15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

Afgreiðsla þingmáls

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður.

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá stuttu kennslustund sem hann hélt yfir mér og öðrum þm. um þingsköp. Hann sagði að meiri hl. n. réði algerlega ferðinni og þýddi þá ekkert fyrir minni hl. að vera að derra sig neitt. Það minnti mig á gamlan góðan bíleiganda á þeim árum þegar lítið var um bifreiðar. Hann hætti áætlunarferðum til Þingvalla og fékk gagnrýni. Þá setti hann auglýsingu í blöðin og sagði: Engar Þingvallaferðir á sunnudögum. Hér talar sá sem valdið hefur og bílana. — Og mér skildist að hæstv. fjmrh. hefði bæði valdið og bílana í þessu máli.

Ég held að ég þekki þingsköp nokkurn veginn eins vel og hæstv. ráðh. Ég er ekki tornæmari yfirleitt en gengur og gerist, en auðvitað ekkert eldskarpur heldur, en ég held að ég þekki þingsköp. Ég furða mig á að ráðh., forustumaður í stjórnmálaflokki, þar í fremstu víglinu, skuli láta það út úr sér, að ein nefnd eða meiri hl. einnar nefndar geti gengið til endanlegrar afgreiðslu á máli á sama tíma og yfir stendur fundur í þd. Það fæ ég ekki skilið. Ég er þá svona tornæmur, því að ég get ekki skilið að fjórir menn í n. geti boðað nefndarfund og sagt: Við ætlum að afgreiða mál hvort sem þið hinir getið mætt eða ekki. — Ég sýndi þá samviskusemi að sitja hér á deildarfundi. Hér hefur verið boðað af forsetum allt frá því að ég kom hér á þing að þm. ættu að sitja á deildarfundum og standa að afgreiðslu mála. Ég hefði kannske komið fyrr á þennan nefndarfund ef ég hefði ekki verið að búast, eins og ég sagði áðan, við atkvgr. um nokkur mál. Þess vegna tel ég að afgreiðsla n. á þessum tveimur málum í dag sé ekki í samræmi við þingsköp og ekki í samræmi við skyldur þær sem lagðar eru á herðar þm. Þess vegna lít ég svo á, að þessi afgreiðsla sé ólögleg. Með því að leggja þetta nál. á borðið með þeim hraða og látum sem raun ber vitni er nefndarformaðurinn að útiloka mig frá því að taka þátt í afgreiðslu málsins. Hann er líka að ganga fram hjá því, sem Pétur Sigurðsson óskaði eftir á taugardaginn, en hann tók fram í áheyrn þeirra nm., sem þá voru mættir, að hann væri með málinu, og skýrði frá því, að hann mundi verða erlendis þegar málið yrði sennilega afgreitt, en ætlaði að skrifa undir nál. Það er iðulega sem nefndir og nefndaformenn taka tillit til þess, þó að nefndarmenn geti ekki setið lokafund, ef þeir óska sérstaklega eftir því að vera með á nál. Fram hjá þessu er líka gengið.

Það má segja að þetta sé orðinn hlutur. Þetta nál. er komið fram. Ég bjóst við að nefndarformaðurinn reyndi þó að ná einhverju samkomulagi eftir að hvessti í dag, en það var haldið áfram og nál. lagt fram. En það, sem mér finnst að skipti mestu máli er ekki afgreiðslan á þessum tveimur nál., heldur hitt: Er það með samþykki forseta hv. deildar að meiri hl. í n. getur tekið mál til endanlegrar afgreiðslu, gengið frá nál. á meðan á þingfundi stendur og viðkomandi nefndarmenn eru að gegna skyldum sínum? (Fjmrh.: Það eru fordæmi fyrir því.) Ég minnist þess, að þm. sem var nokkur ár eftir að ég kom á þing, Skúli heitinn Guðmundsson, neitaði alltaf að taka þátt í nefndarstörfum þegar deildarfundir væru, og menn urðu að beygja sig undir það. Þeir urðu oft að koma til hans aftur síðar og óska eftir að hann kæmi á fund þó það væri knappur tími. Hitt er alveg rétt, og það tók ég fram líka áðan í mínu máli, að fjölmörg minni háttar mál, sem eru vel og vandlega undirbúin og liggja ljóst fyrir, hafa nefndir oft og einatt afgreitt í tímaþröng í þingi. Það mun ekki standa á mér frekar en áður að afgreiða slík mál. En ég sætti mig ekki við, eins og hefur verið gert í þessu máli, að ganga á þennan hátt fram hjá mönnum meðan á þingfundi stendur. Það er skylda nefndarformanns, hver sem hann er, að ganga ekki frá nál. á meðan þm. í nefndum telja sig verða að sitja á þingfundum. Það verður ekki gert nema með samkomulagi. Ég óska eftir að hæstv. forseti staðfesti annaðhvort að þetta sé rétt hjá mér eða þá hann segi frá sínum skilningi, en þá hljóta menn að taka ekki mjög alvarlega að þurfa að sitja þingfundi.