27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

5. mál, barnalög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun ekki flytja langt mál um þetta viðamikla frv. sem hér hefur verið lagt fram og hæstv. ráðh. flutti framsögu fyrir rétt áðan. Ég fagna því, að þetta frv. hefur komið fram nú á þessu þingi og það virðist nú vera sett fram með þeim ásetningi, að frv. geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi. Frv. var aðeins rætt á síðasta þingi og þar kom fram hjá hæstv. ráðh. að sifjalaganefndin hefði viljað hafa málið um nokkurt skeið hjá sér til frekari athugunar, og í frv. kemur fram að örfáar breytingar hafa verið gerðar frá fyrri gerðum frv. Hæstv. ráðh. gerði síðan ítarlega grein fyrir efni frv. í sinni ræðu og er litlu eða engu við það að bæta. Í frv. eru ýmsar réttarbætur samkv. nýjum hugmyndum þar sem litið er á börn fyrst og fremst sem einstaklinga með sín réttindi, en ekki sem „eign“ foreldra sinna, eins og hefur bryddað á í lögum fram til þessa. Og nota ég þá orðið „eign“ innan gæsalappa.

Hv. allshn. fær nokkurn tíma til þess að fjalla um þetta viðamikla frv., enda er gildistakan í frv. ákveðin 1. jan. 1982. Það er eðlilegt að n. fái nokkurt tækifæri til þess að átta sig á aðalatriðum málsins og senda frv. út til umsagnar, þannig að ný viðhorf gætu komið fram umfram þau sem þegar liggja fyrir. Ég mun sem aðili að þeirri hv. n. reyna að gera mitt besta til þess að afgreiðsla hv. n. verði vönduð og hröð og að í umsögnum og umræðum í n. verði jafnframt fjallað um þau atriði sem koma fram í fskj. með frv. og hæstv. ráðh. minntist á í framsöguræðu.

Rétt áður en ég kom hér inn í þingsalinn og áður en þinghald hófst í dag var ég spurður af umsjónarmanni með barnaþætti í útvarpinu, unglingi, hvort börn hefðu verið spurð eitthvað um efni þessa frv. Ég varð að viðurkenna að ég héldi að þau hefðu ekki verið spurð um efni frv. En ég svaraði því til, að eflaust væri hægt að bæta úr því með því að kalla börn til skrafs og ráðagerða hjá hv. n. og taka þannig enn ný skref í þeirri réttindabaráttu sem mikið var til umr. á síðasta ári sem kallað var barnaár. Það getur nefnilega verið að það sé ástæða til þess fyrir okkur fullorðna fólkið, sem höfum kosningarrétt í landinu, að spyrja það fólk, jafnvel þótt ungt sé, hvernig því líki ýmis atriði í viðkomandi löggjöf.

Þetta frv., sem hér er til umr. og hefur verið lagt fram, fjallar um réttarstöðu einstaklinga, réttarstöðu barna sem búa hjá einstökum foreldrum, ekki hjá foreldrum báðum, réttarstöðu barna þar sem foreldrar hafa skilið. Mér finnst vera full ástæða til þess, þótt eflaust þyki ýmsum það broslegt, að þm. kalli til skrafs og ráðagerða aðila, sem þekkja af eigin raun þessi mál, og fái hjá þeim hugmyndir sem gætu verið til bóta.

Það hefur verið þannig, að löggjafinn — (Gripið fram í.) — Já, það er rétt, sem kemur fram hjá hv. þm., að fullorðna fólkið þekkir það. En mér finnst vera ástæða til þess að spyrja börn, sem þurfa í dag að lifa við þær aðstæður sem þetta frv. fjallar um, hvernig þeim líki efni frv. Þetta vildi ég láta koma fram, auk þess sem mér finnst þessi spurning forráðamanns barnaþáttarins í útvarpinu vera ágæt. Og ég vil gjarnan leggja þá spurningu fyrir hæstv. dómsmrh., þannig að því fáist svarað, hvort börn hafi verið spurð um efni frv. og hvernig að því hafi verið staðið, hafi verið um slíkt að ræða.

Og að allra síðustu, þá hjó ég eftir því hjá hæstv. ráðh., að hann talaði um jafnstöðu, sem er hugtak sem talsvert gætir í íslenskunni nú á dögum, en ég vil eindregið mælast til þess, að í því orðasambandi, sem þar var notað, sé talað um jafna skyldu, en ekki jafnstöðu, sem er markmið sem ég tel enga leið vera að ná.