15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

152. mál, biskupskosning

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í menntmn. hv. deildar, sem hefur verið beðin að flytja frv. sem liggur fyrir á þskj. 190, 152. mál, en í n. var rætt um að einstakir nefndarmenn hefðu allan fyrirvara á hugsanlegum brtt., þá hef ég leyft mér að leggja fram brtt., sem eru á þskj. 233, og skal ég nú gera nokkra grein fyrir þeim.

Ég hef lagt til að 8. gr. orðist svo, með leyfi forseta: „Lög þessi taka gildi 1. janúar 1981“, en sleppt verði: „og fer eftir þeim um kosningu biskups á árinu 1981“. Síðan haldi greinin áfram óbreytt: „Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 21 27. júní 1921, um biskupskosningu.“

Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú, að ég tel að það leiði af sjálfu sér, að verði frv. að lögum, sem taka gildi 1. janúar 1981, fari að sjálfsögðu kosning biskups á árinu 1981 að þeim.

En þetta var smáatriði. Ákvæði til bráðabirgða hef ég hins vegar lagt fram af eftirfarandi ástæðum:

Þeir leikmenn, sem nú eiga sæti á kirkjuþingi og í kirkjuráði, voru ekki kjörnir til þess hlutverks að taka þátt í biskupskosningu. Í lögum nr. 43 frá 1957 segir um hlutverk kirkjuþings, að það hafi — með leyfi forseta — ráðgjafaratkvæði og tillögurétt um öll þau mál, er kirkju, klerkastétt og söfnuði landsins varða og heyra undir verksvið löggjafarvaldsins eða sæta forsetaúrskurði. Það hefur og rétt til þess að gera samþykktir um innri málefni kirkjunnar, guðsþjónustu, helgisiði, fermingar, veitingu sakramenta og önnur slík. Þær samþykktir eru þó eigi bindandi fyrr en þær hafa hlotið samþykki kirkjuráðs, prestastefnu og biskups.“

Kjörtímabil núverandi fulltrúa á kirkjuþingi rennur út 1982, biskupskosningar fara fram 1981. Því er ekki leynt í grg. með frv., sem hér liggur fyrir, að það sé samið að ósk kirkjuþings og biskups, en eins og menn víta eru fulltrúar á kirkjuþing kosnir til sex ára í senn, enda hafi frv. verið samþ. á síðasta kirkjuþingi í nóvember 1980. Beðið er um að afgreiðstu þess verði flýtt, einkum með tilliti til væntanlegra biskupskosninga.

Það hlýtur að vera óeðlilegt, að þeir, sem kusu fulltrúa til kirkjuþings, hafi þar með kosið þá til að kjósa biskup án þess að vera það ljóst á þeim tíma. Þá er tæpast eðlilegt að leikmenn á kirkjuþingi hafi með samþykkt þessa frv.á síðasta kirkjuþingi samþykkt eigin aðild að kjöri biskups. Varla er heldur eðlilegt að lagasetning fari fram með svo augljósu tilliti til eins ákveðins atburðar sem biskupskjörs 1981. Helst hefði frumkvæðið að sjálfsögðu átt að koma frá hinu háa Alþingi, en ekki kirkjuþingi. Mörg fordæmi munu þó um slíkt, þó að ekki sé það hin rétta leið lagasetningar. Lög skyldi helst setja til lengri tíma og með lengri tímamarkmið í huga. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er vissulega þannig úr garði gert að öðru leyti en hér hefur verið bent á.

Ég vil biðja hv. þm. að minnast þess, að Alþingi Íslendinga getur ekki veitt sjálfu sér með stjórnarskrárbreytingu meira vald en það hingað til hefur án þess að bera það undir vald kjósenda að nýju eða öllu heldur að bera eigið umboð að nýju undir þjóðina. Ég tel með öllu óeðlilegt að kirkjuþing geti frekar breytt völdum sínum án þess að fá nýtt umboð frá umbjóðendum sínum. Ég held að hv. alþm. hljóti við nánari skoðun að geta fallist á að þetta sé óeðlilegt.

Ég veit ekki, hvort það er rétt athugað hjá mér, og bið hv. alþm. að skoða það, en mér er ekki grunlaust um að lög um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar, nr. 43 frá 1957 kynnu einnig að þarfnast breytingar, einkum 14. gr., sem ég las rétt í þessu, um hlutverk kirkjuþings. Þó kann að vera að ný lög um biskupskosningu geti aukið eða bætt við hlutverk kirkjuþings. Ég hef ekki haft tíma til að athuga það, en a.m.k. sýnist mér að það sé með öllu óeðlilegt að kirkjuþing næstum skammti sér sjálft aðild að biskupskjöri, sem ljóst er að verður á árinu 1981, án þess að fulltrúar á kirkjuþingi fái til þess nýtt umboð.

Ég held að brtt. mínar geti ekki verið til neins skaða fyrir það annars ágæta frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil biðja hv. þm. deildarinnar að íhuga hvort ekki sé eðlilegt að samþykkja það ákvæði til bráðabirgða sem hér er stungið upp á.