15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

Afgreiðsla þingmáls

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að það sé áhugaefni allra þm., bæði í ríkisstj. og stjórnarandstöðu, að afgreiða í tæka tíð fyrir jólaleyfi þm. þau mál sem afgreiðslu þurfa við. Ég fæ ekki séð annað en hér hafi komið fram ósk frá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni um að hv. formaður þeirrar n., sem hér er til umr., sýni eilitla lipurð í vinnubrögðum sínum með sama hætti og oft er óskað eftir að stjórnarandstæðingar sýni lipurð. Ég þykist hafa orðið var við að forseti þessarar ágætu deildar hafi beint sams konar orðum til formanns viðkomandi nefndar. Ég held að það sé rétt, með augun á framhaldi þingstarfa hér, að hv. þm. Guðrún Helgadóttir taki til athugunar að brjóta þann litla odd af oflæti sínu að boða nefndina formlega til fundar í fyrramálið og afgreiða þetta mál þá í sátt og samkomulagi við alla aðila. Ég fæ ekki séð að endanlega afgreiðsla þess úr þessari deild geti á nokkurn hátt tafist þó hv. þm. sýni það umburðarlyndi.