15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

75. mál, verðlag

Flm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Frv. á þskj. 81, 75. mál þingsins, um breytingu á lögum nr. 56 frá 16. maí 1978, um verðlag og samkeppnishömlur, er flutt ásamt mér af þeim hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, Matthíasi Bjarnasyni og Albert Guðmundssyni.

Frv. þetta var flutt í Ed. á síðasta þingi og var þá vísað til hæstv. ríkisstj., sem enn hefur ekki gert neinar tillögur til breytinga á núverandi skipan verðlagsmála.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar á undanförnum áratugum til að koma verðlagsmálum hérlendis í viðunandi horf, þannig að hér verði starfað samkv. svipuðu fyrirkomulagi og gert er í nágrannalöndunum. Sjálfstfl. og Alþfl. stóðu að svokölluðu Sonne-frv. 1969, en klofningur í ráðherraliði Alþfl. leiddi til þess, að ekki varð úr þeirri fyrirætlun. Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, sem í áttu sæti m.a. Gunnar Thoroddsen, hæstv. forsrh., og Ólafur Jóhannesson, hæstv. utanrrh., fékk hins vegar samþykkt frv. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, lög sem eru nr. 56/1978 og áttu að taka gildi í nóv. 1978, en gildistökunni var frestað í eitt ár vegna skorts á undirbúningi við breytingarnar.

Formaður fjh.- og viðskn. Ed. árið 1978 var Jón Helgason, núv. hæstv. forseti Sþ., sem var frsm. fyrir nál. og sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í 1. gr. frv. er markmið og gildissvið laganna skilgreint þannig, að þau hafi það markmið að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og sanngjarnri skiptingu þjóðartekna með því að

a) vinna gegn ósanngjörnu verði og viðskiptaháttum,

b) vinna gegn óréttmætum viðskipta- og samkeppnisháttum svo og samkeppnishömlum, sem hafa í för með sér skaðlegar afleiðingar fyrir neytendur, atvinnurekendur og þjóðfélagið í heild.

Til þess að ná þessum tilgangi koma síðan í frv. margvísleg nýmæli, sem eiga að stuðla að því að gera okkur kleift að koma hér á því verðlagskerfi er hentar best við okkar aðstæður. Það á að reyna að fá fram þá kosti, sem frjáls samkeppni um verðmyndun kann að geta skapað, án þess að taka þá áhættu, að afleiðingin verði gagnstæð, því að með öflugu eftirliti á að fylgjast með verðlagsþróuninni og grípa í taumana, ef ástæða verður til. Það er því alger firra að halda því fram, að með þessu frv. sé stefnt að því að gefa kaupsýslumönnum og milliliðum tækifæri til að skammta sér laun. Það á að gefa þeim tækifæri til að sýna kosti frjálsrar samkeppni fyrir neytandann, en misnoti þeir það hefur verðlagsráð víðtækar heimildir til aðgerða.“

Lýkur hér tilvitnun í ræðu hæstv. forseta Sþ., Jóns Helgasonar, en hann var frsm. og formaður hv. fjh.- og viðskn. Ed. þegar lögin gengu fram vorið 1978.

Eins og fram kemur í grg. á þskj. 81 hafa síðan verið samþykkt lög sem í raun gera verðlagslögin óvirk og færa öll völd í hendur ríkisstj. Núverandi ákvæði eru m.a. í 59. gr. Ólafslaga og reyndar í X. kafla þeirra laga öllum. Þar eru verðstöðvunarheimildir samkv. lögum nr. 121/1978 staðfestar. Ekki verður annað séð af umr. á Alþingi en að það sé aðeins einn stjórnmálaflokkur sem vill ríghalda í þessa fásinnu. Það er auðvitað Alþb. Sjónarmið þess náðu fram að ganga í Ólafslögum og núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki breytt um stefnu.

Fulltrúar Alþfl. á þingi hafa lýst yfir stuðningi við frjálsari verðlagningarreglur. Þar á meðal hefur hv. 2. þm Reykn. lýst yfir stuðningi við þessar hugmyndir í umr. í Ed. á síðasta ári. Hæstv. viðskrh. Tómas Árnason sagði í umr. í Ed. á s.l. vori m.a., með leyfi hæstv. forseta, í þessu máli:

