15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

103. mál, orlof

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. svaraði þannig fsp. hv. þm. Friðriks Sophussonar um vaxtamál, að það vitnar um annað tveggja hjá hæstv. ráðh., yfirgripsmikla vanþekkingu ellegar hroka. Hann segir að ekki liggi fyrir ríkisstj. tillögur um vaxtahækkun frá framkvæmdanefnd, þ.e. Seðlabankanum. Með því ber að skilja hann svo, að ekki eigi að gera vaxtabreytingar nú um n.k. áramót.

Það er ljóst, að ríkisstj. er ekki annað en framkvæmdavald í landinu. Það er þessi stofnun hér, löggjafarvaldið, sem lögin setur. Með lögum nr. 13 frá 1979 var ákveðið að vextir skyldu breytast í áföngum í þá veru, að um n.k. áramót væri komið hér á svokölluðum raunvöxtum, annaðhvort með verðtryggingu eða með vaxtahækkunum. Margar stofnanir í þjóðfélaginu hafa hagað sér eftir þessu. Lífeyrissjóðirnir eru í vaxandi mæli að taka upp verðtryggingarkerfi. Má t.d. minna á stærsta lífeyrissjóð landsins, Lífeyrissjóð verslunarmanna, sem þessa reglu hefur tekið upp. En þegar ráðh. segir nú, að ekki liggi tillögur fyrir ríkisstj. og þess vegna muni ríkisstj. ekkert að hafast, þá er það auðvitað yfirlýsing um það, að ekkí sé áformað að standa við þessi lög, heldur skuli hér stunduð lögbrot af ríkisstj. Ríkisstj. er ekki til annars en að framkvæma þau lög, sem þessi stofnun setur eða meiri hl. innan hennar, og það verður að berja það út úr hausnum á þessum ráðh. og öðrum, sem svo hafa talað, að halda eitthvað annað, halda að ríkisstj. sé eitthvað annað og merkilegra en tæki til að framkvæma lögin sem sett eru.

Hæstv. forsrh. var um það spurður hér fyrir helgina, hvort til stæði að breyta lögum þannig að vaxtahækkun, sem væntanlega verður ein 10%, komi ekki til framkvæmda. En því aðeins er löglega að þessu staðið að lögunum sé breytt, því að ríkisstj. setur ekki lög eftir hendinni. Það er önnur stofnun í þjóðfélaginu sem það á að gera. Ég endurtek það, að hér birtist annaðhvort miskunnarlaus hroki hjá hæstv. ráðh., sem nú bitnar og mun bitna á sparifjáreigendum, eða alveg feikileg vanþekking á eðli framkvæmdavaldsins annars vegar og löggjafarvaldsins hins vegar.

Þegar vextir áttu að hækka um nokkur prósent 1. mars á þessu ári urðu hér umræður utan dagskrár, vegna þess að ljóst var að ríkisstj. ætlaði ekki að framfylgja lögunum. Hæstv. viðskrh., Tómas Árnason, gekk þó ekki lengra en það að segja að hér væri aðeins um tímabundna frestun að ræða og auðvitað stæði til að framfylgja ákvæðum þessara laga, sem stundum eru uppnefnd og kölluð Ólafslög. Hæstv. viðskrh. gekk aldrei lengra en svo að segja að endastöðin í þessum aðgerðum yrði um áramótin 1980–81, eins og heitið væri með lögunum. Nú verða menn að skilja hvernig ákvæði til bráðabirgða í 33. gr. þessara laga er skilið af sparendum í þessu landi. Þeir hafa auðvitað átt von á því, að vextir væru ekki hækkaðir, heldur væri þeim breytt til móts við verðbólguna, og það hefur verið gert. Ef þessi lög hefðu verið framkvæmd og ef framkvæmdin hefði orðið á þriggja mánaða fresti eins og er um aðrar vísitölubreytingar í þjóðfélaginu, t.a.m. að því er varðar lög, þá væri verðbólgustigið ekki svo hátt núna sem raun ber vitni. En léleg eða engin framkvæmd þessara laga af hálfu ríkisstj., sem augljóslega trúir ekki á lögin í landinu, hefur ýtt undir spákaupmennsku og brask af miskunnarlausu lagi.

