16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

127. mál, Landmanna-, Gnúpverja- og Holtamannaafréttir

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjendum fyrir að hafa komið þessu máli á dagskrá á hv. Alþingi, þó að ég sé í nokkrum vafa um hvort enn sé komið í ljós hvernig á að bregðast við þeim vanda sem þarna hefur komið upp.

Það er að sjálfsögðu áríðandi að fylgjast með því, hvernig gróðri reiðir af með vorinu. Ég var þarna á ferð daginn eftir að gosið byrjaði og sá þær skemmdir sem eru að mínum dómi á mjög takmörkuðu svæði á mínum heimaafrétti, Gnúpverjaafrétti. En af þeirri reynslu, sem við höfum haft áður af vikurfalli í næsta nágrenni Heklu, þá hefur það reynst svo, að það verður varla séð hvernig þessar skemmdir muni verða fyrr en að vetri liðnum, þegar sést hvað verður um fok af þessum svæðum.

Ég vænti þess, að það verði minna tjón af völdum gossins en menn hafa áætlað við fyrstu athuganir, en eigi að síður er ljóst að það verður að sjálfsögðu að kosta einhverju til ef á að halda jafngóðum gróðri og halda uppi því beitarþoli sem á þessu landi var. En eins og ég sagði áðan er það, eftir því sem ég veit best, sem betur fer mjög takmarkað svæði sem er illa farið af þessum sökum. Á mjög stóru svæði er aftur á móti nokkurt öskufall, sem þó hylur ekki nema hluta af gróðurlendinu, og það ætla ég að gæti orðið algerlega jafngott ef það fengi áburðarskammt þar sem gróður er fyrir hendi. Á þessu svæði er náttúrlega mjög mikið um hrein öræfi og örfoka land, sem ég geri ekki ráð fyrir að verði kostað til að fara að bera á að svo komnu máli. En ég tel að það sé mjög veigamikið að fylgjast með þessu frá upphafi og í raun og veru naumast hægt að ákveða fyrr en með vorinu hversu miklar þær aðgerðir þurfa að vera.