15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

103. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að í ræðum hv. þm. komi fram ákaflega úrelt viðhorf til þessa máls. Ég tel — og hef lýst þeirri skoðun minni margoft áður, a.m.k. þrívegis á hv. Alþingi — að það eigi að leggja orlofskerfið niður og atvinnurekendur eigi að greiða launþegum orlofið beint í launaumslagið.

Þessi millifærsluleið kostar Póst og síma á síðasta orlofsári, frá 1. maí 1979 til 1. maí 1980 — en veltan var 8 milljarðar — 238.2 millj, samkv. tölum sem ég hef fengið hjá Pósti og síma. Það er kostnaðurinn sem Póstur og sími telur að sé aðeins vegna þessa starfs, en vextirnir sem voru 24% þá hjá Seðlabankanum — gáfu 724.3 millj.

Ég tel að það sé verið að kasta peningum í súginn með þessum hætti, aðeins vegna þess að það er gamalt og úrelt trúaratriði verkalýðshreyfingarinnar, að almennt launafólk í landinu fari ekki í frí nema opinberir aðilar taki af þeim peningana, sem það á réttilega, og geymi þá á miklu lægri vöxtum en það fær í almennum sparisjóðsbókum. Og síðan, þegar fólki eru afhentir peningarnir, þá hljóti allir að fara í frí.

Ég spyr hv. þm.: Dettur einhverjum í hug að launamenn á Íslandi séu svo vitlausir, að þeir noti ekki peningana, ef þeim sýnist svo, til allt annarra hluta, t.d. að kaupa sjónvarp, bíl eða eitthvað allt annað en að fara í frí? Auðvitað gerir fólk það. Þar að auki eru þessir peningar — vegna þess að þeir eru teknir úr höndum launafólksins sem á þá — ávaxtaðir með miklu lakari hætti en gerist hjá þeim sem eru fastir launamenn og fá úfborgað í launum í orlofsmánuði sínum, því það eru laun á kauplagi þeirra daga sem orlofið er tekið. Hér er verið að efna til hundraða millj. kr. kostnaðar sem er algjörlega óþarfur, ef við bara treystum fólkinu í landinu til að ávaxta sitt pund.

En ég segi það, að af tvennu illu er skárra að verkalýðsleiðtogarnir fái að leika sér með þetta fé sinna manna en að Póstur og sími sé látinn hafa það, eins og til skamms tíma var, í veltunni hjá sér. Nú er að vísu Seðlabankinn með þessa peninga. Þetta voru 8 milljarðar á síðasta orlofsári. En ég spyr: Til hvers í ósköpunum er verið að þessu? Ég sat einu sinni yfir í prófi þegar ég var að vinna í húsi í bænum þar sem var skóli. Það var kallað í mig, það vantaði kennara og ég sat yfir í prófi í einn tíma og fékk einhver laun fyrir það sem mér voru send. Ég vissi ekki einu sinni um að ég fengi laun fyrir það. Svo fékk ég tvisvar tilkynningu frá Pósti og síma, þar sem mér var sagt að ég ætti 50 kr. í orlofsfé og ég mætti ná í það. Það var ekki fyrir strætisvagnamiðanum. Svona er farið með peninga þessarar stofnunar. Þetta er auðvitað alveg út í bláinn.

