15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

155. mál, ferðagjaldeyrir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er á sama máli og síðasti ræðumaður varðandi afstöðu til þess frv. sem hér er á ferðinni. Hér er verið að endurnýja skatt sem ég tel að sé mjög varhugaverður.

Hitt er svo annað mál, að það er skylt að taka fram að reglur um meðferð gjaldeyris hafa orðið frjálsari á undanförnum árum og það er til góðs. Stofnað hefur verið til gjaldeyrisreikninga einstaklinga í bönkum. Það ber að virða. En menn þurfa að átta sig á því, að meðan tvöfalt gengi og jafnvel margfalt er hér festist ekki fjármagn með sama hætti í slíkum reikningi. Gjaldeyrir gengur kaupum og sölum á yfirverði vegna þess að enn er um að ræða kvótafyrirkomulag á gjaldeyrissölunni þótt í þeim efnum hafi líka orðið framfarir.

Það er gömul hjátrú á Íslandi, að gengismál þessarar þjóðar þurfi að vera í eitthvað öðrum búningi en hjá öðrum þjóðum. Ég hygg að það sé kominn tími til að uppræta þá hjátrú. Auðvitað gilda sömu lögmál efnahagslífsins á Íslandi ef efnahagsstjórnin fylgir sömu reglum og annars staðar.

Það var minnst á heimildir áðan og menn höfðu í flimtingum að það hefðu flögrað fyrir ýmsar hugmyndir úr herbúðum ríkisstj. Ég get að vissu leyti tekið undir að þær heimildir eru ekki traustar, því að eins og allir vita virðast hæstv. ríkisstj. ekkert vera að hugsa um að efna til nokkurra aðgerða, ef ég hef skilið það rétt. En ein heimild er þó alveg traust. Það er dagblaðið Tíminn sem ég veit að hv. skrifari deildarinnar kannast við. Ágætur framsóknarmaður, Árni Benediktsson, sagði nýlega í Tímanum að það þyrfti að fella gengið um 20% um áramótin. Af því að hæstv. fjmrh. hefur beðið um orðið og ætlar að svara spurningum og ég veit að hann gerir það venjulega elskulega vil ég spyrja hann um það álit, sem kom fram í heimildinni, dagblaðinu Tímanum, að gengisaðlögunarsigið, eða hvað menn vilja kalla það, þurfi að verða 20% um áramótin til að koma til móts við þarfir fiskvinnslunnar í landinu. Mér finnst vera ástæða til þess að hann gefi þingheimi skýringar á þessum ummælum sem koma úr traustri og góðri heimild, sjálfu málgagni ríkisstj. Ég veit að fjmrh. verður ekki skotaskuld úr að svara þeirri spurningu.

Jafnframt er áhorfsmál hve langt á að ganga í þeim efnum að skattleggja það þegar menn þurfa að skipta um gjaldeyri og kaupa gjaldeyri. Tekjur af gjaldeyrisviðskiptum, umboðslaun og hitt og þetta samkv. fjárl. eru ekki bara þessir 2.4 milljarðar, heldur 6.6 milljarðar sem ríkið fær í skatta og gjöld í þessum og samsvarandi efnum. Þetta vildi ég líka láta koma fram þannig að menn átti sig á því, að álag á ferðagjaldeyri er ekki einasta féð sem ríkið fær í sinn hlut vegna gjaldeyriskaupa og sölu.

En vegna þess að það var spurt um heimildir má geta þess, að þær eru til. Það er dagblaðið Tíminn sem heldur því fram, og það er reyndar formaður frystihúsakeðju Sambandsins sem þar var á ferðinni, traustur maður og heill og góð heimild, að 20% gengisfall, gengissig eða gengisaðlögun þurfi um áramótin til að koma til móts við þarfir fiskvinnslunnar. — Gengið hefur verið miðað við þarfir fiskvinnslunnar hér á landi, eins og menn vita. — Af því að hæstv. ráðh. á erindi hér í stólinn verður hann kannske svo góður að láta þingheim vita um sín viðhorf til þessa máls.