15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að munnhöggvast frekar við hv. þm. Karvel Pálmason. Ef hann fullyrðir hér að hann þekki til þeirra samninga, sem gerðir voru í tengslum við almennu kjarasamningana í haust, á hann að vita að einn liðurinn í þeirri samningagerð var að stefnt skyldi að því að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn á næstu tveimur árum. (Gripið fram í: Veit hæstv. ráðh. hver munurinn er núna?)

Ég verð að segja það, að úr því að hv. þm. endurtekur þessa spurningu sína sannar hann það fyrir öllum viðstöddum, að hann veit ekki, hvað fólst í þessum samningum, og hefur ekki fylgst með því.

Í þessum samningum var það einmitt eitt atriðið að ríkisstj. féllst á að beita sér fyrir því, að komið yrði á almennu samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn og reyna að jafna kjör lífeyrisþega á þessu tímabili. En menn vita, að til þess að svo megi verða þarf að gera býsna róttækan uppskurð á lífeyrissjóðakerfinu. Það vita líka allir, að slíkur uppskurður verður ekki gerður á skömmum tíma, heldur þarf talsverðan undirbúning til. Sá undirbúningur er í fullum gangi. M.a. er sá undirbúningur fólginn í samþykkt þess frv. sem er til umr. nú í kvöld hér í Nd. Alþingis.

Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir að hv. þn-.. hefur fylgst illa með. Í fyrsta lagi veit hann ekki að bilið milli almennu lífeyrissjóðanna og hinna opinberu sjóða styttist verulega í þessum samningum, en það gerðist einfaldlega með því að tekjutryggingin er annars vegar hækkuð og hins vegar verður stigafjöldi félaga, sem fá greiðslur samkvæmt lögum um eftirlaun aldraðra, aukinn. (Gripið fram í: Hver er munurinn núna, hæstv. ráðh.?) En þó er verulegur munur þar á. Það þekkjum við öll. Þennan mun verðum við að vinna upp. Það höfum við einsett okkur að reyna að gera. En það verður ekki gert með því að ríkissjóður borgi allan mismuninn. Það virðist mega ráða af orðum hv. þm.ríkisstj. hefði átt að kippa þessu í lag með fáeinum pennastrikum í haust, öðruvísi hefði það ekki verið hægt, nema þá sú ósk hv. þm. hefði náð fram að ganga að réttur opinberu starfsmannanna hefði verið minnkaður þannig að hann yrði hliðstæður því sem almennu verkalýðsfélögin njóta nú. Öðruvísi var ekki hægt með einföldum ráðstöfunum á einni eða tveimur vikum að stytta þetta bil. Það var hægt að gera það á þann máta sem gert var, að hækka tekjutrygginguna og auka stigafjöldann, en til að jafna þennan mun algjörlega hefði orðið að svipta opinbera starfsmenn þeim rétti sem þeir hafa nú. Ég verð að segja að áróður Alþfl. og Alþýðublaðsins virðist beinast mjög í þá áttina, vegna þess að í hverjum leiðaranum á eftir öðrum býsnast leiðarahöfundur Alþýðublaðsins yfir þeim stórkostlegu réttindum sem opinberir starfsmenn njóta og er greinilega að reyna að vekja misklíð milli almennu lífeyrissjóðsfélaganna og opinberra starfsmanna.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. En vegna þessarar spurningar, sem hv. þm.. varpaði áðan fram er eðlilegast að hann kynni sér hvaða samningar voru gerðir í haust milti Alþýðusambandsins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Það er bersýnilegt af tveimur ræðum hv. þm., að hann hefur ekki hugmynd um hvað stendur í þessum samningum.