Ég skil auðvitað gamla verkalýðsleiðtoga eins og hv. fyrrv. þm. Eðvarð Sigurðsson, sem varði þetta með kjafti og klóm. Þetta voru menn sem þurftu fyrir því að hafa að fá orlofslögin í gegn. Það markmið hefur náðst. Nú á tímum er miklu meiri völ á því, hvað fólk getur gert við peningana, og auðvitað er langhreinlegast að afnema þessi lög og láta launþegana milliliðalaust hafa þessa peninga á þeim tíma, þegar þeir hafa rétt á því. 81/3% er náttúrlega talsvert fé. Það skiptir ekki sköpum, hvort það er hv. þm. Karvel Pálmason eða einhverjir aðrir sem ávaxta þessa peninga. Aðalatriðið er auðvitað það, að þetta eru peningar sem fólkið í landinu á og á að fá í sín launaumslög. En vegna þess að ég hygg að það séu fáir þm., sem hafa djörfung og dug til þess að standa með svo róttækum hugmyndum sem ég hef verið að lýsa hér, en hugsanlega gæti náðst meiri hl. fyrir till. hv. þm. Karvels Pálmasonar o.fl., þá styð ég auðvitað þá hugmynd því að hún er skárri kostur en hinn, sem er alveg út í bláinn.

Ég vek sem sagt athygli á því, hverjar vaxtatekjur Pósts og síma voru af þessu og hve mikinn kostnað Póstur og sími telur sig hafa af þessu. Auðvitað er þetta notað til að standa undir fjöldanum öllum af starfsmönnum hjá Póstgíróstofunni. Þetta er tilbúinn kostnaður, það er ekki hægt að meta hann með einum eð neinum hætti. En til hvers í ósköpunum eiga launamenn í þessu landi að vera að standa undir þessu? Þetta er algerlega út í bláinn. Þetta fólk á skilyrðislausan rétt á því að fá sína peninga í hendurnar strax.

Ég fagna því, að hæstv. ráðh. ætlar að taka til máls í þessu máli, því að ég veit að hann er framfarasinnaður og róttækur maður með afbrigðum. En þetta vekur upp aðra spurningu, sem ég ætla að beina til hæstv. ráðh., ef hann vildi gera svo lítið og svara þeirri spurningu, fyrst hann ætlar að koma í ræðustólinn: Hvað er að frétta af vaxtastefnu ríkisstj. sem kemur fram í Ólafslögum? Nú hlær hæstv. ráðh. Öll þjóðin hlær að þessum lögum með honum, þannig að ég lái honum ekki að hann skuli hlæja að þessum lögum. En fólkið í landinu — og þar á meðal sparifjáreigendur hlær ekki að ríkisstjórnum sem svíkja það. Það á hæstv. ráðh. að vita, að hann hlær einn að því. En sá hlær best sem síðast hlær, sem betur fer, og það verður eftir næstu kosningar þegar almenningur í þessu landi fær að segja álit sitt á þeim stjórnarherrum sem hér sitja og hafa tekið sér bólfestu í ríkisstjórnarstólum um hríð.

Ég vil sem sagt nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðh. fyrst hann tekur til máls: Hvað gerist um áramótin í vaxtamálum þeirra sem eiga fjármuni inni í bönkum landsins, sem hæstv. ríkisstj. hefur lofað að varðveita með öðrum hætti en hún gerir nú? Verða vextir hækkaðir eða ekki og verður efnt til brbl.? Ekki er að finna á listanum yfir frv. hæstv. ríkisstj. nokkurn skapaðan hlut um það, að hún ætli að hreyfa við vaxtamálunum, og þá hækka vextir líklega um 10 – 12%. Hæstv ráðh. hefur mikla réttlætiskennd. Hann styður auðvitað þann fjölda íslenskra sparenda sem leggur fjármuni í banka. Nema hann komi kannske hér í ræðustól og segi eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson um daginn, að sparifjáreigendur hafi hafnað þessari stefnu með því að þeir veldu frekar að leggja inn á reikninga sem væru með miklu lægri vexti. Slíka svartnættisvitleysu hafa hv. þm. ekki heyrt um langan tíma, en það gerði auðvitað enginn aths. við það, vegna þess að það var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem átti í hlut. En ég spyr sem sagt hæstv. ráðh. þegar hann kemur hér upp: Hvað verður gert í vaxtamálum um áramótin? Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera? Og það er ekki bara ég sem bíð eftir svari, heldur fjöldi annarra manna.