15.12.1980
Neðri deild: 30. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

103. mál, orlof

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm., fjármagnseigandi í landinu, hefur lokið máli sínu og leggur mikið kapp á það, að ekki verði hvikað frá þeirri hávaxtastefnu sem hann hefur meðal annarra lagt þunga áherslu á. Hann sagði að þetta mál lægi alveg ljóst fyrir. Það væri enginn vafi á því, að þetta eða hitt væri lögbrot og þetta eða hitt væri ekki gert. Ég vil leyfa mér að lesa þetta umrædda ákvæði 33. gr. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun, en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir. Afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þ. á m. um heimildir til skuldabréfaskipta af þessu tilefni.“

Hvar stendur nú í þessum texta, að það sé lögbrot ef vaxtabreytingar eiga sér ekki stað á þriggja mánaða fresti? Það stendur hvergi. Þetta er ákvæði sem er einungis í kollinum á hv. þm., fjármagnseiganda Vilmundi Gylfasyni, en ekki í lagatextanum. Og ég vil aðeins skjóta því hér að og spyrja hv. þm. að því, hvort hann hafi ekki orðið var við það, að hver einasti sparifjáreigandi getur gengið í dag inn í banka og lagt fé sitt inn á verðtryggðan reikning og fengið sparifé sitt að fullu verðtryggt með ákveðnum vöxtum, og hvort hann hafi ekki líka orðið var við það, að menn geta fengið lán í bönkum verðtryggð þó að það sé kannske ekki í jafnríkum mæli og vera þyrfti.

Ég held að þessi lagagrein sé alls ekki þannig að hún verði bara túlkuð á einn veg. Ég held að það sé nokkuð ljóst, að hægt er að framkvæma þetta með ýmsum hætti. Og ég held að það sé satt að segja ákaflega æskileg og eðlileg stefna, sem farið hefur verið inn á, að sparifjáreigendum gefist örugglega kostur á að verðtryggja fé sitt með því að leggja það inn í banka. Allir sparifjáreigendur þurfa að eiga þess kost. Það er auðvitað spursmál hvort t.d. bindingin, sem nú er á þessu, er ekki of stíf, hvort ekki þarf að liðka þar til og stytta bindingartímann. En aðalatriðið er að menn eigi þessa kost. Hitt er hins vegar ekkert aðalatriði í málinu og alls ekki hægt að líta á það sem neina ótvíræða túlkun á þessum lagatexta, að öll lán í landinu — hvers eðlis sem þau eru — þurfi að vera verðtryggð eða á einhverjum svokölluðum raunvöxtum. Það er alls ekki um það að ræða. Ég tel að aðalatriði þessa máls sé að menn eigi kost á því að verðtryggja sparifé sitt í bankakerfinu með eðlilegum hætti, en það þurfi ekki endilega að þýða það, að allir vextir í landinu séu með einhverjum ákveðnum hætti.