„Ég fer ekkert leynt með það, enda liggur það fyrir í skjölum Alþingis, að ég var á sínum tíma fylgismaður hinna nýju verðlagslaga sem sett voru í maímánuði 1978, og ég hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum síðan. Hins vegar er það annað sem við verðum auðvitað allir að hafa í huga, og það er að við lifum við samsteypustjórnarfyrirkomulag. Við verðum að gera það upp við okkur, þegar við tökum þátt í stjórnarsamstarfi, hvað það er af stefnumálum okkar sem við viljum gefa eftir til að ná fram öðru sem við teljum þá e.t.v. meira virði. Ástæðan fyrir því, að ég stóð að breytingu á verðlagslögunum á árinu 1979, var sú, að það var liður í stjórnarsamstarfi sem ég átti þátt í. Það er sú skýring, sem ég gef á afstöðu minni þá.“

Til að ekki sé farið í grafgötur með skoðanir hæstv. ráðh. vil ég tilfæra örlítinn hluta úr ræðu sem hann flutti á aðalfundi Verslunarráðsins fyrr á þessu ári. Þar sagði hæstv. viðskrh. m.a., með leyfi forseta:

„Eins og kunnugt er voru hin nýju verðlagslög samþykkt á Alþingi í maí 1978, en tóku gildi í nóv. 1979. Þegar lögin voru fyrst samþykkt var hugmyndin með þeim að stefna meira og meira að frjálsræði í verðlagsmálum, en með þeim breytingum, sem gerðar voru á lögunum á árinu 1979, var anda þeirra því miður breytt í verulegum atriðum. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína, að frjálsari stefna í verðlagsmálum sé miklu líklegri leið til þess að lækka vöruverð í landinu heldur en aðhaldssöm prósentuálagningaraðferð. Ég þarf raunar ekki að gera grein fyrir þessari skoðun á þessum fundi, hún er augljós. Aðalástæðan er sú, að með prósentuálagningunni er kippt í burt vakningunni til þess að leggja aðaláhersluna á ódýr og hagkvæm innkaup. Auk þess stuðlar þessi prósenturegla að því að slæva verðskyn neytenda, þar sem treyst er á einhverja forsjá opinberra aðila, sem því miður er ekkert nema misskilin trúgirni.“

Undir þessi sjónarmið vil ég taka. Það er sem sagt ljóst, að framsóknarmenn standa með frjálsri verðlagningu í raun, þótt þeir hafi um sinn fallist á önnur sjónarmið til að ná fram sameiginlegri stefnu samsteypustjórnarinnar sem Ólafur Jóhannesson myndaði sumarið 1978.

En nú er komin ný ríkisstj. með nýjan málefnasamning, og ég veit að liðsaukinn í henni er sömu skoðunar og hæstv. viðskrh. í þessum efnum. Í 4. tölulið kaflans um verðlagsmál í málefnasamningnum segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Unnið verði að lækkun vöruverðs, m.a. með eftirtöldum aðgerðum:

a. Að efla samtök neytenda til þess að þau geti gegnt því mikilvæga verkefni að gera verðlagseftirlit neytendanna sjálfra virkt.

b. Að auka verðlagskynningu af opinberri hálfu.

c. Að haga verðlagsákvæðum þannig, að þau hvetji til hagkvæmra innkaupa.

d. Að greiða fyrir því, að unnt sé að lækka vöruverð með innkaupum í stórum stíl.

e. Að hin nýju verðlagslög komi til framkvæmda undir eftirliti verðlagsráðs, sem fái bætta aðstöðu til að gegna hlutverki sínu.“

Ég vek sérstaka athygli á síðasta atriðinu, því að það verður varla skilið á annan veg en þann, að hæstv. ríkisstj. ætli að breyta 8. gr. verðlagslaga í upphaflegt horf og fella úr lögum X. kafla Ólafslaga, ákvæðin sem ganga í aðrar áttir. Ég bið samt hæstv. viðskrh. að upplýsa mig og þingheim um það, hvort það sé ekki skilningur. Og þá kemur spurningin: Hvenær verður það gert? Á að bíða eftir því, að niðurtalningin hefjist eða henni ljúki, en eins og allir vita er sú leið aldeilis ófær. Og hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til að önnur atriði verðlagsstefnunnar næðu fram, eins og henni er lýst í 4. tölul. kaflans um verðlagsmál í stjórnarsáttmálanum? Ég hygg að hæstv. ríkisstj. hafi harla lítið gert, m.a. vegna þess að allur tími hennar fer í verðlagsákvarðanir. Hæstv. ríkisstj. er ekkert annað en yfirverðlagsstjórn. Hún rembist við að taka á afleiðingum verðbólgunnar með úrelta verðlagsstefnu að vopni, en situr að öðru leyti úrræða- og aðgerðalaus. Frá þessu eru þó örfáar undantekningar, eins og t.d. heimild til hækkunar á vörubirgðum annars vegar og að nú nýlega var varahlutaverslun gefin frjáls að nokkru marki.

