15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

Afgreiðsla þingmáls

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tala að sjálfsögðu um þingsköp.

Ég leyfi mér að undrast stórlega þau orð, sem hér féllu, og leyfi mér að vísa öllum fullyrðingum um gusugang þangað sem þær eiga heima. Ég minni hv. 1. þm. Vestf. á að við höfum afgreitt þrjú mál frá nefndinni hingað til með samróma áliti nefndarinnar og við einstaklega ljúft samstarf nm., enda er mikil lúxusstaða að vera formaður í þessari nefnd þar sem í henni sitja tveir fyrrv. heilbr.- og trmrh. Þar hefur ekki borið nokkurn skugga á samstarf. Þess vegna kemur það mér afskaplega mikið á óvart að heyra þau orð sem hér féllu.

Ef við rekjum sögu þessara tveggja frumvarpa, sem nefndin á eftir óafgreidd, sem eru fæðingarorlof og 148. mál þingsins, er auðvitað alveg rétt að það hefur verið óeðlilegur hraði á afgreiðslu þeirra. Upphaf þess var, að þegar ráðh. mælti fyrir þessum frv. óskaði hann eftir að reynt yrði að greiða fyrir að þessi mál gengju fram fyrir áramót vegna þess að hér væri um ákvæði í kjarasamningum að ræða. Þetta hélt ég að hv. 1. þm. Vestf. væri fullljóst. Ráðh. bað jafnframt um að nefndir beggja deilda reyndu að hafa sem mesta samvinnu um þetta mál.

Það segir sig náttúrlega sjálft, þegar rúm vika er til jóla, þegar talað var fyrir frv., að tómt mál er að tala um fasta nefndafundi sem eru í hvorri deild einu sinni í viku. Það gat ekki komið neinum manni á óvart að halda yrði aukafundi í þessari nefnd. Ég ræddi við formann heilbr.og trn. Ed., hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, og hann tók því ljúflega, að við reyndum að hafa um þetta samstarf. Síðan var boðaður fundur, vissulega utan venjulegs fundartíma, enda var annað varta hægt því að fundir nefndanna falla alls ekki saman. Það er jafnframt rétt hjá hv. 1. þm. Vestf. að þá var hann upptekinn á fundi hjá sjútvn., og við því varð ekki gert. Hins vegar komu á þann fund þrír embættismenn, sem höfðu unnið að gerð þessa frv. og samningum við verkalýðshreyfinguna, og veittu þeim nm., sem mættir voru, gagnlegar upplýsingar. Síðan ákváðum við formenn beggja nefndanna að Nd. skyldi taka málið að sér. Það hafa auðvitað verið haldnir aukafundir, það er ekkert launungarmál. Við höfum kallað til okkar fulltrúa aðila vinnumarkaðarins.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um aðild Vinnuveitendasambandsins, þá var það einungis slys í önnum laugardagsins að fulltrúi frá því var ekki boðaður. Hins vegar hringdi ég til framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins sem tók þessari skýringu af afskaplega miklum skilningi, og ég bauð honum að koma á fund sem boðaður var í dag. Hann gat það því miður ekki, en kvaðst ekki hafa neinar meiri háttar aths. við frv. Mér gat ekki heyrst annað en hann skildi skýringu mína mjög vel og auðvitað harmaði ég að svona skyldi fara.

Fundurinn í dag var vissulega boðaður á þingfundatíma. Það var kannske eitt helsta atriðið í mikilúðlegri ræðu hv. 1. þm. Vestf. En því kann að hafa valdið mitt kunnáttuleysi, að ég ræddi málið ekki við forseta hv. deildar. Það er alveg rétt. Það gerði ég ekki, heldur boðaði menn á aukafund sem talað var um á fundinum í morgun að yrði haldinn síðar um daginn. Í millitíðinni hafði ég tekið saman þær breytingar sem n. gerði í morgun samkv. þeim aths. sem komu fram hjá gestum fundarins þá, en það var fundur í nefndum beggja deilda. Það, sem hv. 1. þm. Vestf. sá á borðinu hjá okkur þegar hann kom á fundinn, var vissulega ekki nál., heldur drög að nál. sem hver einasti formaður hlýtur að koma með tilbúin ef hann væntir þess að mál verði afgreitt.

Mér kemur sem sagt afskaplega spánskt fyrir sjónir hvar þessi gusugangur minn sem formanns hefur birst. Ég harma að hér sýnast ekki vera neinir þeir sem sitja með mér í nefndinni. — Þarna sé ég hv. þm. Magnús H. Magnússon. Mér er stórlega til efs að hann sé tilbúinn að taka undir þau orð sem hér féllu.

Ég er svo geðgóð manneskja að ég tek þetta eins og hvern annan gusugang sem maður gleymir strax og hann er afstaðinn. En ég vil taka það skýrt fram, að þessi n. hefur verið ákaflega sammála, sem sýnir sig í þremur samhljóða nál. Ég skal taka undir það, að mér finnst ekki ánægjulegt sem formaður nefndar að þurfa að reka svona á eftir máli, en ég tel að það sé dæmalaus hræsni ef hv. 1. þm. Vestf. hefur aldrei séð þau vinnubrögð á hinu háa Alþingi fyrr. Ég held að við könnumst öll við þetta. Ég hef ekki setið hér lengi, en mér sýndust ýmsar öldur skvettast hér fyrir þinglok á síðasta ári, og mér var tjáð þá að slíkt væri síður en svo nein nýlunda.

Vissulega er rétt að æskilegt væri að menn hefðu nógan tíma til að skoða svo mikilsvert mál, en þess skal þó getið, að áður hefur komið fram frv. um fæðingarorlof sem var grandskoðað. Fjölmargir komu þá á fundi með hinum ýmsu þm. Þetta frv. er því auðvitað ekki nein nýlunda einum eða neinum á hinu háa Alþingi.

Ég býst við, eftir því sem mér heyrist hér, að ég hafi leyfi til þess að verða við þeirri beiðni að halda annan fund. Skemmtilegra hefði mér þótt ef hv. 1. þm. Vestf. hefði hreinlega komið til mín og farið fram á það. Ég býst við að það hefði verið auðsótt. En ég skal kanna það. Ég er ekki nógu vel að mér um vinnubrögð þingsins. Mér heyrðist áðan að þetta væri hægt og ekkert er sjálfsagðara.

En mér finnst alveg ástæðulaust að ráðast með slíku offorsi að mér sem einhverjum versta formanni nefndar sem sögur fara af á hinu háa Alþingi. Ég leyfi mér að halda því fram, að ég eigi það engan veginn skilið.