15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1465)

103. mál, orlof

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Við erum ekki óvanir því orðnir, þm., þótt ráðherrar svari ekki einföldum spurningum, og náttúrlega út í hött að spyrja hvort þeir vilji hlíta lögum. Jafnvel hér á löggjafarsamkundunni er svarað út úr ef spurt er um þau atriði. Ég held að hæstv. félmrh. verði að sýna þessari stofnun þá virðingu að útskýra örlítið nánar hvað hann átti við með sínum síðustu orðum, hvort hugmyndin sé sú, að ríkisstj. ætli sér að flytja frv. um breytingar á Ólafslögum, eða hver meiningin sé. Hann var einn af þeim mönnum sem hvað harðast töluðu fyrir því á sínum tíma, að Ólafslög væru sett — og væntanlega þá í því skyni að þau verði haldin. Ég held að hann verði að gera svolítið betur grein fyrir sínu máli.

Það var annað í ræðu hæstv. ráðh. sem er ekki heldur óvanalegt. Hann kom hingað upp til að skýra frá því, að sett hefði verið nefnd í málið og að ríkisstj. hefði gefið yfirlýsingu. Við erum nú vanir yfirlýsingum frá ríkisstj. og þær hafa ekki haldið, þær eru marklausar. Yfirlýsing ráðh. um aðgerðir í máli — í sömu ræðu og þessi sami ráðh. lýsir því yfir, að hann varði ekki um lög sem hann sjálfur beitti sér fyrir að sett voru á Alþingi- eru auðvitað einskis virði, haldlaus. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt, að Alþingi sjálft taki þessi mál til ítarlegrar endurskoðunar, ræði þau í nefnd og fjalli raunverulega um þau og komist að niðurstöðu um það, hvernig þessum málum verði best fyrir komið. Ég held að það sé óhjákvæmilegt og launþegar eigi á því fullan rétt.

Ég vil einnig gjarnan fá nánari skýringar á því, hversu það má vera, að kostnaðarsamara yrði að reka þetta kerfi í tengslum við bankana en í sambandi við Póst og síma. Það kom ekki fram hjá ráðh. í hverju sá kostnaðarmunur er fólginn, hvort þjónusta Pósts og síma sé þá lakari en bankarnir gera ráð fyrir, á hvaða grundvelli sá samanburður var gerður eða hvað ráðh. lagði til grundvallar þegar hann talaði um að bankarnir yrðu að fá meira í sinn hlut heldur en Póstur og sími. Ég óska eftir nánari upplýsingum um það, hvað ráðh. hafði þar í huga.