Þegar viðreisnarstjórnin var mynduð á sínum tíma var opnuð leið til frjálsari viðskiptahátta á ýmsum sviðum. Ýmsir töldu slíkt fráleitt og spáðu því, að landið yrði gjaldþrota á skömmum tíma. Niðurstaðan varð á þveröfuga leið. Viðskiptalífið blómstraði og lífskjörin bötnuðu. Svo kom tími verðstöðvana sem í reynd hefur verið mesta verðbólgutímabilið frá upphafi. Þetta sjá allir nema fulltrúar Alþb., en samt eru þeir látnir ráða ferðinni. Viðhorf þess og völd í þessu máli sjást best þegar athuguð eru ummæli fyrrv. hæstv. viðskrh., Svavars Gestssonar. Hann sagði orðrétt, þegar gildistökunni var frestað fyrst, í ræðu 25. okt. t978 á Alþingi, með leyfi forseta:

„Það eru fleiri ástæður en tímafrekur undirbúningur sem mun leiða til þess, að lengja verður gildistökufrest þessara laga. Í samstarfsyfirlýsingu þeirra stjórnmálaflokka, sem mynda núv. ríkisstj., er kveðið á um að gildistöku 8. gr. laganna skuli frestað. Þá hefur athyglin beinst undanfarið að innflutningsversluninni vegna óeðlilega hás innkaupsverðs. Fer nú fram sérstök rannsókn á starfsháttum innflutningsverslunarinnar af þessu tilefni. Kann að reynast nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum í samræmi við niðurstöður rannsóknarinnar. Enn fremur verður til athugunar hvort aðrar lagfæringar beri að gera á lögunum, t.d. á 8. gr. þeirra.“

Hér lýkur tilvitnun í hæstv. fyrrverandi viðskrh. og núverandi fél.-, heilbr.- og trmrh. hæstv. ríkisstj.

Þessi tilvitnun, sem er úr ræðu hæstv. ráðh. á sínum tíma, sýnir að það voru Alþb.-menn sem fengu sín mál fram í þessum efnum í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, enda höfðu þeir viðskiptamálin þá hjá sér. Þetta sjónarmið staðfesti Þjóðviljinn, blað hæstv. fyrrv. viðskrh., þegar frv. að Ólafslögum var til umræðu á Alþingi Í leiðara Þjóðviljans segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í frv. var upphaflega gert ráð fytir að frjáls álagning yrði grundvallarregla í viðskiptalífinu, en því hefur nú fyrir tilstilli Alþb. verið umsnúið á þann veg, að sú regla er nú í fyrsta sinn numin á brott úr íslenskum lögum og íhlutunarréttur og úrslitavald Verðlagsstofnunar og ríkisstj. í verðlagsmálum skýlaust viðurkennt.“ Eins og allir sjá af þessari tilvitnun er það Alþb. sem ræður stefnunni í þessum málum.

Sumir ráðherrar núv. hæstv. ríkisstj. una því hins vegar illa að vera kallaðir ráðherrar í vinstri stjórn, og slíkt lái ég þeim ekki. Það er því furðulegt, að enn skuli þurfa að biða eftir stefnubreytingu í þessum efnum. Samt hafa verðlagsmálin verið rædd fram og aftur og skýrslur skrifaðar. Þeir, sem fylgst hafa með umræðunum, hafa gert sér ljóst að verðlagseftirlit á Íslandi er aðeins eftirlit með reiknitölum vísitölunnar, en tryggir engan veginn lágt vöruverð. Verðlagshömlur hafa komið í veg fyrir hagkvæm innkaup, því að innflytjandinn tapar á lágu innflutningsverði í prósentukerfinu. Þannig hefur verðlagskerfið leitt til hærra vöruverðs og lakari lífskjara í reynd. Loks má álíta það afleiðingu rangrar verðlagsstefnu hve afgreiðslufólk í verslunum er lágt launað miðað við sumar aðrar greinar.