Ég ætla að það hafi verið hv. þm. Geir Hallgrímsson sem taldi að ef ákvæðum þessara laga væri fylgt um áramót, þá ættu vextir að hækka á bilinu 10–12%. Svo kann vel að vera, og auðvitað er það mikil hækkun. En sú hækkun er vegna þess að ríkisstj., sem setið hefur í landinu síðan í febr., hefur ekki trúað á þessi ákvæði laganna. Hún hefur ekki breytt vöxtum á þriggja mánaða fresti eins og til var ætlast, og núna er kominn uppsafnaður vandi, eins og stundum er kallað. Hæstv. forsrh. var margspurður um það hér fyrir helgina, hvort til stæði að gefa út brbl. til að breyta þessu. Hann svaraði hvergi, sat og steinþagði í sæti sínu. Og nú kemur hæstv. félmrh., sem augljóslega skilur ekki samspil framkvæmdavalds og löggjafarvalds, og segir: Það liggja ekki tillögur á borði ríkisstj. um að breyta vaxtastefnunni. Það var ekki nokkur leið að skilja hann öðruvísi en svo, að það verði ekkert aðhafst. En ef ekkert er aðhafst og ef engum lögum er breytt, þá er ríkisstj. að ganga fram fyrir skjöldu og brjóta lög, því að ákvæði þessara laga eru alveg ótvíræð, hvernig menn eiga að hegða sér. Og ég held að meira að segja hæstv. forsrh. skilji það mætavel, en hæstv. félmrh. hins vegar ekki. Eftir sem áður, ef ríkisstj. ætlar sér að gefa út brbl. — fái hún til þess heimild frá Alþingi — og ef sett væru lög, við skulum segja 30. des., þar sem boðað væri afturhvarf frá vaxtastefnunni, þá er það stór spurning, hvort sparifjáreigendur geti ekki höfðað mál gegn ríkisvaldinu vegna þess að réttur hafi verið brotinn á þeim. Það er margyfirlýst af hæstv. viðskrh. hér á Alþingi, að vitaskuld standi til að lögin komi til framkvæmda. Þau eiga að gera það núna á gamlársdag eða fyrsta dag á nýju ári. Og þetta loforð Tómasar Arnasonar jafngildir auðvitað skuldbindingu til handa sparifjáreigendum í þessu landi. En það er ómögulegt að skilja hæstv. félmrh. öðruvísi en svo, að hann vilji svíkja þessi loforð löggjafarvaldsins til handa sparifjáreigendum í landinu. Þeir eiga því heimtingu á að ráðh. kveði upp úr með það, hvað hann hyggist fyrir, hvað gert verði í þessum efnum.

Það skal fúslega viðurkennt, að sá lagabálkur, sem hér var settur í mars 1979 og hét lög um stjórn efnahagsmála, er ekki virðulegasti lagabálkur sem Alþingi hefur sett, vegna þess hvernig með hefur verið farið. Eitt var þó ljóst alveg frá upphafi, kom síðast fram í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar hér fyrir nokkrum dögum, ein ákvæði þessara laga voru skýr og það eru vaktaákvæðin. Þar fór ekkert á milli mála, enda hefur enginn þm. eða ráðh. dirfst að halda öðru fram. Talað hefur verið um það, þegar vextir hafa átt að hækka, en hafa ekki gert það á þriggja mánaða fresti, að þar væri aðeins um útfærslu- og framkvæmdaatriði að ræða, en ekki brot á stefnunni. Þetta er margyfirlýst — og ég endurtek það — af hæstv. viðskrh. Tómasi Árnasyni. Þær dylgjur um svik, sem hæstv. félmrh. fór hér með áðan, dylgjur um það, að ríkisstj. ætlaði að svíkja í þessum efnum, það er í fyrsta skipti sem framkvæmdavaldshafi í þessari stofnun kemur þeirri skoðun á flot.

Ég tel mig í fullum rétti til að krefjast þess fyrir hönd sparifjáreigenda, að ráðh. svari því, hvað hann ætlar að gera, hvað ríkisstj. ætlar að gera um áramót, og gefa okkur þá forsendu, að Alþingi afsali sér valdi til brbl.- setningar til handa þessari sömu ríkisstj. Og ég endurtek það, að jafnvel þó að svo fari að þeir fari að krukka í vaxtalögin og þori ekki eina ferðina enn að gera það sem löggjafarvaldið þó hefur lofað að gera, þá er alveg opin sú spurning, hvort sparifjáreigendur í landinu geti ekki höfðað mál á hendur hinu svikula ríkisvaldi, ef það er þetta sem stendur fyrir dyrum að gera.

Ég endurtek þá skoðun mína, að enn ein efnahagsleg ógæfan, sem yfir þessa þjóð hefur dunið, er sú, að þegar núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð settust þar í valdastóla menn, sem trúðu ekki á hagstjórnartæki eins og vexti. Og það er auðvitað aldeilis afleitt, þegar menn þurfa að framkvæma stefnu sem þeir hafa ekki átt þátt í að móta. Slíkt veldur svikum, og það er það sem hér hefur gerst. Nú er hins vegar komið að vendipunkti þessa máls, vegna þess að dagurinn er að renna upp sem sparifjáreigendur höfðu getað miðað við þegar fé þeirra átti að vera að fullu verðtryggt. Og sem hann er að renna upp kemur hingað í ræðustól hæstv. félmrh. og gefur í skyn, dylgjar um það, að nú standi til að svíkja þessi loforð. Ég vil gjarnan heyra enn frekar hvað fyrir ráðh. vakir í þessum efnum.