti þess, að hæstv. fjmrh. gefi okkur svör við þessum spurningum og upplýsi raunar margt annað sem betur þarf að upplýsa í þessu máli.