16.12.1980
Sameinað þing: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

141. mál, smíði brúar á Ölfusá

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta hv. 2. þm. Suðurl. Ég viðurkenni ekki að hafa átt sæti í tveimur ríkisstj. sem hafi gefið slíkar yfirlýsingar. Það getur ekki verið nema ein því að núv. ríkisstj. hefur ekki gert það. Ég kannast ekki við neina samþykkt frá núv. ríkisstj. varðandi Ölfusárbrú. (SteinG: Hvað segir forsrh. um það?) Ég verð að segja það. Ég kannast ekki við slíka samþykkt.

Hitt er svo annað mál, að ég vil endurtaka að ég er mjög velviljaður þessari framkvæmd, tel hana mikilvæga. En vita hv. þm. hvað hún kostar? Ég veit það ekki. Ég hef aldrei lagt í vana minn að gefa slík loforð áður en ég þekki staðreyndir málsins. Mér dettur það ekki í hug.

Ég endurtek það, að fyrst verður að ljúka þessari rannsókn. Ég tel hana vera á góðri leið. Það er unnið að henni eins og fjárveitingar leyfa. Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að hv. þm. Suðurl. hafa það mjög á sínu valdi í sambandi við gerð vegaáætlunar að ráðstafa fjármagni til slíkra rannsókna og auka það. Ég skal fyrir mitt leyti fyrst og fremst í höndum hv. þm.

Ég endurtek því að ég er velviljaður framkvæmdinni en áskil mér allan rétt til að skoða málið þegar niðurstöður af frumathugun liggja fyrir.