16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

358. mál, húsnæðismál póstþjónustunnar í Reykjavík

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir mjög góð og ítarleg svör við fsp. mínum.

Það er athyglisvert, sem kemur fram í svari hans, að engin lóð skuli hafa fengist frá Reykjavíkurborg undir miðstöð fyrir póstþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Það eru reyndar aðrar upplýsingar en ég taldi mig hafa fengið annars staðar frá.

Ég á von á að það, sem kemur fram frá hæstv. ráðh., sé satt og rétt, en það þýðir að sú nefnd, sem skipuð var 1973, er enn að störfum.

Það kemur enn fremur fram í svari hæstv. ráðh., sem er athyglisvert, að í þessu svokallaða bráðabirgðahúsnæði, sem er á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla, er ekki um að ræða framtíðarmiðstöð fyrir póstþjónustuna, heldur aðeins húsnæði fyrir einstakar póstrekstrardeildir, en það er tekið út úr heildaráætlun sem miðaði að því að leysa húsnæðismál póstþjónustunnar með einni varanlegri lausn.

Í þriðja lagi, og þar er ég alveg sammála því sem kom fram í svari hæstv. ráðh., virðist a.m.k. íhugunarefni hvernig staðið var að þessari byggingarframkvæmd í upphafi. Það er jafnframt athyglisvert hvernig fjármunum hefur verið varið miðað við áætlanir í fjárlögum. Því er ekki að leyna að ýmsir starfsmenn póstþjónustunnar eru uggandi um sinn hag þegar í ljós kemur að málið er leyst með bráðabirgðalausn, en á meðan því vindur fram er enn ekki séð fyrir þörfum póstmiðstöðvar í Reykjavík sem getur tekið við þeim miklu verkefnum sem pósturinn hlýtur að hafa með höndum í framtíðinni.

Ég vil að lokum aðeins ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh. og vona það og vænti þess að hann muni í starfi sínu vinna að því máli, að nefndin frá 1973 fái lausn frá störfum eftir að hún hefur lokið starfi sínu með þeim hætti sem hún telur vera vænlegastan til árangurs.