15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1440)

6. mál, söngmálastjóri og Tónskóli þjóðkirkjunnar

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. menntmn. um frv. til l. um söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar. Menntmn. hefur tekið frv. til athugunar og leggur til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem prentaðar eru á þskj. 232. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja eða fylgja sérstökum brtt. sem fram kunna að koma. Fjarverandi afgreiðslu málsins í nefndinni voru Halldór Blöndal og Friðjón Þórðarson.

Þær brtt., sem nefndin gerir, eru fjórar.

Við 1. gr. gerir nefndin ekki brtt., en ræddi eitt orð sem kemur fyrir í 1. gr. frv., þ.e. orðið „lltúrgía“. Okkur þótti strax svolítið erfitt að sætta okkur við það, að þegar lesin eru íslensk lög verði nærri því að byrja á að grípa til orðabókar í erlendum málum og leita þar að þýðingu orðsins. Þó varð niðurstaðan sú eftir mikla leit, m.a. til málvísindamanna, en þeir gátu ekki gefið okkur haldgóð ráð um fullkomna þýðingu þessa orðs, að gera ekki tillögu um þýðingu á orðinu. En ég bið menn að líta til þessa orðs í framtíðinni og álít að síðar verði að fá gott orð í staðinn fyrir þetta erlenda orð. En þar verður að vanda meira til og kannske sýna meiri snilli heldur en okkur tókst. Við gerum ekki till. til breytinga þarna, en bendum á að þarna er breytinga þörf.

2. gr, frv. er óbreytt frá okkar hendi, en við 3. gr. gerum við aths. Þar stendur: „Heimilt er ráðh. að fengnum tillögum söngmálastjóra og biskups Íslands að ráða tvo menn til aðstoðar söngmálastjóra við raddþjálfun og söngkennslu.“ Við vorum sammála um að það væri óeðlilegt, þegar verið væri að tala um skóla, að ákveða í lögum hversu margir kennarar ættu að vera við skólann. Þess vegna gerum við till. um það, að fjöldi kennaranna verði ekki ákvarðaður í lögum, heldur ráði þróun skólans og fjárveitingar til hans fjölda kennara.

Við gerum einnig þá brtt. við 4. gr. frv., þar sem talað er m.a. um hverjum hljóðfærum skólinn skuli vera búinn, að ekki sé ákvarðað í lögum hver tækjakostur skólans eigi að vera, heldur hljóti að vera eðlilegt að þar ráði þörf og fjármunir hverju sinni. Því gerum við að till. okkar, að þar sem talað er um pípuorgel og píanó falli þau orð niður, þó að við gerum okkur hins vegar grein fyrir því, að þetta munu þykja sjálfsögð tæki í skóla sem slíkum.

Í 4. gr. kemur síðan aftur fyrir orðið „litúrgía“ sem ég var að tala um áðan.

Við gerum einnig brtt. við 5. gr. frv., en þar segir: „Þeir, sem æskja inngöngu í Tónskóla þjóðkirkjunnar, skulu hafa hæfileika til tónlistarnáms.“ Okkur þótti það ekki viðeigandi, ef menn sækja um skólavist einhvers staðar, að það skuli ákveða fyrir fram, að þeir skuli hafa hæfileika til námsins, heldur hljóti það að koma á daginn hvernig þau mál þróast.

Við 7. gr. gerum við svo loks till. um að hún falli burt, en í frv. hljóðar hún þannig: „Störf organista skulu tengd tónlistarkennslu, þar sem því verður við komið.“ Okkur þótti óþarft að setja þetta í lög. Þar væri verið að tala um að ákvarða það, að nemendur frá þessum skóla væru ákvarðaðir í einhvern tónlistarskóla. Okkur þykir líklegt að þróunin á hverjum stað leiði í ljós hvort það þyki æskilegt í hinum ýmsu tilfellum, að þessir menn taki að sér kennslu, en lögin taki ekki afstöðu til þess. Af þessu leiðir það ef 7. gr. er felld brott, að 8. gr. verður 7. gr.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en legg til að málinu verði að umr. lokinni vísað til 3. umr.