15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

103. mál, orlof

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Varðandi það frv., sem hér liggur fyrir frá 6v. þm. Karvel Pálmasyni og fleirum, vil ég taka undir þær aths. sem fram komu í þeim efnum hjá hv. 5. þm. Suðurl. og einnig hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Þessi mál eru nú í sérstakri athugun samkv. yfirlýsingu sem gefin var 27. okt. s.l., og ég held að það sé óskynsamlegt að fara að taka þennan þátt málanna út úr. Að þessari endurskoðun verður þannig staðið, að launamenn, væntanlega Alþýðusamband Íslands, munu fá aðild að þeirri endurskoðun eða nefndarskipun í því skyni, svo að ég býst við að hv. þm. Karvel Pálmason hljóti að vera sammála um það, að eðlilegt sé að sú athugun eigi sér stað.

Varðandi frv. að öðru leyti vil ég segja það, að í gildandi orlofslögum, nr. 87 frá 1971, er hvergi minnst á innheimtuaðila. Þar stendur aðeins að orlofsfé skuli greitt þannig að tryggt sé að launamaður fái það í hendur. Það er hins vegar í reglugerð nr. 150/1972 sem kveðið er á um það, að póststöðvar hafi ákveðið hlutverk í sambandi við innheimtu orlofs. Það er þess vegna í raun og veru reglugerðarmál, en ekki lagatextamál, eða hefur verið þannig, hvernig innheimtu orlofsfjárins er háttað, nema menn vilji breyta stefnu laganna og binda þetta í rauninni fastar en verið hefur. Ella tel ég ástæðulaust að vera að flytja sérstakt frv. um þetta, heldur væri eðlilegra að ákveða það með reglugerð, ef menn vildu breytingar. Þetta er smáatriði varðandi tæknilega hlið málsins, skiptir auðvitað ekki miklu máli efnislega, en tæknilega er það sem sagt þannig, að í núverandi orlofslögum eru engin ákvæði um innheimtuaðila.

Í grg. með frv. er talað um að innheimta orlofsfjár hafi verið mjög slök á undanförnum árum, og þar kemur reyndar líka fram að þetta sé allgamalt frv., og hafi komið fram tvisvar, þrisvar áður hér á Alþingi. Mér sýnist grg. reyndar bera það með sér, vegna þess að ég held að innheimtunni hafi farið dálítið fram á allra síðustu árum, og ég hygg að allir þeir, sem þekkja þar til, viðurkenni að svo er. Hins vegar má vafalaust bæta þar nokkuð úr.

Ég vil einnig minna á það í annan stað, að vextir eru 24% í dag af orlofsfé og voru í upphafi orlofsársins en það eru að meðaltali ekki miklu lakari vextir en greiddir voru að jafnaði á árinu næsta á undan, eins og kom fram í máli hv. 5. þm. Suðurl.

Hitt er svo annað í þessu máli, sem ég bið hv. þm. um að velta vandlega fyrir sér, og það er að núna er í rauninni um að ræða eins konar ábyrgð, bakábyrgð ríkisins á orlofinu. Hvernig ætla menn að koma þessari bakábyrgð fyrir ef þetta er fært út á einstaka staði, bæjarfélög eða landshluta? Ég held að þar sé um að ræða mál sem er vandasamt og ekki verði fram úr því leyst öðruvísi en þetta sé á einum stað.

Annað mál í tengslum við þetta er það, að einkenni íslenska vinnumarkaðarins er m.a. það, að talsverður fjöldi fólks flyst á milli staða á vertíðum, fer í framkvæmdir við stórvirkjanir og þess háttar. Hér er um að ræða allstóran hluta íslenskra launamanna. Það er hætt við því, ef slíku svæðisfyrirkomulagi væri komið upp eins og hv. þm. er að stinga upp á, að þessir menn, sem kallaðir eru stundum farandverkamenn nú í dögum, gætu misst niður rétt frá því sem er núna þegar orlofsinnheimtan er í höndum eins aðila. Ég held því að mjög margt mæti með því, að þetta verði haft á einni hendi, þó að það megi vafalaust bæta.

Ég minni á það í þessu sambandi, að Samband almennra lífeyrissjóða hefur núna nýlega samræmt allar lífeyrisréttarupplýsingar um allt land og komið þeim fyrir á einn stað. Það eru allir sammála um að þetta sé til bóta, þetta sé öryggisatriði fyrir launamenn frá því sem verið hefur. Ég hygg að það sama eigi við um orlofsféð.

Hv. þm. Karvel Pálmason þekkir vafalaust mjög vel eins og aðrir þm. hér, að það hefur verið ákaflega erfitt fyrir mörg verkalýðsfélög í landinu að innheimta ýmis gjöld, t.d. sjúkra- og orlofssjóðsgjöld. Það hefur verið ákaflega erfitt. Og það er erfitt fyrir þessi litlu félög t.d. að kosta dýra innheimtu í gegnum lögfræðinga á þessum gjöldum. Ég held sem sagt að hugmynd af því tagi, sem hér er um að ræða, eigi sér út af fyrir sig eðlilegar félagslegar skýringar, en ég held að hún yrði tæplega til bóta ef menn reyna að skoða málið í heild og meta stöðu orlofsþega í heild. Þess vegna vil ég vara mjög við því, að frv. af þessu tagi verði samþykkt. Það er sjálfsagt að skoða rökin í málinu, en hitt held ég þó að hv. þm. ættu að athuga fremst af öllu, að ef verkalýðshreyfingin í landinu hefur áhuga á að breyta þessum málum í grundvallaratriðum, þá er eðlilegast að koma því á framfæri í þeirri sérstöku nefnd sem fjallar um þessi mál í framhaldi af nýgerðum kjarasamningi. Það er óeðlilegt að mínu mati að fara að taka fram fyrir hendurnar á því starfi eins og sakir standa og hér er uppi tillaga um.

Ég vil aðeins í þessu sambandi geta þess, að það hefur verið kannað tauslega og óformlega, hvort hugsanlega væri heppilegra fyrir launamenn að orlofsféð yrði innheimt í gegnum bankana, en ekki í gegnum póstgírókerfið. Niðurstaðan er sú í fyrstu umferð a.m.k., að það yrði mun dýrara, að bankakerfið þyrfti meiri vaxtamun en póstgírókerfið þrátt fyrir at(t tekur. Það finnst mér einnig benda til þess, að menn megi ekki flana að neinu í þessum efnum, eins og mér fannst koma fram í máli hv. 10. þm. Reykv. áðan.

Varðandi vaxtamálin að öðru leyti heyrir framkvæmd laga um efnahagsmál, laga nr. 13/1979, svokallaðra Ólafslaga, undir hæstv. forsrh. og fyrir ríkisstj. liggja engar tillögur um vaxtahækkun frá Seðlabankanum. Ákvarðanir í þeim efnum hafa ekki verið teknar nýlega af ríkisstj.