15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

155. mál, ferðagjaldeyrir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það þarf náttúrlega ekki að taka það fram, að ég er andsnúinn þessu frv. og get raunar ekki skilið hvernig á því stendur, að það skuli finnast svo margir menn á Alþingi að nægir til að tryggja framgang þessa frv.

1. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Leggja skal 10% gjald á andvirði erlends gjaldeyris sem gjaldeyrisbankarnir selja til greiðstu á dvalarkostnaði erlendis öðrum en viðurkenndum kostnaði nemenda og sjúklinga og áhafnagjaldeyri. Gjaldið rennur í ríkissjóð og skal innheimt af gjaldeyrisbönkum eftir þeim reglum sem fjmrh. setur.“

Eins og þessi grein ber með sér er það gert að sérstökum tekjustofni fyrir ríkissjóð ef menn þurfa að bregða sér út fyrir landsteinana. Ég held að það sé nauðsynlegt strax nú við 1. umr. málsins að hæstv. fjmrh. upplýsi eftir hvaða reglum sé farið í þessu sambandi. Þarna er talað um viðurkenndan kostnað nemenda og sjúklinga. Ég vil spyrja í sambandi við sjúklinga t.d.: Ef svo stendur á að móðir þarf að fylgja sjúku barni úr landi eða nákominn ættingi, hversu er þá háttað álagningu þessa gjalds? Er viðkomandi skyldmenni þá gert að greiða sérstakan skatt af nauðsynlegum dvalarkostnaði sínum erlendis til að standa straum af þessu? Ég held að það sé nauðsynlegt að fá það upplýst strax við 1. umr. hversu þessu er háttað, hvernig haldið er á þessum málum ef um það er að ræða, eins og oft er, að ættingjar þurfa að leggja í mikinn kostnað í sambandi við dýrar aðgerðir sjúklinga erlendis og annað því um líkt.

Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. fjmrh. að því, vegna þess að hann leggur þetta frv. fram eins og það er hér, hvaða sérstök rök hann færir fyrir því, að ástæða sé til þess að maður sleppi við skattheimtu af þessu tagi ef hann er lögskráður á skip eða flugvél. Hvers vegna eiga slíkir menn að losna við opinber gjöld, sem eru lögð á aðra borgara þessa lands?

Ég er alls ekki þeirrar skoðunar, að það sé einhver sérstakur lúxus að ferðast til útlanda, og vil m.a. rifja það upp, að það er einmitt orðinn verulegur liður í störfum verkalýðsfélaga að greiða fyrir því, að fólki í launþegafélögunum gefist kostur á ódýrum ferðum erlendis. Einnig er það orðin viðtekin venja á liðnum árum, að í ýmsum skólum er stofnað til hópferða til útlanda. Sá kostnaður fellur að sjálfsögðu í mörgum tilvikum á foreldrana. Þar er um mjög tilfinnanlegan kostnað að ræða sem óhægt er að komast undan.

Fjölmörg fleiri atriði mætti tína hér til. En kjarni málsins er að sjálfsögðu sá, að við búum ekki við heilbrigða gjaldeyrislöggjöf og gjaldeyrisviðskipti. Það er ekkert heilbrigt við það hvernig þeim málum er háttað. Eftir þeim spurnum sem ég hef haft af þeim efnahagsráðstöfunum sem nú eru ræddar töluvert í ríkisstj., stendur jafnvel til að ganga skrefi lengra og taka upp einhvers konar bátagjaldeyriskerfi nú eftir áramótin og að nýju að byrja að flokka gjaldeyrinn eftir tegundum eða taka upp ríkisuppbætur af einhverju tagi. Væri fróðlegt að fá upplýsingar um það í leiðinni ef einhverjar þvílíkar hugmyndir eru í uppsiglingu. Mig langar sem sagt til að fá rökstuðning hæstv. ráðh. (ÓÞÞ: Hvaðan koma heimildirnar?) Heimildirnar um? (ÓÞÞ: Þessar fréttir um efnahagsaðgerðirnar.) Það er það sem gengur. (Gripið fram í: Gengur?) Já. Ég er ekki alveg sannfærður um, ég veit ekki, hvort þau ráð voru ráðin í Reykholti. Ég skal ekki segja það. En hitt veit ég, að mikið er um það rætt núna í sambandi við fiskverðið um áramótin og þær efnahagsráðstafanir, sem óhjákvæmilegt er að gripa til í kjölfar þess, að fella gengið mjög mikið, svo að ég upplýsi þm. Framsfl. um það, og hefur jafnvel verið rætt um í því sambandi að frysta gengishagnaðinn. Eftir því sem mér skilst hefur komið til tals að gera upptækan hluta af svokölluðum gengishagnaði af þeim fiski sem yrði í vinnslu eftir áramótin. Um þetta hef ég mjög tauslegar fregnir og væri fróðlegt að fá einhverjar nánari upplýsingar um þetta. (Gripið fram í: Þm. hefur engan rétt til þess.) Ég veit að hæstv. fjmrh. getur svarað þessu og fullvissað okkur um að ekki standi til að flækja gjaldeyrislöggjöfina meira en orðið er.

En mig langar til að fá rökstuðninginn fyrir því í fyrsta lagi: Hvers vegna er verið að mismuna mönnum varðandi gjaldeyri? Hvers vegna leggur hæstv. fjmrh. til að menn borgi mismikið fyrir gjaldeyrinn? Allir höfum við þó sama rétt til hans. Í öðru lagi: Hversu rúmar eru þær reglur? Hvað er talinn viðurkenndur kostnaður í sambandi við sjúklinga? Er það kostnaður þeirra manna sem óhjákvæmilega verða að fara með sjúklingunum til útlanda? Og í þriðja lagi vil ég spyrja hvernig hugtakið „nemandi“ er skilgreint eins og þetta er þarna lagt fram.

Ég býst við því, herra forseti, að það liggi ekki á afgreiðslu þessa frv. Ég lagði fram í deildinni fyrir einum og hálfum mánuði frv. um afnám barnaskatta á þessu ári og það hefur ekki enn fengist tekið til 2. umr. hér þótt tæpur mánuður sé síðan því var vísað til nefndar. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessu frv. liggi neitt á frekar, og býst þess vegna ekki við að nein áhersla sé á það lögð að frv. verði afgreitt fyrir áramótin.

Ég skal ekki vera á móti því, að frv. fái afgreiðslu í nefnd, en ég vil mótmæla því, að það sé gamall kunningi í deildinni. Það er náttúrlega vinstri kunningi í deildinni, en ekki gamall. Þetta gjald er lagt á af vinstri stjórnum, einn af vinstristjórnarsköttunum og á ekkert skylt við þau frumvörp sem hér hafa gengið í gegnum deildina svo árum skiptir. Hitt er aftur skemmtileg tilviljun að hæstv. forsrh., sem á sínum tíma var fjmrh., þegar gjaldeyrismálunum var komið í sæmilegt horf með viðreisninni, og fylgismenn hans eða fylgihnettir skuli nú ætla að greiða fyrir þessu máli gegnum Alþingi. Það eru hálfdapurleg örlög, finnst mér, fyrir þann frjálslynda mann sem á sínum yngri árum beitti sér fyrir margvíslegum framfaramálum, sem hrifu okkur sem þá vorum ungir, og okkur þótti mikið til hans koma.