15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

173. mál, tollskrá

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessa frv. og vil þakka hv. 1. flm. fyrir það framtak hans að leggja þetta mál fram, sem mér finnst vera sjálfsagt og hann hefur gert ítarleg skil, enda hefur hann af þessum málum mikla reynslu. En ástæða þess, að ég kem hér upp, er sú, að sams konar ákvæði og er í 1. gr. þessa frv. er að finna á þskj. 74, í 68. máli, sem fjallar um breytingu á tollskrá og er fylgifrv. með svokölluðu tollkrítarfrv., sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen og fleiri þm. Sjálfstfl. og Alþfl. í deildinni hafa flutt. Því miður urðu engar umræður um þau frv. utan framsöguræðna sem fluttar voru. Hins vegar urðu miklar umræður um þessi mál á þinginu í fyrra, og þar boðaði hæstv. forsrh. að s.l. sumar yrði unnið að þessum málum. Og í ræðu hæstv. fjmrh. kom fram, að hann sýndi málinu jafnframt áhuga og taldi að það þyrfti að kanna vel og það ætti að gerast fljótlega, auk þess sem það kom fram í umræðunum, að þetta mál hefði verið til umræðu í hæstv. ríkisstj.

Nú stöndum við hér, hv. þm., og erum að flytja mál um breytingar á tollskrá. Við vorum rétt áðan að ljúka umræðu um breytingar á verðlagslögunum, sem eru jafnframt nauðsynlegar og við vitum að hafa yfirgnæfandi meirihlutafylgi þm. og reyndar mikið fylgi og yfirgnæfandi fylgi í hæstv. ríkisstj. En í þingsalnum situr einn hæstv. ráðh. Þeir koma hér með hvert málið á fætur öðru og ætlast til þess, að þm. stjórnarandstöðunnar sitji hér og greiði fyrir þeim málum með því að greiða götu þeirra, greiða atkv. með því, að þau komist til hv. nefnda fyrir jól. En áhugi þeirra á málum stjórnarandstöðunnar er með þeim hætti, að þeir treystast ekki til að sitja undir umræðum um þau mál, og hafa þó á fyrri þingum boðað það, að þeir væru sjálfir að undirbúa mál sömu tegundar. Þetta verður til þess, að ég vil beina þeim tilmælum mínum til hv. formanns fjh.- og viðskn. Nd., að hann ásamt þeim hv. þm., sem sitja í hv. fjh.- og viðskn., taki á þessum málum og vinni þau tiltölulega hratt, því ekki verður betur séð en hér sé á ferðinni mál sem eigi fylgi ríkisstj. Þá á ég við öll þau tollamál — að því meðtöldu sem hér er til umr. — sem hafa verið send til hv. nefndar, og auk þess frv. um verðlagsmálin sem á stuðning hæstv. viðskrh.

Ég vil leyfa mér að leggja áherslu á þetta, því að ég átti satt að segja von á að fá hér góðar umræður og yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. um stuðning í þessum málefnum. Því miður eru viðkomandi hæstv. ráðherrar ekki viðstaddir þessar umræður, en vonandi táknar það ekki annað en það, að þeim líki vel að málið fái hraða og góða afgreiðslu hjá hv. nefnd. Ég veit að hv. formaður fjh.- og viðskn. hefur að grundvallarsjónarmiði sömu hugmyndir og koma fram í öllum þessum frv., og ég treysti honum manna best til að fylgja fram þessum málum, sem örugglega hafa stuðning mikils meiri hl. þm. í hv. deild.