Nýlega, þ.e. í síðasta mánuði, flutti Ólafur Davíðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar erindi á félagsfundi Félags íslenskra stórkaupmanna. Í erindi hans kom fram að fyrirtækjum í innflutningi hefur fjölgað án þess að tala mannára, þ.e. fjöldi starfsmanna í fullu starfi allt árið, hafi vaxið. Þetta þýðir að fyrirtækin hafa smækkað. Má nefna í því sambandi að meðalstærð nýrra fyrirtækja í almennri heildverslun, í starfsmönnum talið, er eitt og hálft mannár. Þessi þróun á sér stað á sama tíma og almenn álagning minnkar vegna aðgerða verðlagsyfirvalda, en umboðslaun hækka að sama skapi. Núverandi verðlagskerfi verður því til þess, að fyrirtækjum í innflutningi fjölgar, þau smækka, tekjurnar af sjálfri vörusölunni minnka, en verða meiri í formi umboðslauna. Þetta þýðir í raun að verslunin er að flytjast meira og meira úr landi.

Þetta rennir enn stoðum undir nauðsyn breytinga. Á fyrrgreindum fundi var Ólafur spurður hvort verðbólgan kæmi í veg fyrir að verðlagskerfinu væri breytt í frjálslegra horf. Hann svaraði orðrétt, með leyfi forseta: „Það er ekki margt sem bendir til þess, að breytingar hefðu afgerandi áhrif á verðlagsþróunina. Það færi að vísu eftir því í hvaða efnahagsástandi það gerðist. Kerfið hefur e.t.v. reyrt menn fasta í ákveðin mót og það tæki sennilega tíma að aðlagast breytingum í þessum efnum. En ég hef þó ekki trú á að kerfið rígbindi menn þannig, að ekkert svigrúm sé til breytinga.“

Á almennum félagsfundi Verslunarráðs 2. des. um verðlagsmál hélt formaður Verslunarráðsins ræðu. Í þeirri ræðu kom m.a. eftirfarandi fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Um þessar mundir hækkar allt verðlag til jafnaðar um 1% á viku. Rætt er um að koma á sérstakri verðstöðvun um næstu áramót. Má því spyrja: Hvað kennir reynslan okkur í þessum efnum? Í fyrsta lagi: Samfelld verðstöðvun hefur verið síðan 1970, en verðlag hefur hækkað um 30% til jafnaðar á ári. Í öðru lagi: Í fyrra voru tvenn verðstöðvunarlög í gildi, en verðlag hækkaði um rúm 60% yfir árið. Í þriðja lagi: Fyrsta verðlagsnefndin tók til starfa árið 1938, en síðan hefur verið samfellt verðbólguskeið á Íslandi. Samt lærum við lítið af reynslunni, þótt reynslan hafi yfir 40 ár sýnt að verðmyndunarhöft séu gagnslaus í baráttu við verðbólguna og geri illt verra, þar sem þau leiða til óhagkvæmni í atvinnulífinu og hefta framfarir.“

Þetta var tilvitnun í ræðu formanns Verslunarráðsins 2. des. s.l. á fundi hjá ráðinu, sem staðfestir reyndar sjónarmið sem flestallir menn hafa gert sér ljóst um aldir, allt frá því að fyrstu verðlagslög voru sett á dögum Hammurabis.

Verslunarráð Íslands sendi frá sér svo hljóðandi ályktun á þessum fundi 2. des., með leyfi forseta: „Fundurinn telur að ekki verði lengur horft fram hjá augljósum göllum núverandi verðmyndunarkerfis. Verðbólgan æðir áfram. Verðmyndunarhöftin draga úr samkeppni og slæva verðskyn neytenda. Ekki síst leiðir það til óhagstæðari viðskiptakjara og óhagkvæmni í atvinnulífinu. Brýna nauðsyn ber því til að færa íslenska verðmyndunarkerfið til frjálsræðis, þannig að kostir frjálsrar verðmyndunar fái notið sín., fyrirtækjum og starfsfólki þeirra svo og neytendum til hagsbóta. Fundurinn hvetur Alþingi til að marka þá stefnu, að frjáls verðmyndun taki gildi strax. Skorar fundurinn á Alþingi að samþykkja frv. það til breytinga á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem nú liggur fyrir Alþingi, með þeirri breytingu að 8. gr. laganna kveði skýrt á að verðmyndun verði gefin frjáls.“ Lýkur hér ályktun almenns félagsfundar Verslunarráðs sem haldinn var 2. des. s.l.

Í þessari ályktun kemur fram mikill stuðningur við viðhorf hæstv. viðskrh. í þessu máli. Það er eðlilegt að menn bíði eftir aðgerðum í þessu efni, en auðvitað er það best, ef þetta frv., sem við höfum flutt hér á hv. Alþingi fær stuðning. Ég tel, herra forseti, og það er mín trú, að frv. þetta eigi vísan stuðning a.m.k. þriggja stjórnmálaflokka á Alþingi.

Að lokinni 1. umr. óska ég þess, að frv. verði sent til hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar.