15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1515)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Frv. þetta hefur hlotið afgreiðstu í hv. Ed.

Frv. þetta er til komið í beinu framhaldi af kjarasamningum á s.l. hausti. Eins og kunnugt er var þá gerður aðatkjarasamningur milli ríkisins og BSRB og í tengslum við hann var fallist á að ríkisstj. beitti sér fyrir nokkrum breytingum er vörðuðu félagsleg réttindi launafólks í samtökum BSRB. Þar á meðal voru nokkur mikilvæg atriði sem snertu Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í beinu framhaldi af þessum kjarasamningi voru gefin út brbl. 9. sept. s.l. þar sem samningsatriði þau, sem vörðuðu lífeyrissjóðsmál BSRB-manna, voru gerð að lögum. Brbl. eru með þessu frv. lögð fyrir Alþingi til staðfestingar.

Ég held að þessu máli hafi verið gerð svo ítarleg skil í umræðum um kjarasamninga opinberra starfsmanna að ekki sé þörf á því að fara mörgum orðum um þetta frv. En mikilvægustu greinum þess er þó rétt að vekja athygli á hér.

Það er í fyrsta lagi það ákvæði að fulltrúi frá Bandalagi háskólamanna eigi aðild að sjóðsstjórninni.

Í öðru lagi er skipan sjóðsstjórnarinnar breytt, þannig að sex menn skipa nú sjóðsstjórn. Þar af skipar fjmrn. þrjá stjórnarmenn, en starfsmenn ríkisins þrjá.

Í 3. greininni er gert ráð fyrir að sjóðfélagi greiði 4% af launum sínum í iðgjald til sjóðsins, en eins og kunnugt er voru greiðslur til sjóðsins heldur hærri en almennt gerist á vinnumarkaði og er þetta ákvæði til samræmis.

Í 4. gr. er svo eitt mikilvægasta ákvæði frv., að greiðslutími sjóðsins lengist úr 30 árum í 32 ár og tágmarksaldur sjóðfélaga er færður úr 20 árum í 16 ára aldur.

Í 6. gr. er mjög mikilvægt ákvæði þar sem endurvakin er sú regla, sem gilt hafði í þessum sjóði um margra áratuga skeið og raunar lengst af öldinni, að þeir, sem náð hafa samanlögðum 95 ára aldri og starfsaldri geta öðlast lífeyrisrétt, jafnvel þó þeir hafi ekki náð hinu almenna aldursmarki, 65 ára aldri. Þó er þessi réttur nú allmiklu þrengri en hann var fyrr á öldinni, því að sjóðsfélagar verða að hafa náð 60 ára aldri að lágmarki til að öðlast þessi réttindi.

Í sambandi við útgjöld ríkissjóðs vegna þessa ákvæðis er rétt að hafa í huga að lítil útgjöld verða af þessum ástæðum fyrst um sinn. Kemur þar tvennt til, að mjög margir sjóðfélagar njóta 95 ára reglunnar nú þegar vegna fyrri ákvæða um þetta efni, og eins hitt, að reynslan hefur sýnt að það er aðeins lítill hluti sjóðfélaga sem notar sér þessa reglu, yfirleitt ekki nema 10–20% sjóðfélaga, og stafar það einfaldlega af því, að þeir, sem eru lengur í störfum hjá ríkinu, fá hærri lífeyrisprósentu en þeir sem hætta eftir 95 ára reglunni og þeir, sem hafa heilsu og kraft í sér til að starfa áfram, kjósa það langsamlega flestir.

Í 14. gr. frv. er ákaflega mikilvægt ákvæði, sem ekki horfir beinlínis lífeyrisþegum til hagsbóta, heldur telur ríkissjóður þvert á móti sér til hagsbóta að því ákvæði er náð fram. Þar segir:

„Lífeyrissjóðurinn skal ávaxta a.m.k. 30% af heildarútlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs, enda ábyrgist ríkissjóður og greiði einungis þann hluta hækkunar lífeyrisins sem lífeyrissjóðurinn getur ekki risið undir með tekjum sínum af vöxtum og verðbótum af þessum 30% af heildarútlánum.“

Staðreyndin er sú, að fram að þessu hefur tifeyrir opinberra starfsmanna verið verðtryggður af ríkissjóði að fullu þannig að lífeyrissjóðurinn hefur greitt lífeyrinn eins og hann er þegar starfsmaðurinn kemst á eftirlaunaaldur, en ríkissjóður hefur hins vegar greitt sérstaklega verðtrygginguna sem bætist ofan á. Í þessu ákvæði er gert ráð fyrir að a.m.k. 30% af útlánum sjóðsins séu í verðtryggðum skuldabréfum og þá er hægt að láta sjóðinn standa undir 30% af verðtryggingunni. Þetta er sjálfsagt sanngirnismál sem félagar í BSRB hafa fallist á, en ástæða er til að vekja á því athygli, að þetta ákvæði er líka afar hagstætt fyrir ríkissjóð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.