15.12.1980
Neðri deild: 31. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1520)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að eyða miklum tíma í þessar deilur, þegar við erum að reyna að ljúka hér þinghaldi, en vil koma hv. þm. Karvel Pálmasyni til aðstoðar í þessu máli.

Það vill þannig til, að mér var kunnugt um þá kröfugerð sem var uppi frá ASÍ í sambandi við lífeyrissjóðsmál. Það vantaði upp á eina 6 milljarða um það bil — ég man það ekki nákvæmlega — svo að hægt yrði að ganga að þeim kröfum. Ef hv. þm. vill styðja þær í einu og öllu getur hann flutt brtt. við fjárlögin. Ég sé að hann hefur flutt hér fjöldann allan af brtt., en hann hefur ekki gert tillögu um þetta. Það er ekkert annað að gera fyrir hann en að bæta henni þá við.